Skógræktendur líti til loftslagsbreytinganna
Stórtækar breytingar þarf að gera í samfélagi fólks á jörðinni ef koma á böndum á hlutföll gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum. Ekki síst þarf að breyta því hvernig við vinnum orku og hvernig við notum orku en líka hvernig við nýtum land. Þar er skógrækt mikilvægur þáttur.
Eitthvað á þessa leið var boðskapur Anders Strømmans frá vísinda- og tækniháskóla Noregs á ráðstefnu NordGen Forest, skógasviðs norrænu erfðaauðlindastofnunarinnar (NordGen Forest Conference 2014). Ráðstefnan var haldin 8.-9. september í Son, rótgrónu þorpi við Óslóarfjörðinn, ekki langt frá Moss. Um fimmtíu manns hvaðanæva af Norðurlöndunum sátu ráðstefnuna, þar á meðal tveir frá Rannsóknastö Skógræktar ríkisins, Mógilsá, þeir Aðalsteinn Sigurgeirsson forstöðumaður og Brynjar Skúlason.
Anders Strømman fór á ráðstefnunni yfir helstu atriði fimmtu loftslagsskýrslu Sameinuðu þjóðanna í samhengi við yfirskrift ráðstefnunnar sem var Need for seed - Nordic forests in coming decades. Því gætum við snúið sem svo á íslensku: Fræþörfin - norrænir skógar á komandi áratugum. Spár loftslagslíkana bendi til þess að skógræktarskilyrði muni breytast mjög mikið á Norðurlöndunum frá því sem nú er. Eigi að nýta skóga til að hamla gegn loftslagsbreytingum sé langhagkvæmast að rækta nýjan skóg þar sem enginn skógur er fyrir, hirða um og nýta skóga með sjálfbærum hætti og draga úr skógareyðingu. Mjög mismunandi sé eftir svæðum hvert þessara atriða eigi best við. Mikilvægir þættir séu líka nýting lífeldsneytis og að fanga og geyma kolefni.
Jafnvægi gróðurhúsalofttegundanna
Hér ber þó að fara fram með gát, að sögn Strømmans. Jafnvægi gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpi jarðarinnar sé háð flóknu samspili. Aukin nýting lífeldsneytis leiði til breyttrar landnotkunar sem geti haft áhrif á þetta jafnvægi og sömuleiðis hafi bæði nýskógrækt og skógareyðing áhrif á loftslagskerfin, inn- og útgeislun sólarhita og fleiri þætti. Þrjár skýrslur vinnuhópa hafa verið birtar úr fimmtu loftslagsskýrslunni. Skýrsla með samantekt fyrir stjórnmálafólk og aðra leiðtoga verður gefin út 31. október.
Á ráðstefnu NordGen Forest í Son voru haldnir fyrirlestrar um varðveislu erfðaauðlinda skóga, um hvernig kortleggja má loftslagsbreytingar, hvernig skógrækt á Norðurlöndunum getur búið sig undir breytingarnar, hvernig bregðast má við breytingunum og hvernig búa má svo um hnútana að nóg verði af fræi til ræktunar.
Á ráðstefnunni var mikið rætt um hvernig skógræktendur á Norðurlöndunum gætu búið sig undir hlýnandi veðurfar og hvernig nýta mætti loftslagslíkön til að undirbúa skógræktina á komandi árum og áratugum. Jafnvel þótt náttúran lagi sig sjálf að slíkum breytingum tekur það langan tíma en með t.d. kynbótum má flýta þeirri þróun og með því að nýta gögn um uppruna, hæð yfir sjó, ljóslotu, hitasummu og fleira má til dæmis finna út hvort tiltekið kvæmi frá tilteknum stað gæti gefið meiri vöxt ef það er flutt norðar. Um þessi efni ræddu til dæmis tveir sérfræðingar hjá starfstöð Skogforsk í Suður-Svíþjóð, þeir Mats Berlin og Bo Karlsson. Sá síðarnefndi fjallaði um gildi þess að nýta þjónustu frægarða í þessum efnum. Norrænt skógræktarfólk þarf því í meiri mæli að horfa í suðurátt eftir þeim skógarplöntum sem ræktaðar verða á næstu árum og áratugum og búa þannig í haginn fyrir hlýnandi veðurfar.
Dagskrá ráðstefnunnar lauk með kynnisferð um Hoxmark í Ås þar sem skoðaðir voru tilraunareitir með ýmiss konar viðfangsefnum sem snerta aðlögun skógarplantna að loftslagsbreytingum. Þar er meðal annars verið að rannsaka mikla aðlögunarhæfni rauðgrenis sem komið hefur í ljós á síðustu árum. Svo virðist sem rauðgreni geti við blómgun ákveðið tjáningu gena í afkomendum sínum eftir veðurfarsaðstæðum og stýrt þannig hvenær þeir vakna til lífsins á vorin og hausta sig eftir sumarið. Þessir þættir séu því ekki fastskorðaðir í erfðaefninu og þannig geti tegundin brugðist fljótt við til dæmis breytingum á loftslagi.
Könnun á viðhorfum til loftslagsbreytinganna
Í aðdraganda ráðstefnunnar í Son var gerð skoðanakönnun meðal hagsmunaaðila í skógrækt á Norðurlöndunum. Niðurstöður könnunarinnar benda til þess að forystufólk í skógargeiranum hafi áttað sig á því hversu mikil áhrif loftslagsmálin hafa á þessa atvinnugrein. Samt sem áður hafi loftslagsmálin ekki að sama skapi verið tekin með í reikninginn í stefnumótun og ráðgjöf. Ástæðan fyrir þessu gæti verið sú að upplýsingum um loftslagsmálin hafi ekki verið miðlað nægilega vel og sérstaklega vanti yfirsýn um aðferðir til að milda áhrif loftslagsbreytinga og laga sig að þeim.
NordGen Skog er norrænn vettvangur umræðu og kynningar á skógarmálefnum, endurnýjun skóga, plöntum, fræmálum og erfðaauðlindum trjáplantna. Höfuðstöðvarnar eru í Ási í Noregi. Skipulagðar eru ráðstefnur og þemadagar fyrir vísindafólk en einnig stjórnendur og sérfræðinga skógfyrirtækja og stofnana. NordGen Skog veitir einnig námsstyrki og ýta undir rannsóknir, allt til framdráttar norrænu skógræktarstarfi. Þá vill skógarsvið Nordgen stuðla að aukinni umræðu og miðlun upplýsinga um loftslagsmál í samstarfi við aðila sem málið varðar.
Erindin af ráðstefnunni
Öll erindin sem flutt voru á ráðstefnunni í Son má finna hér.
Texti: Pétur Halldórsson
Heimild: Kjersti Bakkebø Fjellstad/NordGen Forest
Myndir: NordGen Forest