Gróðursetning á Hafnarsandi í Ölfusi þar sem skógurinn mun m.a. hlífa íbúum Þorlákshafnar við þrálát…
Gróðursetning á Hafnarsandi í Ölfusi þar sem skógurinn mun m.a. hlífa íbúum Þorlákshafnar við þrálátu moldroki. Ljósmynd: Jérémie Richard

„Áður en víkingarnir settust að á Íslandi var landið klætt skógi en vígamennirnir voru varir um sig og eyddu öllum skóginum. Nú berst þjóðin við að klæða landið skógi á ný. “

Á þessa leið hefst grein sem birtist nýlega á vísindafréttavefnum Phys.org. Þar fjallar franski blaða­mað­ur­inn Jérémie Richard um skógræktarstarf á Íslandi og ræðir við tvo starfsmenn Skógræktar­inn­ar, þá Hrein Óskarsson, sviðstjóra samhæfingarsviðs, og Aðalstein Sigurgeirsson fagmálastjóra. Jérémie Richard starfar sjálfstætt sem blaðamaður, meðal annars fyrir frönsku fréttastofnuna AFP sem hefur t.d. birt myndband með viðtali við Hrein og Aðalstein.

Áhugavert er að sjá hvernig fjallað er um skógrækt á Íslandi í erlendum miðlum og slíkt hefur farið vaxandi undanfarin misseri. Framhald greinarinnar eftir Jérémie Richard á Phys.org er á þessa leið í íslenskri þýð­ingu:

Landið er talið hafa minnsta skógarþekju af öllum Evrópulöndum. Reyndar eru skógar svo sjaldséðir á Íslandi eða trén svo ung að fólk grínast gjarnan með að þeir sem villist í íslenskum skógi þurfi aðeins  að standa upp til að rata út.

En þannig hefur þetta ekki alltaf verið.

Skógareyðingin gerði að verkum að landið varð berskjaldað fyrir roföflum vatns og vinds, jarðvegurinn fauk og skolaðist burt og eftir varð einskis nýt auðn. Nýskógræktin snýr taflinu við. Ljósmynd: Jérémie RichardÞegar siglingaglaðir víkingarnir lögðu upp frá Noregi og námu þessa óbyggðu eyju í Norður-Atlantshafi á ofanverðri níundu öld þöktu skógar, aðallega birkiskógar, meira en fjórðung eyjarinnar.

Áður en öld var liðin höfðu landnámsmenn eytt 97 prósentum af upprunalega skóginum og notað viðinn í byggingar og rutt skóg til beitar.

Í landi með óblíð veðraöfl og virkar eldstöðvar átti skógurinn erfitt með að ná sér á strik á ný enda lagðist hraun og aska reglulega yfir landið.

Að því er hermt var árið 2015 í skýrslu FAO, matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, þekja skógar nú einungis hálft prósent af yfirborði eyjarinnar. [Ath. að hér er notuð alþjóðlega skilgreiningin á skógi, að hann þurfi að ná a.m.k. 5 metra hæð fullvaxinn. Samtals þekur skóglendi, ræktað og villt, nú tæp tvö prósent landsins.]

Hreinn Óskarsson og Aðalsteinn Sigurgeirsson við gróðursetningu á Hafnarsandi. Ljósmynd: Jérémie RichardSkógleysið þýðir að landið skortir gróður sem getur staðist roföflin og haldið raka í jarð­veginum. Afleiðingin er geysileg eyðimerkur­mynd­un þrátt fyrir mjög norðlæga legu landsins.

Nýskógrækt sem stunduð hefur verið frá sjötta áratug síðustu aldar og sérstaklega frá því um 1990 stuðlar að því að landið öðlist á ný sinn fyrri græna lit og starfið heldur áfram.

Á Hafnarsandi, sex þúsund hektara svæði á Suðvesturlandi með basalthraunum og svörtum sandi, hafa yfirvöld falið Skógræktinni að breyta tungllandslaginu í skóg.

„Þetta er eitt versta dæmið um jarðvegseyðingu á láglendi á Íslandi,“ segir Hreinn Óskarsson, sviðstjóri samhæfingarsviðs hjá stofnuninni.

Innfluttar tegundir hjálpa

Með rauða geispu í hönd, sívalt verkfæri sem fundið var upp í Finnlandi, gróðursetur Hreinn stafafuru og sitkagreni, hvort tveggja barrviðartegund af norður-amerískum uppruna. Tilgangurinn er að veita nálægri byggð í Þorlákshöfn skjól fyrir þrálátu moldroki.

Skógur hefur verið ræktaður í hartnær sextíu ár á Mógilsá þar sem miðstöð rannsókna er hjá Skógræktinni. Ljósmynd: Jérémie Richard„Við erum að leggja upp með nýskógræktar­verkefni til þess að binda jarðveginn,“ bætir Hreinn við.

Á Mógilsá við rætur fjallsins Esju sem blasir við frá höfuðborginni Reykjavík eru höfuðstöðvar rannsóknasviðs Skógræktarinnar.

Í kringum stöðina þar er fimmtíu ára gamall ræktaður skógur þar sem innfluttar trjátegundir vaxa í bland við einu innlendu trjátegundina, birki.

Þrátt fyrir að birkið sé innlent er áhersla lögð á aðrar trjátegundir í mörgum nýskógræktar­verkefnum.

Vandamálið við birkið er að sögn Aðalsteins Sigurgeirssonar fagmálastjóra að tegundin er ekki „gjöful“.

„Þannig að ef fólk vill ná öðrum markmiðum, svo sem að binda kolefni hratt eða búa til timbur, verðum við að fá meiri fjölbreytileika en fæst með einrækt einnar innlendrar tegundar,“ segir Aðalsteinn.

Að horfa á trén vaxa

Tugir gróðrarstöðva hafa verið settir á fót vítt og breitt um landið til að gera nýskógræktarverkefnin möguleg.

Úr gróðrarstöðinni Kvistum. Ljósmynd: Jérémie RichardÍ Kvistum, sem eru um 100 kílómetrum frá Reykjavík, eru allt að 900 þúsund skógarplöntur ræktaðar á hverju ári, fura og [greni] (ranglega var ritað ösp í greininni).

„Þessar tegundir eiga uppruna sinn í Alaska en nú erum við komin með 30, 40 og 50 ára gömul tré sem gefa af sér fræ. Þeim söfnum við og notum til að framleiða skógarplöntur,“ segir Hólmfríður Geirsdóttir, 56 ára gamall garð­yrkju­fræðingur og gróðrarstöðvareigandi, í samtali við AFP-fréttastofuna.

Fræplönturnar eru ræktaðar innandyra í þrjá mánuði áður en þær eru færðar út.

En af því að íslenski jarðvegurinn er snauður að köfnunarefni vaxa trén hægt til að byrja með og vaxtar­hraðinn er einungis um einn tíundi af því sem sést í Amason-regnskóginum.

Loftslagsmótsögnin

Nýskógrækt er eitt af því sem ríkisstjórn Íslands hefur sett í forgang í nýrri aðgerðaráætlun í lofts­lags­málum sem gefin var út í september 2018.

Aðalsteinn Sigurgeirsson með geispuna á lofti. Nýskógrækt er eitt af því sem ríkisstjórn Íslands hefur sett í forgang í nýrri aðgerðaráætlun í loftslagsmálum sem gefin var út í september 2018. Ljósmynd: Jérémie RichardÞar er kolefnisbinding trjáa skilgreind sem ein þeirra leiða sem landsmenn hafi tiltækar til að hamla gegn loftslagsröskun.

Svo mótsagnakennt sem það er fylgir lofts­lags­röskuninni einnig vaxtarauki fyrir trén.

„Það sem helst hefur hamlað vexti skóga hér er lágur meðalhitinn og svöl sumrin en við sjáum að það hefur breyst vegna loftslags­röskunar­inn­ar,“ segir fagmálastjóri Skógræktarinnar, Aðal­steinn Sigurgeirsson.

„Hlýnun virðist vera að auka vöxt trjáa á Íslandi og þar með einnig að herða á kolefnis­bind­ing­unni,“ bætir hann við.

Frá árinu 2015 hafa milli þrjár og fjórar milljónir trjáplantna verið gróðursettar [árlega] á Íslandi, sem samsvarar skógi á um 1.000 hekturum lands.

Það er hins vegar eins og dropi í hafið ef borið er saman við þær sex til sjö milljónir hektara sem Kínverjar hafa gróðursett í á sama tíma.

Þess má geta jafnframt að í kjölfar birtingar þessarar greinar hafa skrif um málið eftir Jérémie Richard birst víðar um lönd, svo sem í Danmörku og Finnlandi. Danska blaðið Nordjyske birti t.d. grein eftir hann gegnum Ritzau-fréttastofuna með fyrirsögninni „Island vil genrejse skov ryddet af vikinger“. Sú grein birtist einnig á vef Fyens Stiftstidende.

Þýðing: Pétur Halldórsson