Hrefna Jóhannesdóttir skógfræðingur hefur verið ráðin í stöðu sviðstjóra skógarþjónustu hjá Skógræktinni. Hún tekur við stöðunni 1. desember.

Staðan var auglýst í liðnum mánuði og bárust tíu umsóknir. Mjög hæft fólk sótti um stöðuna en Hrefna var metin hæfust í ljósi bæði menntunar og reynslu, meðal annars af opinberri stjórnsýslu. Hrefna lauk meistaraprófi í skógfræði í Noregi árið 2000. Hún starfaði um hríð að rannsóknum og plöntugæðamálum en undanfarin ár hefur hún gegnt starfi skipulagsfulltrúa Skógræktarinnar. Þá hefur hún einnig verið skógarbóndi frá árinu 2015.

Af starfi sínu sem skipulagsfulltrúi hefur Hrefna ekki einungis dýrmæta reynslu af opinberri stjórnsýslu heldur einnig góða yfirsýn yfir helstu samstarfs- og samráðsstofnanir Skógræktarinnar, auk sveitarfélaga landsins og forystufólks þeirra. Á síðasta kjörtímabili gegndi hún hlutverki oddvita í Akrahreppi í Skagafirði en er nú sveitarstjórnarfulltrúi í Skagafirði frá sameiningu sveitarfélaga á liðnu vori.

Í samtali við skogur.is segir Hrefna að góð samskipti við skógræktendur um allt land séu henni afar mikilvæg og hún hlakki til að takast á við ný og áhugaverð verkefni á skógarþjónustusviði. Þar bíði hennar úrvalsfólk og afar áhugaverð verkefni.

Hrefna tekur við starfinu 1. desember af Sigríði Júlíu Brynleifsdóttur sem hverfur þá af vettvangi Skógræktarinnar eftir farsæl störf hjá stofnuninni frá árinu 2016 og þar áður hjá Vesturlandsskógum. Hún tekur við nýju og spennandi starfi hjá Lýðskólanum á Flateyri. Skógræktin þakkar henni góð störf og samskipti og óskar henni farsældar á nýjum vettvangi.

Texti: Pétur Halldórsson