6.2.2004

Hefja viðræður um kaup OR á Hitaveitu Hveragerðis

BÆJARRÁÐ Hveragerðis samþykkti samhljóða á fundi sínum 5. febr. að ganga til viðræðna við Orkuveitu Reykjavíkur (OR) um kaup hennar á Hitaveitu Hveragerðis. Fyrir fundinn var lögð fram sameiginleg viljayfirlýsing Hveragerðisbæjar og OR um kaup hennar á Hitaveitunni og var bæjarstjóra gefið umboð til að hefja viðræður við OR.

OR sýnir mikinn áhuga

Orri Hlöðversson, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar, segir OR hafa sýnt mikinn áhuga á mögulegum kaupum en segir aðdraganda málsins þó hafa verið tiltölulega stuttan.

Markmið Hveragerðisbæjar með viðræðunum er ekki einvörðungu bein sala Hitaveitunnar heldur einnig að ná samstarfi við OR til langs tíma á sviðum sem ekki snúa beint að rekstri hitaveitu. Þar verður m.a horft til ljósleiðaravæðingar bæjarins og samvinnu málsaðila í atvinnu-og ferðamálum. Því er einungis rætt við OR á þessu stigi máls en ekki önnur fyrirtæki. Þá er það markmið með sölunni að tryggja orkunotendum í Hveragerði heitt vatn til langs tíma á sama verði og til notenda í Reykjavík.

Viðræðum verði lokið 1. apríl

"Segja má að þetta sé gert í þeim tilgangi að tryggja stöðu okkar í því nýja orkuumhverfi sem er að skapast á Íslandi. Orkuveitan er að færa út kvíarnar og er hérna allt í kringum okkur, m.a. í Ölfusinu og Grímsnesinu og er eins og kunnugt er að virkja á Hengilssvæðinu fyrir ofan okkur. Við erum að líta til þess að tryggja hér örugga og góða þjónustu við bæjarbúa á sambærilegu verði og til notenda í Reykjavík," segir Orri.

Hann segir enga launung á því að bærinn sé einnig með í huga að losa fé til þess að bæta enn frekar reksturinn.

Stefnt er að því að viðræðunum verði lokið þann 1. apríl næstkomandi og þá verði tekin afstaða til viðskiptanna. - mbl.