Fyrir skömmu fundu þátttakendur á námskeiði um sveppi nýja og áður óþekkta sveppategund í þjóðskóginum í Jafnaskarði við Hreðavatn. Endurmenntunardeild LbhÍ bauð í haust upp á nokkur námskeið um sveppi og sveppatínslu með Bjarna Diðrik Sigurðssyni, prófessor í skógfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands. Umrætt námskeið var haldið í samstarfi við Símenntunarstöð Vesturlands í Borgarnesi. Bjarni Diðrik endaði námskeiðið með því að fara með hópinn í Jafnaskarðsskóg sem er einn af þjóðskógum Íslands í umsjón Skógræktar ríkisins og því öllum opinn. Jafnaskarðsskógur er um hálfrar aldar gamall. Í honum vex m.a. rauðgreni.

Bjarni Diðrik segir að tegundin, sem hann leggur til að fái nafnið gallskjalda (Tricholoma virgatum), sé lítillega eitruð og geti auðveldlega ruglast við ágætan matsvepp sem hér vex með furu og heitir moldskjalda. Þessi nýja tegund hefur auk þess ákaflega vont gallbragð sem eyðileggur alla svepparétti sem hún myndi lenda í auk þess að vera eitruð.Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, sveppafræðingur á Náttúrufræðistofnun, hefur staðfest að um nýja tegund er að ræða fyrir landið.

Bjarni Diðrik segir að á Íslandi finnist um 70 tegundir af ætum hattsveppum, en það eru um 15% allra hattsveppategunda sem vaxa hérlendis. Þetta þýðir með öðrum orðum að þó að tegundirnar séu margar þá eru um 80-90% líkur að tegund sé óæt eða jafnvel eitruð ef einhver tínir sveppi sem hann eða hún þekkir ekki örugglega.

Hann leggur því áherslu á að mikilvægt sé fyrir fólk að fara á námskeið eða fara fyrst með vönum manni í sveppamó og aldrei tína neinar sveppategundir sem maður þekkir ekki með vissu. Hér á landi vaxa einnig sveppategundir sem eru eitraðar, jafnvel baneitraðar, og það er ekki hægt að nota neina þumalputtareglu til að þekkja þær frá ætum sveppum. Þær geta verið með góðum sveppailm og bragði, étnar af sniglum og skordýrum, o.s.frv . Það er hinsvegar tiltölulega einfalt að læra að þekkja ákveðnar tegundir og á byrjendanámskeiði Bjarna Diðriks lærir fólk að þekkja um 20 tegundir af ætum sveppum sem hægt er að tína án áhættu.
 
Bjarni Diðrik segir að mikil vakning sé nú hér á landi um nýtingu ætisveppa og sveppatínsla sé orðin nokkuð útbreitt áhugamál. Stór hluti ætra sveppa vex í skógum og því sé nýting ætisveppa orðin mikilvæg nýting á mörgum skógræktarsvæðum hérlendis.

Frétt: Landbúnaðarháskóli Íslands

Mynd: Bjarni Diðrik Sigurðsson