Skógarhöggsmaður afkvistar trjábol með keðjusög.
Skógarhöggsmaður afkvistar trjábol með keðjusög.

Vel er búið að þeim sem starfa við skógarhögg og grisjun í íslenskum skógum

Villandi upplýsingar koma fram í frétt Morgunblaðsins af skógarhöggsmálum í dag, mánudaginn 23. febrúar. Á blaðsíðu 14 er grein með fyrirsögninni „Óttast alvarlegt slys við skógarhögg“. Með fréttinni er mynd af grisjunarvél Kristjáns Más Magnússonar skógverktaka og við stjórnvölinn er Óskar Einarsson, fyrsti Íslendingurinn sem lýkur prófi í skógvélafræðum. Grisjun og skógarhögg með slíkum vélum er nákvæmnisvinna sem krefst bæði þekkingar og mikillar þjálfunar. Mjög vel er gætt að öryggi vélamannsins og vinnuaðstaða fyrsta flokks. Nám í skógvélafræðum er dýrt nám, miklar kröfur gerðar til nemenda og góðir skógvélamenn eru eftirsótt og vel launuð stétt í nágrannalöndunum.

Skógarhögg aðeins hluti af starfsviðinu

Í Morgunblaðsfréttinni er sagt að um 30 manns hafi sinnt skógarhöggi hjá Skógrækt ríkisins og þörf sé á fleirum. Hið rétta er að á að giska þrjátíu manns á Íslandi grípa í skógarhögg og grisjun með annarri vinnu í skógum landsins. Þetta eru starfsmenn hjá Skógrækt ríkisins, skógræktarfélögum, skógverktakar, skógarbændur og fleiri en enginn starfar við skógarhögg eingöngu. Þar kemur margt til. Í fyrsta lagi eru íslenskir skógar ungir og enn lítið af trjám svo stórvöxnum að höggva megi til flettingar í borð og planka. Skógarhöggsvinna á Íslandi er enn þá að mestu grisjunarvinna. Í öðru lagi er skógarhögg með keðjusög líkamlega erfið vinna, eins og réttilega kemur fram í frétt blaðsins, og á fárra færi að vinna við slíkt eingöngu, jafnvel ekki ráðlegt. Í þriðja lagi er margt annað að vinna í skógunum en skógarhögg og því mikil þörf á kunnáttu og reynslu vel menntaðra og þjálfaðra starfsmanna í önnur verk svo sem skipulagningu skógræktarsvæða, ráðgjöf, gróðursetningu, skráningarvinnu og fleira. Vissulega er rétt haft eftir í blaðinu að þörf sé á fleira fólki hérlendis með kunnáttu í skógarhöggi.

Þjálfun og öryggisbúnaður skylda

Hjá Skógrækt ríkisins fær enginn að vinna við skógarhögg og grisjun með keðjusög nema hann hafi hlotið tilskilda þjálfun og kennslu. Skylt er að nota allan þann hlífðarbúnað sem völ er á og gæta ítrasta öryggis í öllum vinnubrögðum. Meðal annars klæðast skógarhöggsmenn sérstökum hlífðarfatnaði sem kemur í veg fyrir meiðsli ef skógarhöggsmaðurinn fær keðjusagarblaðið í sig á fullri ferð. Í fatnaðinum eru nokkur lög af efni úr sérstökum níðsterkum þráðum sem liggja á misvíxl, flækjast í keðjunni og stöðva hana áður en hún nær í gegnum flíkina. Skógarhöggsmenn nota sérstaka skó eða stígvél sem hafa enn meiri vörn en venjulegir vinnuskór með stáltá og að sjálfsögðu er skylda að nota hjálm með andlitshlíf og heyrnarhlífar. Með réttri kunnáttu og hlífðarbúnaði er slysahætta við skógarhögg með keðjusög lítil.


Vel búinn skógarhöggsmaður fellir
grenitré sem ætlað er í hjallaspírur.

Keðjusög ekki fyrir óvana

Frétt Morgunblaðsins má þó auðveldlega misskilja sem svo að skógarhögg sé svo hættulegt starf að það sé einungis tímaspursmál hvenær alvarleg slys hljótist af. Vissulega kemur fram í fréttinni það sem Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við LbhÍ, segir að það sé almenningur, til dæmis sumarbústaða- og garðeigendur, sem helst sé hætt við að slasi sig á keðjusögum enda sé öllum heimilt að kaupa slík tæki. Allt of algengt er að sjá fólk með keðjusög í hönd, jafnvel léttklætt og með lítinn hlífðarbúnað ef nokkurn. Það býður hættunni heim.

Ekki er sama hvernig tré eru höggvin eða stórar greinar af trjám. Beita þarf söginni með ákveðnum hætti til að hún taki ekki völdin af þeim sem á henni heldur. Kunna þarf góð skil á því hvernig saga skuli svo að tré eða grein falli í rétta átt. Rétt er að brýna fyrir fólki að leita sér þekkingar áður en ráðist er í vinnu með keðjusög. Best er þó að fá fagmenn til að vinna slík verk. Þá er líka líklegra að betri árangur náist og eftir standi betri skógur eða húsagarður.

Duglegir geta haft fínar tekjur

Skógarhöggsmenn fá sem launamenn greitt samkvæmt umsömdum launatöxtum verkalýðsfélaga. Í verktöku fara launin eftir samningum við verkkaupa og í slíkri vinnu getur duglegur skógarhöggsmaður haft fínar tekjur. Skógrækt ríkisins tekur ekki undir að þetta sé illa launuð vinna. Menntun og starfsreynsla hefur að sjálfsögðu áhrif á launin og mikilvægt er að hérlendis fjölgi fólki sem lokið hefur námi í bæði skógfræði á háskólastigi og skógtækni sem er starfsnám á framhaldsskólastigi. Vinna við skógrækt, skógarumhirðu og skógarnytjar er mjög fjölbreytilegt og skemmtilegt starf og eftir því sem íslensku skógarnir vaxa upp á eftir að fjölga í þessum starfstéttum. Rétt er að hvetja ungt fólk til náms og starfa á vettvangi skógræktar.

Texti: Pétur Halldórsson