Punktar frá ráðstefnu um eldgos og gróður sem haldin var á Hvolsvelli 24/03/04.
Ráðstefnan var ætluð almenningi og voru fyrirlestrar því almenn yfirlitserindi og lítið af rannsóknaniðurstöðum sem komu fram. Þarna mættu um 200 manns.
Guðni Ágústson hélt hvatningarræðu og fjallaði um mikilvægi þeirra systra, Landgræðslunnar og Skógræktarinnar, við að endurheimta landgæði.
(mynd: Gjástykki)
Magnús Tumi Guðmundsson fjallaði um eldvirkni á Íslandi almennt. Sérstakt fyrir Ísland eru gos undir jöklum með tilheyrandi jökulhlaupum, gostengd röskun sem þekkist vart annars staðar í heiminum. Aftur á móti eru sprengigos á borð við það sem gerist t.d. í Vesúvíus eða St. Helens sárasjaldgæf á Íslandi. Hann ræddi nokkuð um Kötlu og um súra hraungúlinn sem virðist vera á leið upp undir Goðabungu í vesturjaðri Kötluöskjunnar. Ef hann nær upp á yfirborðið verður einhver bráðnun jökuls en íshellan er tiltölulega þunn á þessu svæði og taldi Magnús Tumi að flóð niður Markarfljót af völdum gúlsins yrði ekkert hamfaraflóð. Stórflóð niður Markarfljót yrði frekar af völdum venjulegs Kötlugoss í norðvestur horni öskjunnar upp frá Entujökli, en gos þar eru mun sjaldgæfari en austar, undir Kötlujökli, og því mestar líkur á að næsta gos valdi flóðum á Mýrdalssandi eins og þau gera flest.
Guðrún Larsen fjallaði um gjóskufall. Þykkustu gjóskulög á Íslandi eru allt að 5 m þykk og eru á Túngnár-Veiðivatnasvæðinu. Á sögulegum tíma hefur gjóskufall nokkrum sinnum lagt byggð í eyði, a.m.k. tímabundið. Efri hluti Þjórsárdals fór varanlega í eyði eftir Heklugosið 1104. Litla-Hérað (nú Öræfasveit) 1362 og Skaftártunga 1755 eru dæmi um byggðir sem fóru tímabundið í eyði. Yfirleitt er lítið manntjón af völdum gjósku en land verður óbyggilegt og eignatjón getur orðið mikið. Mest tjón var af völdum Öræfajökulsgossins 1362 og í Vestmannaeyjum 1973. Einhver mestu gjóskugos Íslandssögunnar voru Vatnaöldugosið við upphaf landnáms 870 og Eldgjárgos 935 og sagði Guðrún að landið hafi greinilega ekki tekið vel á móti landnámsmönnum. Hinn glöggi sagnaritari Ari hinn fróði sá þó ekki ástæðu til að minnast á þau í sinni lýsingu á landnámi Íslands. Getur verið að skógarnir sem þöktu nær allt láglendi og víðikjarrið á hálendinu hafi einfaldlega bundið gjóskuna svo vel að hún var ekki til vandræða og þar af leiðandi ekki í frásögur færandi?
Freysteinn Sigurðsson sagði frá jökulhlaupum. Flest hlaup eru undan vestanverðum Vatnajökli, renna um þekkta farvegi (Skaftá, Skeiðará, Jökulsá á Fjöllum) og valda litlum vandræðum. Á s.l. 10.000 árum hafa hamfarahlaup (þau sem breyta landi mikið og varanlega og skilja gjarnan eftir sig margra metra þykk setlög) verið einna algengust á Mýrdalssandi. Þau hafa þó einnig orðið á Skeiðarársandi, niður Jökulsá á Fjöllum og niður Markarfljót, þar af eitt stórt fyrir um 2000 árum síðan sem skildi eftir sig þykkt sand- og malarlag um nær allar Landeyjar.
Ólafur Arnalds fjallaði um þátt gosefna (gjósku og sands eftir jökulhlaup) í jarðvegsrofi og eyðingu gróðurs. Lýsti hann því hvernig áfoksgeirar yrðu til og hversu mikilvirkir þeir væru við gróðureyðingu, sérstaklega á Rangárvöllum (Hekluvikur, framburður Þjórsár) og í Þingeyjarsýslum (gjóska úr gosum í Vatnajökli, framburður Jökulsár á Fjöllum). Ólafur lagði mikla áherslu á að nýting lands til beitar færi ekki saman við 1) gróður sem væri nægilega hávaxinn til að þola áfok og 2) að gróður mundi ná að klæða land eftir eftir röskun. Lagði hann til að afréttir á gosbeltinu yrðu friðaðar fyrir beit.
Þröstur Eysteinsson og Ása Aradóttir lögðu fram þá skoðun að gróður á Íslandi væri alls ekki í stakk búinn til að taka á móti þeirri röskun sem eldvirkni getur haft í för með sér. Til að binda gjósku eða sand frá flóðum þarf gróður að mynda nógu þykkt yfirborðslag til að taka við því efni sem kemur án þess að ákoman kaffæri gróðurinn. Algengustu gróðurlendi Íslands, auðnir og mólendi, mynda þunnt yfirborðslag. Á sögulegum tímum hafa komið þau gos með gjóskufalli í byggð að ekkert minna en land þakið kjarri eða skógi hefði dugað til að binda gjóskuna. Á svæðum þar sem hætta er á verulegu gjóskufalli þyrfti skipting gróðurþekju að vera öfug við það sem ríkir í dag; í stað þess að einkennast af lágvöxnum beitargróðri með kjarri og skógarreitum á takmörkuðum blettum þyrfti skógur og kjarr að þekja meginhluta landsins. Náttúrufarslegar, félagslegar og fjárhagslegar aðstæður takmarka slíkar gróðurfarsbreytingar á landsvísu. Hins vegar er full ástæða til að stórauka hlutfall gróður- og einkum skógarþekju á ákveðnum svæðum þar sem hættan á stórfelldu öskufalli er e.t.v. meiri en víða annars staðar. Eitt slíkt svæði er landið sunnan-, vestan- og norðan við Heklu. Þarna eru stór svæði nú friðuð fyrir beit og hafa Landgræðslan, Skógræktin og Landsvirkjun unnið þar að uppgræðslu og skógrækt um alllangt skeið. Lagt var til að þar mætti auka notkun trjágróðurs til uppgræðslu, einkum ágengra tegunda eins og birkis frá Bæjarstaðaskógi.
Kristín Svavarsdóttir talaði um náttúrlegt landnám plantna eftir röskun af völdum eldgosa. Þar eru helstu vandamálin óstöðugt yfirborð, fjarlægð frá fræuppsprettum og skortur á næringarefnum. Tók hún dæmi frá Surtsey, þar sem gróðurframvinda fór fyrst virkilega af stað þegar mávar tóku til við að verpa í eynni. Þar virðist það hafa verið næringin en ekki fræ eða óstöðugt yfirborð sem var takmarkandi. Einnig tók hún dæmi frá St. Helens fjalli þar sem fjarlægð frá fræuppsprettum virtist skipta mestu máli. Þar sem lengst er í fræ er ekki enn farið að gróa.
Úlfur Óskarsson kom með innlegg um sambýli plantna og örvera í jarðvegi, einkum svepparótarsveppa. Sýndi hann rannsóknaniðurstöður þess efnis að með áburðargjöf plús svepprótarsmiti megi allt að þrefalda vöxt birkis strax á fyrsta sumri samanborið við áburð einan. En það verða að vera réttir sveppir. Landgræðslan hyggst hefja framleiðslu á svepprótarsmiti jafn vel strax í vor.
Magnús Jóhannsson og Anna María Ágústsdóttir fjölluðu um landgræðsluaðgerðir í kjölfar náttúruhamfara. Þau töldu að forvarnir væru besta lækningin og tóku í raun undir með Þresti og Ásu að betra væri ef stærri hluti landsins væri kjarri vaxin. Hins vegar voru landgræðsluaðgerðir sem til greina koma í kjölfar gosa ekki aðrar en þær sem notaðar eru annars staðar, einkum sáning melgresis.
Eftir þetta varð undirritaður að hverfa af vettvangi til að ná flugi heim og hlýddi því hvorki á innlegg fulltrúa þingflokkana né lokaorð Andrésar Arnalds.
ÞE