Útgerðarfyrirtæki hvött til að binda kolefni í skógi

Íslendingar eru mesta fiskveiðiþjóð heims miðað við höfðatölu og prótínframleiðsla okkar úr auðlindum hafsins er hlutfallslega mjög stórt innlegg í fæðubúskap jarðarbúa. Fiskveiðar Íslendinga teljast sjálfbærar á stofnvistfræðilegum forsendum. Það þýðir að ekki er veitt meira en svo að fiskistofnarnir geti endurnýjað sig með náttúrlegum hætti. Mikið vantar hins vegar upp á að veiðarnar séu sjálfbærar með tilliti til orku og útblásturs gróðurhúsalofttegunda. Sjávarútvegi fylgir mikil olíubrennsla og fiskiskipaflotinn losar álíka mikið af kolefni og allur bílafloti landsmanna. Ólíkt bílaflotanum er hins vegar ekki fyrirsjáanlegt á næstunni að skipt verði um orkugjafa í skipum. Samkvæmt eldsneytisspá Orkustofnunar mun eldsneytisnotkun skipa lítið minnka fyrr en um 2030 þegar umhverfisvænna eldsneyti fer hægt og rólega að síast inn (sjá línurit).

Íslensk skógrækt hefur mikla möguleika til að leika stórt hlutverk í þessari jöfnu. Þegar skógur er ræktaður á Íslandi binst kolefni í stofni trjánna og jarðveginum í kring. Ef við ræktum ekki skóg mun þetta sama kolefni einfaldlega halda áfram að svífa um lofthjúpinn með tilheyrandi loftslagsálagi. Skógrækt er sem sagt einföld og skilvirk leið til að draga úr magni kolefnis í andrúmslofti. Á Íslandi eru sérlega góðar aðstæður til að binda kolefni með þessum hætti því nóg er af landrými til skógræktar sem ekki myndi veita annars konar landnýtingu samkeppni. Skógrækt er ein allra ódýrasta leiðin til að binda kolefni enda bindingin aukaafurð við ræktun á nytjaviði framtíðarinnar. Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá hefur unnið spá um hversu mikið kolefni muni bindast í íslenskum skógum næstu áratugina miðað við áætlaða gróðursetningu og vaxtarhorfur. Hún sýnir að fyrir 2050 geti ræktaður skógur bundið álíka mikið kolefni og sem nemur öllum útblæstri frá fiskiskipaflota landsmanna. Í þessu líkani er alls ekki gert ráð fyrir að kæfa landið í skógi heldur er einungis verið að tala um fáein prósent láglendis undir 400 metrum yfir sjó. Til viðmiðunar má benda á að í innanverðum Eyjafirði, frá Akureyri og inn úr, þekur skógur nú um 4,3% láglendis.

Markaðurinn er sífellt að verða upplýstari og þeim neytendum fjölgar hratt næstu árin sem ekki sætta sig við að borða máltíð með íþyngjandi kolefnisslóð. Þá gildir einu þótt gæði fisksins séu fyrsta flokks. Auðvelt væri að mæta þessum kröfum á einfaldan og tiltölulega ódýran hátt með kolefnisbindingu í skógi. Leiðin á milli þessara tveggja greina, skógræktar og sjávarútvegs, hefur styst enda atvinnuvegirnir tveir nú komnir undir sama ráðuneytið. Hvernig væri að íslenskur sjávarútvegur tæki sig nú til, ræktaði skóg til að mæta því loftslagsálagi sem veiðarnar valda og kolefnisjafnaði þannig sína frábæru vöru? Myndi það ekki hreyfa við þeim viðskiptavinum sem finna til vaxandi umhverfisvitundar og laða þá til að kaupa kolefnisjafnaðan íslenskan fisk?

Heimildir:
Arnór Snorrason 2014, Íslensk skógarúttekt, Rannsóknastöð skógræktar, Mógilsá

Eldsneytisspá 2008–2050, 2008, Orkuspárnefnd

Höfundar:
Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs
Pétur Halldórsson, kynningarstjóri hjá Skógrækt ríkisins