Ekkitíðindamaður Innskógarfrétta var staddur austur á Hallormsstað nú í vikunni (1-5/3) í ópersónulegum erindagjörðum.
Sem hann situr og drekkur kaffi í Mörkinni og á sér einskis ills von berst honum skyndilega til eyrna áköf skothríð úr skóginum. Þótti honum þetta undrum sæta, enda ekki aðra bráð að hafa í skóginum um þessar mundir en glókolla en þeir munu vera afar vandhittnir og léttir í maga.
Flýgur ekkitíðindamanni nú í hug að hann hafði heyrt því hvíslað þar eystra að Hjörleifur muni fyrir allnokkru hafa safnað að sér gömlum Miðkvíslarsprengjumönnum og hafi þeir legið við æfingar í skóginum þar sem Síbería kallast. Muni þetta vera með vitund og vilja Sigurðar frænda hans Blöndal, enda hafa menn tekið eftir því undanfarið að þeir frændur hafi hnotabitast óvenju lítið út af lúpínunni.
Það fylgdi sögunni að Hjörleifi hafi brugðið illa þegar Björn Bjarna tók við dómsmálaráðherraembættinu og hafi hann þá tekið til þess ráðs að blása upp gamlar Laxárvirkjunardeilur til að slá ryki í augu Björns og draga athyglina frá raunverulegu skotmarki. Þóttist ekkitíðindamaður vita að enn myndi Björn hafa reynst kommúnistunum klókari og heilladrýgri og myndu nú sérsveitir hans (the Bjarnason army) komnar austur með ?licence to kill? upp á vasann til að jafna um gúlana á sprengjumönnum Hjölla í eitt skipti fyrir öll.
Þaut ekkitíðindindamaður nú sem skjótast í átt að skothríðinni, þótt ekki gæti það talist hættulaust með öllu. Þegar nær dró vettvangi sást þó að málið mundi nokkuð öðruvísi vaxið en ekkitíðindindamaður hafði talið. Þarna stóð Lárus með rjúkandi haglabyssu og skaut á tré eins og óður maður en Halldór Sverris og Tóti Ben þutu um skógarbotninn og tíndu upp greinar sem niður féllu, enda Lárus hundlaus.
Lárus lét vopnið síga þegar hann sá til mannaferða og notaði ekkitíðindindamaður þá tækifærið og spurði hann hverju þetta sætti;
"Jú sjáðu til, sagði Lárus, þetta rjúpnaveiðibann hefur farið alveg ægilega í mig. Mér fór að líða illa strax þegar farið var að tala um það og dagurinn sem bannið var ákveðið var alveg svartur. Ekki batnaði það þegar rjúpnaveiðitíminn hefði átt að hefjast samkvæmt Guðs og manna lögum. Þá fór ég að rölta um skóginn með byssu og hleypa af skoti og skoti, svona af gömlum vana, og áður en ég vissi af var ég farinn að skjóta tré og svo bara ágerðist þetta og áður en varði var ég kominn í þetta alveg á fullt".
Nú fann ekki tíðindamaður það á sér að stutt myndi í frekari játningar, enda brást það ekki og Lárus hélt áfram;
"Fyrst var ég alveg eyðilagður yfir þessu og fannst þetta eiginlega hreint og klárt óeðli og gat ekki hugsað mér að láta nokkurn mann vita af þessu, hvað þá konuna og börnin, en ég gat bara ekki hætt, ég meina það þetta er fjölbreytt og skemmtileg bráð, nóg af henni og hægt að stunda skyttiríið árið um kring og þarf ekkert veiðikort. Núna er ég ekkert feiminn við þetta lengur. Ég er löngu búinn að viðurkenna það að þetta er mitt rétta veiðieðli og skammast mín ekkert fyrir það. Þú mátt alveg segja að ég sé kominn út úr veiðiskápnum ef þú vilt mér er alveg sama".
Þar með var viðtalinu lokið, gamli góði veiðiglampinn kominn í augun á Lárusi, og andartaki síðar lá falleg aspargrein í valnum.