Verkefni styrkt sem gagnast norrænni skógrækt
NordGen Skog, skógarsvið norræna genabankans NordGen, auglýsir nú lausa til umsóknar námstyrki fyrir háskólanema á sviðum sem tengjast skógrækt, endurnýjun skóga, fræframleiðslu, plöntuuppeldi og þess háttar. Umsóknarfrestur er til 15. febrúar. NordGen Skog leggur árlega að mörkum fjárupphæð í því skyni að örva menntun og þekkingarmiðlun á starfsvæði sínu á Norðurlöndunum.
Umsóknarfrestur er til 15. febrúar 2015
Styrkjunum er ætlað að verða Norðurlöndunum öllum til hagsbóta með því að styðja við menntun, símenntun og þekkingarmiðlun milli fólks sem starfar í þessum löndum eða stundar þar nám á sviðum sem tengjast framleiðslu trjáplantna eða trjáplöntufræja, aðferðum við endurræktun og endurnýjun skóga eða uppeldi trjáplantna.
Styrki skal fyrst og fremst nýta til að greiða kostnað við ferðalög innan Norðurlandanna. Einnig má sækja um styrk fyrir kostnaði vegna vinnu við bakkalár- eða meistararitgerðir, til dæmis til kaupa á búnaði, greiðslu fyrir vinnu á rannsóknarstofum eða prentun skýrslna og greina.
Verkefni umsækjanda skal hafa norræna skírskotun og gagnast á Norðurlöndunum öllum. Hámarksstyrkur nemur 15.000 norskum krónum.
Frekari upplýsingar um skilmála og umsókn má finna á vef NordGen Skog:
http://www.nordgen.org/index.php/en/content/view/full/365
NordGen Skog (NordGen Forest) er samstarfsvettvangur vísindafólks, stjórnmálafólks og atvinnulífs í því sem tengist erfðafræði trjáa og varðveislu þeirrar erfðaauðlindar, að tryggja framboð á fræi og plöntum og endurnýjun skóga. Samstarfinu er ætlað að stuðla að gæðum plöntuframleiðslu og framförum í skógrækt með því að miðla þekkingu og reynslu til þeirra sem starfa á þessu sviði og til almennings. Starfsemi NordGen Skog skiptist í tvennt og í báðum hlutunum starfa fulltrúar frá öllum Norðurlöndunum:
- Annars vegar er ráð sem skipuleggur samstarf út á við, miðlar upplýsingum um skógrækt og endurnýjun skóga og ræðir viðfangsefni sem eru ofarlega á baugi í norrænni skógrækt.
- Hins vegar er vinnuhópur um erfðaauðlindir sem viðheldur samstarfi um verndun og nýtingu erfðaauðlinda skógarplantna.
NordGen (Nordiskt Genresurscenter) er norræn stofnun um varðveislu og nýtingu jurta, dýra og skóglendis og varðveislu nytjaplantna fyrir landbúnað. Hún sér um rekstur Alþjóðlegu fræhvelfingarinnar á Svalbarða. Norræna ráðherranefndin rekur stofnunina. NordGen var stofnað 1. janúar 2008 g tók þá við starfsemi Norræna genabankans, Norræna húsdýragenabankans og Fræ- og plönturáðs norrænnar skógræktar.
NordGen Skog byggist á starfsemi NSFP sem er fræ- og plönturáð skógræktar á Norðurlöndunum. Skipulagðar eru ráðstefnur, námskeið, vinnustofur og fundir, NordGen Skog fylgist með og efnir til rannsókna og þróunar og stendur fyrir ýmiss konar verkefnum og upplýsingamiðlun.
Skrifstofa NordGen Skog er rekin í tengslum við norsku skógar- og náttúrustofnunina Norsk institutt for skog og landskap að Ási í Noregi.
NordGen Forest - Forest unit of the Nordic Genetic Resource Centre
www.nordgen.org/forest
sími (+47) 64 94 89 35
farsími (+47) 90 50 66 61
tölvupóstur: kjersti.fjellstad@nordgen.org