Vegna fréttar um forkaupsrétt starfsmanna Skógræktar ríkisins á rjúpnaveiðileyfum á jörðum stofnunarinnar, vill skógræktarstjóri árétta eftirfarandi:

Skógrækt ríkisins hefur undan farin ár selt leyfi til rjúpnaveiða á nokkrum jörðum stofnunarinnar. Að þessu sinnu voru 22 dagsleyfi til sölu á 6 jörðum, samtals 264 leyfi á 12 dögum. Af þessum 264 veiðileyfum höfðu 14 leyfi verið seld til starfsmanna Skógræktar ríkisins áður en almenn sala hófst og greiddu þeir sama verð og sett er upp í almennri sölu, þ.e. 6.000 kr. fyrir dagsleyfi.

Undanfarna daga hefur Skógrækt ríkisins borist ábendingar þess efnis að í þessari forsölu geti falist brot á jafnræðisreglu almennra stjórnsýslulaga. Stofnunin hefur því endurskoðað vinnulag sitt og ákveðið að hér eftir verði engin veiðileyfi seld starfsmönnum í forsölu. Þau leyfi sem þegar hafa verið seld starfsmönnum fyrir þetta ár verða afturkölluð og sett í almenna sölu á vefnum hlunnindi.is kl. 20:00 föstudaginn 18. október n.k.

Þegar þetta er skrifað, þann 15. október, eru enn eftir 147 óseld dagsleyfi á veiðijörðum Skógræktar ríkisins, þ.e. Bakkaseli í Fnjóskadal, Melum og Skuggabjörgum í Dalsminni, Ormsstöðum í Breiðdal, Hafursá-Gilsárdalur á Fljótsdalshéraði og í heiðalöndum ofan Haukadalsskógar í Biskupstungum. Leyfin eru seld inná vefnum hlunnindi.is þar sem sjá má lausa veiðidaga og jarðir.

Tilgangur og markmið veiðivefsins hlunnindi.is er að koma í veg fyrir það ófremdarástand sem ríkti í þjóðskógunum á rjúpnaveiðitímabilinu hér á árum áður. Skógrækt ríkisins á 53 skóglendur á landinu öllu og almenna reglan er að veiði er bönnuð nema með leyfi. Margir virtu þá reglu því miður að vettugi. Varð að ráði að taka út sex jarðir í tilraunaskyni og freista þess að koma á kerfi sem gagnaðist bæði veiðimönnum og stofnuninni. Veiðimenn sem kaupa sér leyfi hafa ákveðið svæði til umráða, umsjónamaður veit hverjir eru á svæðinu og verða veiðimennirnir að framvísa kvittun sem staðfestir að þeir hafi keypt leyfi á jörðinni tiltekinn dag. Veiðimenn geta líka óskað eftir því við aðra veiðimenn sem þeir hitta á veiðislóðinni að þeir framvísi kvittun og á þann hátt eru veiðimennirnir jafnframt veiðiverðir. Yfirleitt eru menn ánægðir með kerfið þó ennþá megi breyta og bæta.


Jón Loftsson, skógræktarstjóri