Kýr á íslensku búi. Ljósmynd: rml.is
Kýr á íslensku búi. Ljósmynd: rml.is

Samningur hefur verið undirritaður við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og umhverfis- og auðlindaráðuneytið um að verkefnið Loftslagsvænn landbúnaður verði stækkað og nautgripabændum boðin þátttaka í því. Auglýst hefur verið eftir fimmtán þátttökubúum í nautgriparækt sem hafa áhuga á að setja sér skriflega aðgerðaráætlun fyrir búreksturinn, hrinda markmiðum í framkvæmd og vera virkir þátttakendur í vegferð landbúnaðarins að loftslagsvænum lausnum.

Loftslagsvænn landbúnaður er hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Markmið verkefnisins er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka kolefnisbindingu. Samningurinn við ráðuneytin tvö var undirritaður fyrr í júnímánuði og þar með nær verkefnið bæði til sauðfjár- og nautgripabúa.

Þátttakendur í Loftslagsvænni landbúnaði gera skriflega aðgerðaáætlun fyrir búreksturinn, hrinda loftslagsmarkmiðum í framkvæmd og eru virkir þátttakendur í vegferð landbúnaðarins að loftslagsvænum lausunum. Þátttakendur fá heildstæða ráðgjöf, fræðslu og aðhald frá RML, Landgræðslunni og Skógræktinni. Auk þess fá þau þátttökustyrk, styrk til efnagreininga og þegar líður á verkefnið aðgerða- og árangurstengdar greiðslur.

Nú þegar eru 27 sauðfjárbú í verkefninu vítt og breitt um landið, öll í gæðastýrðri sauðfjárrækt. Öll hafa þau sett sér aðgerðaáætlun og eru byrjuð að vinna að loftslagsvænum markmiðum að því er fram kemur í frétt á vef Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins. Þar eru bændur í nautgriparækt nú boðnir velkomnir í hópinn.

Verkefnastjórn stýrir verkefninu og áskilur hún sér rétt til að velja þátttakendur, verði umsækjendur fleiri en fimmtán. Öll þátttökubú þurfa að uppfylla lögbundnar skýrsluhaldskröfur sbr. 4. gr. reglugerðar um stuðning við nautgriparækt.

Verkefnið nýja með nautgripabændum hefst í september 2021. Áhugasamir um þátttöku geta sótt um á vefsíðu RML, www.rml.is, eða haft samband við Berglindi Ósk Alfreðsdóttur verkefnastjóra í síma 516-5000 eða á berglind@rml.is.


Sækja um þátttöku

Sett á skogur.is: Pétur Halldórsson