Íslenskt birki í sumarsól.
Tvær stöður auglýstar á næstu dögum
Aðalsteinn Sigurgeirsson, Sigríður Júlía Brynleifsdóttir og Hreinn Óskarsson hafa verið ráðin í stjórnunarstöður sem auglýstar voru hjá Skógræktinni fyrr í sumar. Á næstu dögum verður auglýst laus til umsóknar staða sviðstjóra rannsóknasviðs og einnig staða skógarvarðar á Suðurlandi.
Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður Rannsóknastöðvar skógræktar, Mógilsá, hefur verið ráðinn fagmálastjóri. Fimm sóttu um starfið. Staða fagmálastjóra er ný staða hjá Skógræktinni. Fagmálastjóri hefur yfirumsjónog forystu um fagleg mál innan Skógræktarinnar og er staðgengill skógræktarstjóra. Hann mótar, stýrir eða tekur þátt í verkefnum um framþróun skógræktarstarfsins, ber ábyrgð á þróun erlends samstarfs í samvinnu við skógræktarstjóra, sviðstjóra og aðra starfsmenn stofnunarinnar og tekur þátt í stefnumörkun í skógrækt ásamt skógræktarstjóra, sviðstjórum Skógræktarinnar og fleirum. Aðalsteinn er doktor í skógerfðafræði frá sænska landbúnaðarháskólanum í Umeå og hefur verið forstöðumaður á Mógilsá frá árinu 1998.
Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, sem undanfarin ár hefur verið framkvæmdastjóri Vesturlandskóga, hefur verið ráðin sviðsstjóri skógarauðlindasviðs. Sex sóttu um starfið. Sviðstjóri skógarauðlindasviðs ber ábyrgð á rekstri þjóðskóganna og hefur yfirumsjón með framlögum til skógræktar á lögbýlum auk þess að vinna að samþættingu þessara tveggja verkefna eftir því sem þurfa þykir. Sigríður Júlía er með meistarapróf í skógfræði frá Ási í Noregi. Hún hóf fyrst störf hjá Vesturlandsskógum 2003 og starfaði þar til 2009 en tók við sem framkvæmdastjóri Vesturlandsskóga árið 2013.
Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi, hefur verið ráðinn sviðsstjóri samhæfingarsviðs. Fimm sóttu um starfið. Samhæfingarsvið er nýtt svið innan Skógræktarinnar sem fæst við stjórnsýslu, skipulagsmál, kynningarmál og fræðslu á sviði skógræktar. Forstöðumaður samhæfingarsviðs hefur meðal annars forystu um gerð landsáætlunar og landshlutaáætlana í skógrækt, fræðslumál og upplýsingamiðlun, þ.m.t. vefsíðu og útgáfu, samhæfingu á úttektum og árangursmati ásamt því að bera ábyrgð á gæðastarfi Skógræktarinnar. Hreinn Óskarsson er doktor í skógfræði frá Kaupmannahafnarháskóla og hefur verið skógarvörður á Suðurlandi frá árinu 2002 að einu ári undanskildu og framkvæmdastjóri Hekluskóga frá 2008.
Allir þessir nýju stjórnendur hefja störf að hluta til strax en ekki að fullu fyrr en búið er að manna núverandi stöður þeirra. Á næstu dögum verður auglýst eftir nýjum sviðstjóra rannsóknasviðs sem veitir Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá, forstöðu. Einnig verður auglýst eftir nýjum skógarverði á Suðurlandi. Eftir er að ákveða hvernig háttað verður stjórn nytjaskógræktar á bújörðum á Vesturlandi.
Aðalsteini, Sigríði Júlíu og Hreini er óskað allra heilla í nýjum störfum.