Um næstu áramót munu skattar á útfluttum bolviði hækka mjög í Rússlandi. Frá og með fyrsta janúar 2009 mun útflutningsskattur á barrviðarbjálkum hækka úr 20% í 80%, á asparbolum úr 10% í 80%, á bolum annarra lauftrjáa úr 20% í 40% og á hálfunnum vörum úr 15% í 50%. Markmið með þessum breytingum er að styrkja úrvinnsluiðnað heima fyrir. Rússar vilja m.ö.o. auka verðmætasköpun og flytja frekar út unna vöru en hráefni.

 

Þetta hefur þau áhrif að úrvinnsluiðnaður í ýmsum löndum sem notað hefur rússneskan bolvið mun þurfa að þola mikinn kostnaðarauka eða leita annað eftir hráefni. Einkum eru það Finnland, Svíþjóð, Kína, Suður Korea og Japan sem verða fyrir barðinu á þessum skattahækkunum. Á móti kemur að eftirspurn hefur dregist saman í kreppunni og því er óvíst að verð til neytenda hækki mikið í bráð.

 

Óljóst er hvaða þýðingu þessar breytingar munu hafa á Íslandi, en stór hluti af þeim skógarafurðum sem við neytum kemur frá Rússlandi, ýmist beint eða eftir úrvinnslu einhverstaðar á leiðinni. Til dæmis er pappír að mestu fluttur inn frá Finnlandi, Svíþjóð eða Noregi en hráefnið til framleiðslu á honum hefur að miklu leiti komið frá Rússlandi. Hvernig sem það fer, þá er þetta enn eitt dæmi um hvernig ákvarðanir sem teknar eru úti í heimi og við höfum engin áhrif á, geta haft áhrif á okkur og enn ein rökin fyrir því að við eigum að rækta upp okkar eigin skógarauðlind.