Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, Guðundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Guðmundur Haukur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Vistorku, undirrituðu samkomulagið í garðinum við Gömlu-Gróðrarstöðina á Akureyri þar sem ein fyrsta gróðrarstöð landsins var rekin á sínum tíma. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra undirritaði í dag samkomulag um tilrauna- og átaksverkefni með Vistorku og Akureyrarbæ þar sem molta verður nýtt í landbúnaði, skógrækt og landgræðslu á Norðurlandi. Framlag ráðuneytisins nemur 15 milljónum króna en heildarumfang verkefnanna er metið á um 40 milljónir. Skógræktin leggur til vinnu við ráðgjöf, umsjón og vinnu við rannsóknarþætti verkefnanna.
Átakið er í þríþætt. Notuð verður molta til skógræktar og landgræðslu í umhverfi Akureyrar, til landgræðslu á Hólasandi og við repjurækt í Eyjafirði. Meðal annars á að setja aukinn kraft í gróðursetningu í Græna trefilinn ofan Akureyrar og leggja grunn að svokölluðum Moltulundi í kringum skíðasvæðið í Hlíðarfjalli.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri og Guðmundur Haukur Sigurðarson, framkvæmdastjóri Vistorku, undirrituðu samkomulagið um samstarfsverkefnin í morgun við Gömlu-Gróðrarstöðina, starfstöð Skógræktarinnar á Akureyri. Af hálfu stjórnvalda er þetta liður í því að flýta loftslagsaðgerðum vegna Covid-19 enda stuðli landgræðsla og skógrækt að aukinni bindingu kolefnis. Framlag ráðuneytisins nemur fimmtán milljónum króna en framlag samstarfsaðila að verkefninu með vinnu, efni, fjármunum og fleiru er metið á um 25 milljónir króna þannig að samanlagt er umfangið um 40 milljónir króna.
Niturbindandi tegundir prófaðar á Hólasandi
Skógræktin, Landgræðslan og Molta ehf. hafa frá árinu 2015 gert tilraunir með nýtingu moltu til trjáræktar og uppgræðslu á berum sandinum á Hólasandi norðan Mývatnssveitar. Í ljós hefur komið að verulegt gagn er að moltunni við slíkar aðstæður en enn er unnið að því að þróa aðferðir við flutning og dreifingu moltunnar svo að sem bestur árangur náist miðað við kostnað. Styrkur ráðuneytisins nýtist meðal annars til flutnings á moltunni úr Eyjafirði austur á Hólasand þar sem henni verður dreift með vélum fyrir veturinn. Gróðursett verður í hluta þess svæðis og settar út tilraunir með niturbindandi plöntur svo sem hvítsmára, baunagras og fleiri.
Moltulundur og Græni trefillinn
Af verkefnunum þremur er skógrækt og landgræðsla í kringum Akureyri einna stærst að umfangi. Leggja á grunn að Moltulundi í kringum skíðasvæðið í Hlíðarfjalli þar sem gerð verður tilraun til trjáræktar og landgræðslu á rýru svæði yfir 500 metrum.
Einnig á að leggja grunn að 135 ha skóglendi á um 700 ha landsvæði til útivistar við Græna trefilinn sem Akureyrarbær hefur skilgreint við efri bæjarmörk. Stefnt er að því að ráða allt að 10 háskólanema í sumar í átaksvinnu sem felst meðal annars í undirbúningi svæða, gróðursetningu, girðingavinnu og dreifingu á moltu. Gert er ráð fyrir að hægt verði að nýta um 1.800 m³ af moltu á Glerárdal í þessum hluta verkefnisins.
Lífrænn úrgangur er auðlind á villigötum
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið styður verkefnin fjárhagslega en Vistorku er falið að framkvæma þau í samstarfi við Akureyrarbæ, Orkusetur, Moltu, Skógræktina, Landgræðsluna og Landbúnaðarháskóla Íslands.
Stjórnvöld stefna að banni við urðun lífræns úrgangs, enda er hún kostnaðarsöm og veldur losun gróðurhúsalofttegunda. Mikill meirihluti losunar vegna meðhöndlunar úrgangs kemur til vegna losunar metans og annarra gróðurhúsalofttegunda við niðurbrot lífbrjótanlegra efna. Stórbæta má nýtingu á lífrænum úrgangi, m.a. með því að vinna úr honum moltu. Sem fyrr segir hefur molta frá Moltu ehf. verið prófuð nokkuð undanfarin ár í landgræðslu og skógrækt en skoða þarf nánar hvernig hún reynist við mismunandi aðstæður.
Við undirritun samkomulagsins í morgun voru viðstaddir fulltrúar þeirra sem að verkefninu standa. Að undirritun lokinni gróðursetti ráðherra birkiplöntu í garðinn við Gömlu-Gróðrarstöðina. Þetta er vefjaræktuð rauðblaða birkiplanta af nýju yrki sem Þorsteinn Tómasson erfðafræðingur hefur ræktað og kallast 'Hekla'. Að sjálfsögðu var notuð molta við gróðursetninguna, bæði blandað saman við jarðveginn í holunni og dreift í kringum plöntuna.