Síberíulerki barst til Íslands frá fjöllum í sunnanverðri Síberíu og var allmikið gróðursett hérlendis á árunum 1950 til 1980, en eftir það tók rússalerki við. Elstu síberíulerkitré á Íslandi eru þó frá fyrstu árum skógræktar og því um aldargömul.

Síberíulerki óx vel framanaf, sérstaklega í innsveitum á Norður- og Austurlandi. Þó bar alltaf nokkuð á kalskemmdum og fyrir vikið urðu trén sjaldnast beinvaxin. Einnig varð fljótlega ljóst að síberíulerki var viðkvæmara en rússalerki fyrir sveppsjúkdómunum barrviðarátu og lerkiátu. Á seinni árum hafa skemmdir á völdum þessara sjúkdóma verið að ágerast og talsvert af síberíulerki hefur drepist af þeirra völdum. Segja má að síberíulerki sé um það bil að þurrkast úr á Suðvesturlandi, en skemmdir eru einnig áberandi í öðrum landshlutum.

Bæði kalskemmdirnar og viðkvæmni fyrir sjúkdómum stafa af því að síberíulerki er ekki nægilega vel aðlaga loftslaginu hér, einkum hlýindaköflum að vetrarlagi og svölu sumarveðri. Örfá hvæmi hafa sýnt góða aðlögun en það er því miður ekki nóg til að byggja á. Síberíulerki er önnur trjátegundin (á eftir skógarfuru) sem um tíma var mikilvæg í íslenskri skógrækt en við höfum síðan alfarið hætt að gróðursetja. Af ræktun þess fékkst þó mikilvæg þekking sem nýtast mun í framtíðinni.

Í 2. hefti Skógræktarritsins 2008, sem nýverið kom út, er m.a. grein eftir Þröst Eysteinsson sviðsstjóra Þjóðskóganna þar sem fjallað er um Síberíulerki.