Landbúnaðarráðuneytið vill selja jarðirnar Mógilsá og Kollafjörð og standa yfir viðræður um kaup Reykjavíkurborgar eða Orkuveitu Reykjavíkur á jörðunum. Verðmæti landsins gæti verið á milli 300 og 500 miljónir króna. Húsin á Mógilsá voru reist fyrir þjóðargjöf Norðmanna til Íslendinga.

Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að flytja starfsemi Rannsóknarstöðvar Skógræktar ríkisins á Mógilsá í Garðyrkjuskóla ríkisins í Ölfusi. Skólahúsið þar er mjög lélegt og heilsuspillandi fyrir nemendur og kennara þannig að reisa þarf nýtt hús fyrir skólann og rannsóknarstöðina. Guðni segir að hefjast þurfi handa við það sem fyrst, helst ekki seinna en á næsta ári.

Reykjajörðin er gamalt höfuðból og þar eru miklar orkuauðlindir í jörðu. Landið er að mestu í eigu ríkisins og er hugsanlegt er að hluti þess verði seldur en formleg ákvörðun þar um liggur ekki fyrir. Guðmundur Bjarnason leigði Knúti Bruun athafnamanni í Hveragerði hluta landsins í lok ráðherratíðar sinnar í landbúnaðarráðuneytinu. Knútur hafði áform um að byggja heilsubæ á landinu. Leigusamningurinn við hann rennur hins vegar út á næsta ári og ef framkvæmdir hefjast ekki áður segir Guðni Ágústsson að samningurinn verði ekki endurnýjaður.

Rannsóknarstöðin á Mógilsá eru hluti Skógræktar ríkisins, sem hefur höfuðstöðvar á Egilsstöðum. Þrettán fastir starfsmenn eru á Mógilsá, flestir sérfræðingar og kenna meðal annars í Garðyrkjuskólanum, í landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og í Háskóla Íslands.

Skrifstofuhúsin tvö á Mógilsá voru reist fyrir gjafafé norsku þjóðarinnar til þeirrar íslensku. Gjöfin var gefin 1961 og afhenti Ólafur Noregskonungur hana. Upphæðin var þá ein miljón norskra króna og ákveðið var að verja 3/4 hlutum upphæðarinnar til að stofna tilraunastöð í skógrækt. Fjórðungi hefur hins vegar verið varið til að styrkja ýmis samskipti þjóðanna í sambandi við skógrækt, svo sem skiptiferðir til plöntunar. Þriggja manna stjórn er yfir sjóðnum og er formaður Haukur Ragnarsson, fyrrverandi forstöðumaður á Mógilsá. Rúmar 7 milljónir íslenskra króna voru í sjóðnum um nýliðin áramót.
Úr hádegisfréttum RÚV, 12. febrúar 2004. Fréttamaður: Hjördís Finnbogadóttir