Frá ráðstefnunni í Shenzhen í Kína í nóvember. Mynd: IUFRO/Shirong Liu
Frá ráðstefnunni í Shenzhen í Kína í nóvember. Mynd: IUFRO/Shirong Liu

Markmið og leiðir til að auka þéttbýlisskógrækt

Á fyrstu alþjóðlegu ráðstefnunni um skógar­borgir, IFCC2016, sem haldin var í Shenzhen í Kína í lok nóvember, var sam­þykkt yfirlýsing með nokkrum markmiðum og aðgerðum til að auka trjárækt í borgum og flétta trjárækt inn í skipulag.

Frá þessu segir meðal annars í nýútkomnu fréttabréfi IUFRO, alþjóðasamtaka rann­sóknarstofnana í skógrækt. Ráðstefnan í Shenzhen fór fram dagana 29.-30. nóvem­ber 2016 og hana sátu meira en 500 manns frá fjörutíu löndum heims. Einn megintilgangur ráðstefnunnar var að vekja athygli á nýjum leiðum og aðferðum til að búa til skógarborgir. Það er í samræmi við markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálf­bær­ar borgir og samfélög.

Shenzhen-borg hefur á 35 árum breyst úr 30.000 manna fiskibæ á landamærunum í auðuga heimsborg með tæp­lega ellefu milljónum íbúa. Í borgarlandinu eru 69.000 hektarar skóglendis og 911 almenningsgarðar. Borgin var því til­valinn staður fyrir þessa fyrstu ráðstefnu á vegum IUFRO þar sem línur voru lagðar fyrir skógarborgir fram­tíðar­inn­ar. Shenzhen er nágrannaborg Hong Kong og var skipulögð frá grunni sem fyrsta sérstaka efnahagssvæðið í Kína, Special Economic Zone.


Á ráðstefnunni voru haldnir inngangs­fyrir­lestrar og umræður fóru fram í umræðu­hópum og í pallborði. Hinn vísindalegi hluti ráðstefnunnar var samansettur úr yfir 40 fyrirlestrum og sex pallborðsfundum. Mest var rætt um vistkerfisþætti og vistkerfis­þjón­ustu trjáa og skóglendis í þéttbýli, skipu­lagningu og umhirðu skógarborga og notkun á bambus í almenningsgörðum og til að gera umhverfið vistlegra.

Helsti ávöxtur þessarar fyrstu alþjóða­ráð­stefnu um skógarborgir var svokölluð Shenzhen-yfirlýsing. Í henni eru markmið og leiðir settar fram í nokkrum atriðum. Tala þurfi fyrir því að borgir séu byggðar upp sem skógarborgir, vekja athygli á eftirbreytniverðum dæmum, ýta undir þverfaglegar rannsóknir, styrkja úttektar- og matskerfi og taka tillit til umhverfisþátta á hverjum stað. Sömuleiðis þurfi að styrkja alþjóðlegt samstarf og skiptast á þekkingu og reynslu við skipulag og uppbyggingu skógarborga. Loks er í Shenzhen-yfirlýsingunni um skógarborgir vakin athygli á notkun bambus til að gera borgir að skógarborgum þar sem bambus er hluti af náttúrlegum gróðri.

Mikilvægt er að koma þeim skilaboðum til skipulagsyfirvalda hjá íslenskum sveitarfélögum að við endurskoðun eldra skipulags og við skipulag nýrra hverfa eða svæða sé haft í huga hvernig nýta megi trjágróður til að bæta umhverfið, auka vellíðan fólks draga úr umhverfisáhrifum mannlegra athafna. Rétt eins og talað er um skógarborgir má vel tala um skógarbæi, skógarþorp og skógarsveitir.

Texti: Pétur Halldórsson