Silfurreynirinn í Þorskafirði ber þess merki að hafa þurft að þola margvíslega áraun veðraaflanna áratugum saman. En nú þrífst hann vel og hefur myndað fallega krónu. Ljósmyndir: Böðvar Jónsson
Skógræktarfélag Íslands, í samstarfi við Lambhaga, hefur útnefnt gráreyni (Sorbus hybrida) að Skógum í Þorskafirði sem tré ársins 2020. Tréð var sæmt titlinum við hátíðlega laugardaginn 29 ágúst.
Þetta er í fyrsta sinn sem gráreynir er útnefndur tré ársins hjá Skógræktarfélagi Íslands. Í tilkynningu félaginu fyrir athöfnina að Skógum kom fram að tréð væri silfurreynir en sérfræðingar Skógræktarinnar sem voru viðstaddir athöfnina greindu tréð sem gráreyni.
Gráreynirinn í Þorskafirði ber þess merki að hafa þurft að þola margvíslega áraun veðraaflanna áratugum saman. Tréð stendur stakt en hefur þraukað þrátt fyrir það og með hlýnandi veðri og lengri sumrum hefur hann nú myndað fallega krónu og á vafalaust eftir að verða æ meiri prýði eftir því sem fram líða stundir.
Skógræktarfélag Íslands útnefnir árlega tré ársins og vill með því beina sjónum almennings að því gróskumikla starfi sem unnið er um land allt í trjá- og skógrækt og benda á menningarlegt gildi einstakra trjáa um allt land.
Við athöfnina fluttu Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélags Íslands, og Halldór Þorgeirsson, fulltrúi í andlegu þjóðarráði baháʼía, ávörp. Hafberg Þórisson, fulltrúi bakhjarla, afhenti viðurkenningaskjal og skjöldur var afhjúpaður. Að því búnu var gerð formleg mæling á trénu, farið í gönguferð um skóginn í kring og sagt frá tilurð ræktunarstarfsins að Skógum.
Jón Ásgeir Jónsson frá Skógræktarfélagi Íslands og Björn Traustason frá Skógræktinni sáu um að mæla gráreyninn góða. Reyndist tréð vera 5,9 m á hæð, með þvermál í hnéhæð 26,5 cm en 17,3 cm í brjósthæð, en þar hafði tréð skipt sér í tvo stofna.
Að mælingu lokinni leiddi Böðvar Jónsson gesti í göngu um skóginn, þar sem sjá mátti meðal annars hina myndarlegustu fjallaþöll, skógarfuru sem lifði af þær hremmingar sem stráfelldu tegundasystur hennar á 6. áratugnum, auk þess sem göngufólk gat gætt sér á bláberjum.
Dagskránni lauk svo með kaffihressingu.
Skógræktarstarfið að Skógum í Þorskafirði í Reykhólahreppi hófst með því að Jochum Eggertsson keypti jörðina árið 1950 og hóf skógrækt. Um 1960 aðstoðaði Skógræktin hann við að girða skógræktarsvæðið. Jochum var meðal frumkvöðla í almennri skógrækt á Íslandi enda höfðu margir litla trú á tiltækinu. Hann arfleiddi Bahá'í-samfélagið að jörðinni og hefur skógræktarstarfinu verið haldið áfram þar af krafti. Jörðin er með skógræktarsamning við Skógræktina þar sem ræktaður er nytjaskógur á um 90 hektara svæði og var girt 2005. Nýlega var svo gerður samningur um stækkun svæðisins. Sömuleiðis hefur verið unnið að uppgræðslu í samvinnu við Landgræðsluna undir merkinu Bændur græða landið. Nánar má fræðast um þetta merka starf í myndbandi sem gert var á síðasta ári.
Texti: Pétur Halldórsson (Fréttin er uppfærsla á fyrri frétt frá 28. ágúst)