Pokasjóður veitti í síðustu viku einnar milljónar króna styrk til gerðar skógarstígs fyrir hreyfihamlaða. Er þetta þriðja árið í röð sem Pokasjóður styrkir þetta verkefni og nemur styrkurinn alls 3 milljónum króna. Auk Pokasjóðs veitti Landgræðslusjóður 250 þús. kr til verkefnisins í ár. Áður hafa Ferðamálaráð, Bændasamtökin, Svæðisvinnumiðlun Suðurlands ofl. styrkt verkefnið. Verkefnið snýr að gerð skógarstíga í Haukadalsskógi og nú þegar hefur verið lagður rúmur 1 km af skógarstígum í Haukadal. Í sumar verður unnið að því að bæta merkingar í skóginum og laga áningarstaði við stíginn. Sjálfsbjörg á Suðurlandi hafa unnið að þessu verkefni í samvinnu við Skógrækt ríkisins á Suðurlandi. Á meðfylgjandi korti má sjá núverandi stígakerfi í Haukadal. Gulu stígarnir eru þeir sem sérstaklega eru gerðir fyrir hreyfihamlaða, en þess ber að geta að þeir eru að sjálfsögðu opnir öllum gangandi skógargestum.