Þessa dagana er verið að gróðursetja um 10 þúsund aspir sem hafa verið kynbættar sérstaklega til að standast asparryð.

Aspirnar 10 þúsund eru gróðursettar í 4 hektörum í landi Sóleyjarbakka í Hrunamannahreppi. Það eru Suðurlandsskógar sem hafa veg og vanda af gróðursetningunni ásamt starfsmönnum Rannsóknarstöðvar Skógræktar ríkrisins á Mógilsá.

Aðalsteinn Sigurgeirsson, forstöðumaður á Mógilsá: Við höfum víxlað hér saman fjölda móðurtrjáa sem að eru þekkt fyrir góða burði, góðan vöxt og almennt góða aðlögun en einnig í mörgum tilvikum mjög gott þol gagnvart ryðsjúkdómnum. Við erum að fá út úr þessu 10 þúsund mismunandi klóna, 10 þúsund mismunandi fræplöntur sem eru hver með sinni gerð, margar þeirra hafa áreiðanlega mjög góða ræktunareiginleika hér á þessu landsvæði og sumar koma til með að jafnframt að vera ryðþolin.

Magnús Hlynur Hreiðarsson: Er alaskaöspin framtíðarplanta í íslenskri skógrækt?

Aðalsteinn Sigurgeirsson: Það held ég sé hafið yfir allan vafa. Hún á eftir að sýna burði sína, bæði til beinna nytja, svo sem til viðarnytja en eins til óbeinna nytja, t.d. sem skjólgjafi og til þess að hafa ívaf hávaxinna lauftrjáa í ræktuðum skógum okkar.

Gróðursetning þessara ryðþolnu aspa er afrakstur 4ra ára rannsóknarstarfs sem hófst með því að leitað var að asparklónum sem byggju yfir þeim eiginleikum að geta staðist ryðsveppinn.  Þegar þeir klónar voru fundnir var hafist handa við að æxla þeim við aðrar úrvals aspir og hafa ýmsir sérfræðingar komið að þeirri vinnu.

Halldór Sverrisson, plöntusjúkdómafræðingur: Það stendur til að smita þessa tilraun í framtíðinni með ryði og þá eigum við að fá góðan mælikvarða á ryðþol, og vonumst til jafnvel að finna einhverja klóna sem að hafa marga góða eiginleika auk þess að vera sérstaklega ryðþolnir.

Fréttamaður: Magnús Hlynur Hreiðarsson

Á myndinni má sjá starfsmenn Mógilsár; Halldór Sverrisson, Brynju Hrafnkelsdóttur og Karl Gunnarsson framan við tilraunasvæðið á bökkum Stóru-Laxár, að Sóleyjarbakka í Hrunamannahreppi.