Umræða á Alþingi þann 16. apríl 2004. 

Oft heyrast þær raddir að sameina eigi Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins.  Nú hefur verið gerð fyrirspurn til landbúnaðarráðherra um hvort að sameining standi til og hvort hún hafi verið undirbúin.  Hér að neðan er að finna hluta af umræðunni, svar landbúnaðarráðherra og álit annarra.  Efni þessarar fréttar er tekið af vef Alþingis, www.althingi.is 834.mál, þingskjal 1275. 

 

Fyrirspurn

til landbúnaðarráðherra um sameiningu Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins.

Frá Björgvini G. Sigurðssyni Samfylkingunni.

    1.      Stendur til að sameina Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins?
    2.      Hefur farið fram undirbúningsvinna að slíkri sameiningu?

 

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég beini þeirri fyrirspurn til hæstv. landbrh. hvort til standi að sameina Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins og í öðru lagi hvort farið hafi fram undirbúningsvinna að slíkri sameiningu. Að mínu mati og margra mati mælir margt með því að sameina eigi Landgræðsluna og Skógræktina. Stofnanirnar eru um margt líkar og vinna að svipuðum markmiðum og voru upphaflega ein og sama stofnunin og störfuðu lengi eftir sömu lögum. Við sameiningu yrði til stór og öflug stofnun. Reyndar mætti einfalda hana, t.d með því að taka verkefnið Bændur græða landið og sameina það landshlutabundnum skógræktarverkefnum. Nýja stofnunin mundi þá hafa eftirlit með framkvæmdaraðilum og stunda rannsóknir og þróun samhliða því.

Samnýta mætti krafta beggja stofnananna sem mundi án vafa skila sér í skilvirkara starfi með margvíslegum og jákvæðum hætti. Stofnanirnar ráða yfir tækjum og tólum sem yrðu samnýtt og margs konar hagræði mætti hafa af sameinaðri og öflugri stofnun til hvers konar landgræðslu og skógræktar. Sem dæmi má nefna að Skógræktin ræður yfir yfirgripsmikilli þekkingu hvað varðar uppgræðslu með trjágróðri en fullyrða má að skógrækt sé afar góð og varanleg landgræðsla og jafnvel ein sú besta. Þá mundi samvinna sérfræðinga hjá stofnunum aukast, þekkingarflæði yrði meira á báða vegu og sú mikla sérfræðiþekking sem tilheyrir stofnununum nýttist betur ef kraftar þeirra lægju að fullu saman. Stofnanirnar vinna að svipuðum verkefnum á sömu svæðum, t.d. í Þórsmörk, og þurfa báðar að senda aðila er varða þau svæði á fundi þegar samningagerð stendur yfir o.fl. Báðar stofnanirnar vinna að rannsóknum á svipuðum sviðum, báðar stunda frærækt, spírunarprófanir á fræi og fleiri slík dæmi mætti nefna um skörun sem þýðir bæði óhagræði og tímasóun.

Í því samhengi má einnig nefna að stofnanirnar þurfa báðar að skila af sér skýrslu varðandi alþjóðlegar skuldbindingar, t.d. um bindingu kolefnis í gróðri, trjágróðri eða landgræðsluplöntum. Þá má nefna að mjög mikil samvinna og góð er nú þegar í gangi á ýmsum sviðum þessara tveggja stofnana. Sú samvinna yrði einfaldari eftir sameiningu. Samvinnan felst í uppgræðslu og rannsóknum á skógrækt, landgræðslu, samnýtingu á tækjum, sameiginlegum fræðsluráðstefnum, samvinnu í kortagerð og áætlunum og samvinnu varðandi fræðslu. Draga má hagnýtingu sameiningar í eftirfarandi staðhæfingar: Það yrði meiri landgræðsla og skógrækt í landinu, nýjar og öflugar aðferðir kæmu til sögunnar, aukin kynning á kostum og mikilvægi skógræktar og landgræðslu færi fram og síðast en alls ekki síst aukið fjármagn, t.d. í formi rannsóknarstyrkja, og meiri líkur eru hjá stærri og öflugri stofnun að ná sér í styrki utan landsteinanna, t.d. Evrópustyrki ýmiss konar. Því beini ég áðurnefndri fyrirspurn til hæstv. landbrh. hvort slík sameining standi fyrir dyrum.

 

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Færa má fyrir því sterk rök að aldrei hafi farið fram meira landgræðslu- að ég tali nú ekki um skógræktarstarf í landinu en það sem skapast hefur á síðustu 5-10 árum og er það mjög að breyta landinu og hugarfari okkar.

Hvað spurningu hv. þm. varðar vil ég svara henni á þann veg að ég tel í rauninni mikilvægt að fara yfir allt stoðkerfi landbúnaðarins með það í huga að það verði sem skilvirkast og þjóni sem best hagsmunum landbúnaðarins og bændanna í breyttu þjóðfélagi.

Á morgun mæli ég fyrir frv. um Landbúnaðarháskóla Íslands og Rannsóknastofnun landbúnaðarins í einni stofnun sem dæmi um nýja sýn og nýja mikilvæga þróun.

Ég vil líka segja frá að ný sýn sem ég hef sett fram er landbúnaðarstofnun þar sem allt eftirlit innan landbúnaðarins yrði staðsett. Ég tel t.d. að væntanleg matvælastofnun geti aldrei orðið langt frá landbrn. eða landbúnaðinum. Við sjáum dæmi þess í nágrannaþjóðfélögum eins og t.d. í Danmörku að slíkt heyrir undir landbrn. Keðjan er frá haga í maga. Ég útiloka í raun ekki að það geti komið til þess og það þarf að fara rækilega yfir samruna Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins og hinna stórfenglegu skógræktarverkefna, landshlutaverkefnanna, og hvernig við þjónum best þeim nýja og öfluga atvinnuvegi sem er að rísa í landinu. Við gerum okkur grein fyrir því að hlutverk Skógræktar ríkisins og Landgræðslu ríkisins hefur breyst mjög á síðustu árum. Þær eru ekki lengur framkvæmdastofnanir heldur fyrst og fremst þjónustu- og ráðgjafarfyrirtæki þannig að hlutverk þeirra hefur breyst. Það eru bændurnir í landinu sem rækta skóginn og eigendur lögbýlanna, það eru bændurnir sem eru mjög öflugir í landgræðslunni o.s.frv.

Ég tel mjög mikilvægt að fara yfir það allt saman í heild sinni með Bændasamtökum Íslands hvernig allri ráðgjöf við landbúnaðinn verður hagað og hvar t.d. sterkar þjónustumiðstöðvar, ráðunautaþjónustan, séu staðsettar. Við getum hugsað það sem hv. þm. sagði áðan, ef við hugsum um menntun sem þarf í landbúnaðinum, að við komum inn í dal þar sem rennur kannski á og í ánni er fiskur sem bóndinn vill hafa arð af. Hann þarf sérfræðing í það. Hann þarf sérfræðing í túnræktina á bökkum árinnar. Hann þarf sérfræðing frá Skógræktinni í skógræktarverkefni sem hann er með uppi í hlíðinni og þar fyrir ofan er kannski uppblástur lands. Allt er þetta svipuð menntun og þarf ekki að sækja hana í sjálfu sér til margra stofnana.

Ég tek þess vegna undir það með hv. þm. að á þetta þarf að varpa sýn og vissulega er ég að skoða það í mörgum þeim breytingum sem nú er unnið að. Á síðustu árum hefur slík umræða oft komið upp. Það var vandlega skoðað í ráðherratíð hv. þm. Halldórs Blöndals, sameining rædd o.s.frv. á þessu sviði, og þá var bent á nokkrar leiðir sem væru hyggilegar fyrir þessar stofnanir, annaðhvort aukin samvinna eða sameiginleg yfirstjórn eða óbreytt ástand eða allsherjarsameining í eina stofnun. Ekkert hefur orðið úr þessu enn þá.

Eins var þetta skoðað mjög vel í tíð Guðmundar Bjarnasonar landbrh. Sömuleiðis starfaði nefnd hjá mér á árunum 2000 og 2001 um stefnumótun í skógrækt. Þar voru sameiningarhugmyndir viðraðar en málið er ekki lengra komið. Ég vil undirstrika það og taka undir með hv. þm. að við þurfum vissulega að fara yfir þessi mál miðað við nýjar aðstæður og breytingar í landbúnaði. Ég tel því fulla ástæðu til að skoða fyrst og fremst hvernig ráðgjafarþjónustu, kennslu og rannsóknum verði best fyrir komið í framtíðinni og útiloka ekkert um að það beri að endurskipuleggja og þess vegna sameina þessar stofnanir eða búa til sterkari stofnanir sem gætu betur nýtt sér þann tíma sem fram undan er, eins og hv. þm. ræddi um gagnvart styrkjum frá Evrópu og víðar og þeirri miklu þekkingu sem við erum líka að láta af okkur leiða um víða veröld í þessum efnum. Við erum sérfræðingar í landgræðslu á Íslandi og höfum hjálpað mörgum þjóðum þar og eigum samstarf víða þannig að þetta er stórt mál sem ég mun skoða á næstunni.

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég get að mörgu leyti tekið undir ágæta röksemdafærslu hv. þm. Bjögvins Guðmundssonar um að það sé á vissan hátt hagstætt að sameina Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins. Ég var á dögunum á mjög merkri og góðri og afskaplega vel skipulagðri ráðstefnu á vegum Landgræðslunnar austur á Hvolsvelli þar sem einmitt var fjallað um landgræðslumál og skógrækt og landið, Ísland, í ljósi t.d. hamfara vegna eldgosa. Þar kom mjög greinilega fram að þessar stofnanir eiga mjög margt sameiginlegt og það er í raun og veru með ólíkindum að þær skuli ekki hafa verið sameinaðar fyrir löngu síðan. Ég tel að þetta eigi að skoða mjög vandlega.

Annað sem ég vil minnast á er að mér finnst svolítið skrýtið að hlusta á hæstv. landbrh. tala alltaf eins og landið sé til fyrir bændur. Ég er ekki sammála þeirri skoðun landbrh. Bændur eru hluti af landinu og bændur eiga að vera til fyrir landið. Þannig á að líta á hlutina en ekki að landið eigi að vera til fyrir bændur.

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég fagna jákvæðum svörum hæstv. landbrh. hvað varðar sameiningu þessara stofnana og verkefna. Í ljósi þess að hæstv. ráðherra hefur lagt fram frv. í þinginu sem hann lýsti áðan að ætti að ræða á morgun, um sameiningu Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri, vil ég láta það koma fram að mér finnst ánægjulegt að sjá að hæstv. ráðherra virðist sennilega kominn á bak á klárnum og jafnvel farinn að gera sig líklegan til að lemja fótastokkinn. En fram að þessu hefur hann teymt þessa bikkju og ansi hægt. Mér finnst breytingin jákvæð og vil þess vegna ekki láta hjá líða að fagna framtaki ráðherrans og þeim yfirlýsingum hans að hann ætli jafnvel að slá í klárinn

Jón Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna svörum hæstv. landbrh. við fyrirspurn Björgvins G. Sigurðssonar, um að hann sé tilbúinn til að skoða hugsanlegan samruna á stofnunum í stoðkerfi landbúnaðarins.

Það kom mér svolítið á óvart að hlusta á hæstv. ráðherra, kannski vegna þess að ég hélt að hann væri fastari í fjötrum fortíðar en fram kom í máli hans. Sá sem þar talaði sýndi að hann er tilbúinn til að taka mál til skoðunar og endurskoðunar ef á þarf að halda og ég fagna því.

Rannsókna- og þjónustustofnanir landbúnaðarins hljóta að verða sterkari ef hægt er að gera þær að stærri einingum en nú er. Það er alltaf svo með þessar stofnanir okkar að þar sem okkur tekst að safna saman þekkingu og reynslu verður sterkari stofnun eftir en áður.

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það með þeim sem töluðu á undan mér að ég fagna vilja hæstv. landbrh. til að skoða sameiningu þessara tveggja öflugu og mikilvægu stofnana í þjóðlífi okkar og landbúnaði. Ég skora á hann að gefa í, hrinda slíku ferli í gang og láta verða af því á næstunni að koma því í fastar skorður og vinnuferli að sameining þessara tveggja stofnana megi eiga sér stað hið fyrsta.

Það má geta þess til fróðleiks og skemmtunar að eins og ég gat um áður var þetta upphaflega ein stofnun. Haft er eftir fróðum mönnum um málið, þegar leitað hefur verið skýringa á því af hverju þetta séu tvær stofnanir, að ein ástæðan og sú helsta sé að danskur skógræktarstjóri, Kofoed Hansen, og íslenskur undirmaður hans, Gunnlaugur Kristmundsson, hafi ekki átt skap saman. Fyrstu skógræktarlögin kváðu á um að skógræktarstjóri hefði á hendi yfirumsjón með ráðstöfunum til varnar sandfoki og skógarverðir áttu að taka þátt í slíku starfi og mátti fela þeim athugun á og skrásetningu sandfoksræða og eftirlit með framkvæmdum. Þessi tengsl skógræktar og landgræðslu héldust allt fram til ársins 1914 þegar samþykkt voru sérstök lög um það sem þá hét sandgræðsla.

Nú er kominn tími til að snúa blaðinu við og beita sér fyrir því að þessar stofnanir renni saman á ný, tæpri öld síðar. Ósætti þessara tveggja manna er horfið enda þeir ekki lengur á meðal okkar. Það er ástæða til að fagna því að hæstv. landbrh. taki vel í málið. Þeir þingmenn sem hér hafa tekið til máls hafa lýst yfir stuðningi við að Landgræðslan og Skógræktin renni saman í eina stofnun þannig að vilji þingheims virðist renna í sama farvegi og væntingar ráðherra. Ég skora því á hann að beita sér fyrir þessu brýna máli.

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Það er furðulegt að hlusta á skapgerð hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar í dag (Forseti (BÁ): Háttvirts þingmanns.) --- ég sagði háttvirts þingmanns --- sem lætur eitthvað fara í taugarnar á sér. Auðvitað er landið þjóðarinnar. Bændurnir eru vinnumenn í þeirri auðlind og þarf ekki að gera lítið úr bændunum eða skapa tortryggni í svona umræðu (MÞH: Ég var ekki að því.) með útúrsnúningi, hæstv. forseti.

Margt hefur gerst, hv. þingmenn, á þeirri tíð sem ég hef verið landbrh. þannig að engum þarf að koma á óvart þó að hesturinn gangi greitt. Miklar breytingar hafa átt sér stað og mörg ný verkefni litið dagsins ljós, ekki síst á þeim sviðum sem hér eru til umræðu, bæði í skógræktarmálum og ýmsum nýjum verkefnum í náttúru þessa lands, sveitunum. Ég tel mig framsýnan að því leyti og vil sjá þar nýjar sólir rísa og nýja tíma renna í garð til að gera stofnanir okkar sterkari til að takast á við þau mikilvægu verkefni sem hv. þingmenn hafa farið yfir í þessari umræðu með jákvæðum hætti, allir fyrir utan einn hv. þm.

Ég þakka þessa umræðu. Ég stend í stórræðum á morgun. Mun flytja ný breytingamál fyrir löggjafarþingið. Ég mun halda því áfram og tel að endurskoðunar sé þörf á mörgum sviðum til að efla landbúnaðinn og atvinnuna á landsbyggðinni. Mörg glæsileg tækifæri eru til staðar sem ég mun vinna að og ég þakka þessa ágætu umræðu í dag af hálfu vinstri hliðarinnar í þingsalnum.