Í byrjun ágúst varð vart við ryð í limgerðum með hreggstaðavíði í mörgum görðum á Selfossi. Ryðið breiddist hratt út og mörg limgerði eru orðin gul og visin þessa dagana. Þetta vandamál er nýtt á þessari víðitegund, sem reyndar er talinn blendingur viðju og brekkuvíðis. Hreggstaðavíðir líkist mjög viðju og hefur eins og hún hingað til verið ónæmur fyrir ryði. Eftir að gljávíðiryð varð landlægt gáfust margir upp á ræktun gljávíðis og gróðrarstöðvar hættu sölu á honum. Miklar vonir voru bundnar við hreggstaðavíði sem limgerðisplöntu í stað gljávíðis, enda hentar hann einstaklega vel í klippt limgerði.

Mynd: Sr./HS

Tekin voru sýni af ryðsveppnum á Selfossi og greind í smásjá. Niðurstaðan er sú að hér sé ekki um nýja tegund ryðsvepps að ræða heldur nýjan rasa eða afbrigði af víðiryði, sem lengi hefur verið á innlendum víðitegundum og selju. Hreggstaðavíðir er eins og áður sagði blendingur viðju, sem virðist ónæm fyrir sveppnum, og brekkuvíðis, sem er næmur fyrir honum. Blendingurinn virðist hafa sótt mótstöðu sína til viðjunnar. Ástæða þess að ryðið leggst nú á hreggstaðavíði gæti verið sú að breyting hafi orðið á sveppnum þannig að hann hafi yfirunnið mótstöðu víðisins. Einnig gæti gamall smitrasi sem lítið bar á hafa fjölgað sér og breiðst út. Þriðji möguleikinn er að nýr smitrasi hafi borist til landsins.

Mynd: Sr./HS

Borist hafa fregnir af því að ryð hafi sést á viðju, en þar gæti þó verið um hreggstaðavíði að ræða þar sem hann líkist mjög rauðsprota viðju. Einnig hefur heyrst að til séu fleiri klónar af hreggstaðavíði, en séu slíkir klónar til ættu þeir að ganga undir öðru heiti til þess að forðast rugling. Ólíkir klónar af þessum blendingi gætu haft til að bera mismunandi mótstöðu gegn ryðinu.

Notkun hreggstaðavíðis er ekki bundin við klippt limgerði heldur er hann notaður í skjólbeltarækt víða um land. Þótt limgerði á Selfossi líti illa út þessa dagana er best að halda ró sinni. Ryð er mjög háð veðráttu hvers árs og ekki víst að það komi jafn snemma í öllum sumrum eins og nú er.. Auk þess er ólíklegt að það leggist eins hart á óklippt limgerði og skjólbelti. Það er einnig vitað að sunnlenskt veðurfar, hlýtt og rakt, hentar ryðinu betur en veðurfar í öðrum landshlutum í flestum árum. Það er því vel hugsanlegt að engar áhyggjur þurfi að hafa af ryði í hreggstaðavíði annars staðar en á Suðurlandi.

Að lokum má minna á að til eru varnarefni gegn ryðsveppum. Séu limgerði úðuð með þeim strax og vart verður við ryð er hægt halda því í skefjum.

 Halldór Sverrisson