Nóg af landi til bindingar í skógi segir framkvæmdastjóri Orkuseturs
Ísland hefur risatromp á hendi í formi kolefnisbindingar með skógrækt, segir Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs, á vef Morgunblaðsins, mbl.is, í dag. Nóg sé af landsvæði sem ekki sé í annarri notkun sem nýta mæti til að binda kolefni úr lofthjúpi jarðar sem sé tiltölulega skilvirk og ódýr leið.
„Ef gróðursettur er skógur í dag þá verður hann að viðarauðlind fyrir börnin sem fæðast í dag og börn þeirra. Þetta er mikilvægt að hafa í huga því að í dag erum við einmitt að ræna auðlindum frá börnum okkar með ósjálfbærri olíubrennslu,“ segir Sigurður Ingi enn fremur. Hann segir í viðtalinu að hlægilega auðvelt sé að draga úr losun koltvísýrings frá samgöngum á Íslandi um 40% fyrir árið 2030.
Grein mbl.is er á þessa leið:
Auðvelt að ná 40% minni losun
Einkabíllinn er helsti losunarvaldur gróðurhúsalofttegunda á Íslandi sem stjórnvöld hafa á forræði sínu að draga úr. mbl.is/Ernir
Kjartan Kjartansson
kjartan@mbl.is
Hlægilega auðvelt væri að draga úr núverandi olíunotkun í samgöngum á Íslandi um 40% fyrir árið 2030, að mati Sigurðar Inga Friðleifssonar, framkvæmdastjóra Orkuseturs. Endurnýjun fiskiskipaflotans geti einnig skilað 10-30% betri nýtni og íblöndun lífdísils 5-10% samdrætti til viðbótar.
Íslensk stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau ætli að vera með í sameiginlegu markmiði Evrópusambandsríkja og Noregs um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum um 40% miðað við árið 1990 fyrir 2030. Norðmenn hafa þegar lýst því yfir að þeir muni draga úr sinni losun um 40% en Íslendingar hafa enn ekki tilkynnt hversu mikið þeir muni leggja af mörkum til sameiginlega markmiðsins.
Spurningin vaknar þá hvað þyrfti að gerast til þess að Ísland gæti dregið úr losun sinni á gróðurhúsalofttegundum um 40% á þessum tímaramma. Stóriðjan kemur líklega fyrst upp í huga margra enda losar álver Alcoa í Reyðarfirði um það bil hálfa milljón tonna af koltvísýringsígildum á hverju ári svo dæmi sé nefnt. Losun frá stóriðju er hins vegar ekki á forræði íslenskra stjórnvalda heldur fellur hún undir sameiginlegt losunarbókhald iðnaðar Evrópusambandsríkja.
Gróðurhúsalofttegundir sem losna frá rotnandi mýrarjarðvegi þar sem land hefur verið ræst fram eru heldur ekki taldar fram í loftslagbókhaldi Íslands. Sú losun er fyrst og fremst tilkomin vegna skurða sem grafnir voru til að þurrka upp land á síðustu öld, fyrir árið 1990 sem er viðmiðunarár Kyoto-bókunarinnar. Töluvert er hægt að slá á þá losun með endurheimt votlendis en bent hefur verið á að það eitt og sér dugi ekki til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Þá standa eftir þrír risar í útblæstri Íslands: samgöngur, landbúnaður og sjávarútvegur, þar sem draga þarf verulega úr notkun jarðefnaeldsneytis og losun á gróðurhúsalofttegundum.
Rafvæðing fiskimjölsverksmiðja á við þúsundir rafbíla
Sigurður Ingi stýrir Orkusetrinu sem er sjálfstæð stofnun undir Orkustofnun og á að stuðla að aukinni vitund almennings og fyrirtækja um skilvirka orkunotkun og möguleika til orkusparnaðar. Hann segir flókið að draga úr losun frá sjávarútvegi, meðal annars vegna þess að aflabrögð skipti þar miklu máli, bæði magn og tegundir.
Margt jákvætt hafi þó gerst í sjávarútveginum á undanförnum árum. Fiskveiðistjórnunarkerfið hafi skilað betri nýtni en áður hafi alltof mörg skip elst við alltof fáa fiska. Þá hafi rafvæðing fiskimjölsverksmiðja skilað gríðarlega miklu og samdráttur í losun frá henni jafnist á við tugi þúsunda rafbíla sem kæmu í stað bensínbíla.
„Menn hafa náð ágætis árangri að ná niður olíunotkun í fiskiskipum með ýmsum stýringum og eftirliti og nú er loksins hafin langþráð endurnýjun flotans sem mun skila 10-30% betri nýtni. Fiskiskipaflotinn endurnýjast mun hægar en bílaflotinn og enginn nýorkutækni er á markaði nú sem tekið getur við af olíunni. Hinsvegar má hugsa sér að auðveldlega mætti draga úr útblæstri fyrir 2030 í sjávarútvegi um 5-10% í viðbót með íblöndun lífdísils,“ segir Sigurður Ingi.
Losun frá landbúnaði er vandasamari enda kemur mikið af henni frá skepnum. Sigurður Ingi segir þó að íslenskar beljur séu nokkuð umhverfisvænni en annars staðar vegna þess að þær éti meira af grasi en korni. Þá hafi bændur mikla möguleika í mótvægisaðgerðum eins og endurheimt votlendis og skógrækt.
Nær öllum bílum skipt út fyrir árið 2030
Það er hins vegar í samgöngum á landi sem Sigurður Ingi telur að hægt væri að ná mestum árangri hratt. Þar hafi almenningur öll spil á hendi sér og spilin séu mörg. Lausnirnar séu óteljandi og flestar þeirra séu þegar komnar á markað. Vandamálið við að draga úr losun frá samgöngum sé því ekki tæknilegs eðlis heldur snúist það um innleiðingu nýrrar tækni.
„Ef miðað er við núverandi olíunotkun þá er 40% minnkun hlægilega auðveld. Við erum að tala um 2030 það er að segja eftir 15 ár en þá verða 95% núverandi bifreiða komnar í málmendurvinnslu. Þetta þýðir að skipt verður um um það bil alla bíla fyrir 2030 og í dag geta allir sem eiga hefðbundna olíudrifna bíla auðveldlega fengið sér að lágmarki 40% betri bíl með tilliti til útblásturs,“ segir hann.
Vissulega fjölgi fólki og ferðmönnum en þeirri aukningu megi léttilega mæta með örlítið bættri almennri nýtni í samgöngum í formi almenningssamgangna, samkeyrslu, hjólreiða og fleira. Gallinn sé hins vegar sá að viðmiðið samdráttar í losun sé árið 1990 en eftir það hafi bíleign sprungið út á Íslandi, bæði í fjölda og stærðum og sú óheillaþróun hafi haldist fram til 2007 þegar vekjaraklukkan hringdi.
„Árið 1990 var olíunotkun bifreiða 164 þúsund tonn og rauk upp svo upp í 286 þúsund tonn 2007 með tilheyrandi aukningu á útblæstri. Sem betur fer hefur ástandið batnað með fjölþættum aðgerðum og var olíunotkun 2014 komin niður í 245 þúsund tonn þrátt fyrir gríðarlega aukningu ferðmanna,“ segir Sigurður Ingi.
Risatromp í formi skógræktar
Þá bendir Sigurður Ingi á að lífrænn úrgangur valdi talsverðum útblæstri en auðvelt sé að eiga við hann. Þannig hafi Akureyri til dæmis fyrir löngu leyst þau mál með virkri söfnun á lífrænu sorpi og meðhöndlun í moltu. Meðferðin á lífrænum úrgangi þar skili allt að tíu þúsund tonna samdrætti í losun á gróðurhúsalofttegundum á ári.
Ísland hafi einnig risatromp á hendi í formi kolefnisbindingar með skógrækt. Nóg sé af landsvæði sem ekki sé í annarri notkun sem nýta mæti til að binda kolefni úr lofthjúpi jarðar sem sé tiltölulega skilvirk og ódýr leið.
„Ef gróðursettur er skógur í dag þá verður hann að viðarauðlind fyrir börnin sem fæðast í dag og börn þeirra. Þetta er mikilvægt að hafa í huga því að í dag erum við einmitt að ræna auðlindum frá börnum okkar með ósjálfbærri olíubrennslu,“ segir Sigurður Ingi.