Þrjár til fjórar klónaðar gerðir af ösp hafa fundist sem eru töluvert þolnar gegn nýrri tegund af ryðsvepp sem greindist fyrir nokkrum árum. Rannsókn var hrundið af stað til að finna ryðþolna klóna þessara trjátegunda og er því verkefni nú lokið.

Verkefnið var unnið af Rannsóknarstofnun landbúnaðarins, Skógrækt ríkisins og Náttúrufræðistofnun Íslands með styrk frá Tæknisjóði Rannís og Framleiðnisjóði landbúnaðarins. Þegar kannaðar voru smitleiðir á Alaskaösp kom í ljós að þó allir klónar séu móttækilegir fyrir ryði að einhverju marki þá skera nokkrir þeirra sig úr hvað þol varðar. Ekki liggja fyrir óyggjandi niðurstöður varðandi gljávíðiklónana. Halldór Sverrisson, plöntusjúkdómasérfræðingur hjá Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri og Skógrækt ríkisins á Mógilsá segir að einir 3-4 klónar hafi fundist sem hafi haft töluvert þol gegn ryðsveppnum. Þeir verða síðan notaðir í kynbótaverkefni sem nú er hafið. Halldór segir verkefnið halda áfram á vegum rannsóknarstöðvar Skógræktarinnar á Mógilsá þó styrkurinn sé uppurinn.

Halldór Sverrisson, plöntusjúkdómafræðingur: Þetta er náttúrulega eins og öll kynbótaverkefni þetta er langtímaverkefni. Það sem við getum strax hagnýtt okkur er náttúrulega þessi vitneskja um þá klóna sem eru þolnastir. Það er hægt að nota þá meira kannski heldur en hefur verið gert hingað til. En síðan náttúrulega tekur nokkur ár að fá fram nýja klóna úr þessum kynbótum og það verður bara að koma í ljós hvernig til tekst með það.

Könnun á útbreiðslu sýnir að asparryðið var fyrst bundið við Selfoss og Hveragerði en nú áberandi í Grímsnesi og Laugardal. Telja má að útbreiðslusvæðið nái frá Kirkjubæjarklaustri til höfuðborgarsvæðisins en þó ekki samfellt. Útbreiðsla gljávíðiryðs nær nú frá Hornafirði og til suðurhluta Borgarfjarðarsýslu.
 
Ríkisútvarpið, hádegisfréttir, 7. júní 2003; Fréttamaður: Guðjón Helgason