Maríuskór er ein sjö belgjurtategunda sem nú eru reyndar með moltu á Hólasandi. Niturbindandi plöntur geta hjálpað birki að komast upp á sandinum með því að láta því í té nitur til vaxtar. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Skógræktin og Landgræðslan standa saman að nýrri tilraun á Hólasandi þar sem kannað verða hvernig sjö tegundir belgjurta þrífast á sandinum með hjálp moltu. Markmiðið er að finna hentugar niturbindandi tegundir sem hjálpað geta birki að vaxa upp á örfoka landi.
Belgjurtategundirnar sem settar voru niður í tilrauninni eru gullkollur (Anthyllis vulneraria), hvítsmári (Trifolium repens), rauðsmári (Trifolium pratense), umfeðmingur (Vicia cracca), baunagras (Lathyrus japonicus), seljahnúta (Astragalus alpinus) og maríuskór (Lotus corniculatus). Allar þessar tegundir vaxa villtar á Íslandi nema þær tvær síðastnefndu. Engin þeirra er hins vegar svo stórvaxin eða frek að hún skyggi á aðrar tegundir og því ættu þær allar að geta hjálpað litlum birkiplöntum að vaxa úr grasi.
Markmiðið með tilrauninni er að skoða hvort þessar tegundir geta þrifist á sandinum með aðstoð moltu. Hugmyndin er að moltan hjálpi birki og belgjurtum að komast á legg og belgjurtirnar haldi svo áfram að sjá birkinu fyrir nitri til vaxtar og viðgangs. Niðurstöður tilraunarinnar gætu gefið vísbendingar um hverjar þessara tegunda séu vænlegar til að leika þetta hlutverk sem hjálparkokkar birkisins þar sem næringarástand í jarðvegi er lélegt.
Sömuleiðis gæti tilraunin gefið betri þekkingu á því hvernig nota megi moltu í samspili við niturbindandi plöntur á auðnum. Moltan er fengin hjá Moltu ehf. í Eyjafjarðarsveit sem tekur þátt í moltutilraunum á Hólasandi ásamt Skógræktinni og Landgræðslunni. Í þetta sinn var moltunni dreift með mykjudreifara þannig að hún myndaði þunnt lag á sandinum. Þetta er hagkvæm aðferð til dreifingar á moltunni og hefur meðal annars þau áhrif að sá litli gróður sem fyrir er á sandinum styrkist, bætir þar með skilyrði fyrir trjáplöntur að vaxa upp og eykur fjölbreytni gróðurs á svæðinu. Molta inniheldur margvísleg næringar- og snefilefni en þó er niturhlutfall fremur lágt miðað við ýmsan annan áburð. Belgjurtirnar gætu mögulega bætt það upp, ekki síst til lengri tíma, ef þær fá góða byrjun með hjálp moltunnar og ná að vaxa og dafna.
Meðfylgjandi myndir voru teknar 25. og 26. ágúst þegar unnið var að því að setja tilraunina út. Þær sýna tilraunasvæðið á Hólasandi þar sem dreift hafði verið moltu. Tilraunin var sett út í afmarkaða reiti með blöndu af belgjurtategundunum sjö og birki. Í hvern reit fóru 200 birkiplöntur og um 70 belgjurtaplöntur.
Tíminn mun leiða í ljós hvort belgjurtirnar lifa og með árunum sést hvort þær ná að gera gagn. Kjartan Benediktsson sá um að rækta belgjurtirnar í tilraunina og eru honum færðar þakkir fyrir. Tilraunin nýtur að hluta til styrks frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og er sem fyrr segir samstarf Skógræktarinnar, Landgræðslunnar og Moltu ehf. Hún er auk þess hluti af stærra verkefni með fleiri samstarsaðilum þar sem nýting Moltu er í forgrunni. Brynjar Skúlason, skógerfðafræðingur hjá Skógræktinni, stýrir þessu tilraunastarfi í samstarfi við Daða Lange, héraðsfulltrúa Landgræðslunnar.