Skjólbelti má meðal annars nota til að draga úr snjósöfnun heima við bæi. Hér sjást ný skjólbelti á …
Skjólbelti má meðal annars nota til að draga úr snjósöfnun heima við bæi. Hér sjást ný skjólbelti á Daðastöðum í Núpasveit. Snjórinn á eftir að safnast fyrir á túnstykkjunum hlémegin við skjólbeltin í stað þess að hlaðast upp við bæjarhúsin. Ljósmynd: Gunnar Einarsson

Á Daðastöðum í Núpasveit við Öxarfjörð er stunduð skógrækt og landgræðsla með fram myndar­legri sauðfjárrækt. Ábúendur á Daðastöðum hafa sýnt útsjónarsemi í ýmsum efnum og þreifað sig áfram með ýmsar landbótaaðferðir til að efla bújörðina og umhverfið, meðal annars með því að ryðja niður rofa­börð­um og sá í þau, græða upp rofsvæði og fleira. Daðastaðir eru dæmi um býli þar sem trjágróður er nýttur með markvissum hætti til að styðja við búsetu og búskap á jörðinni. Nýjasta dæmið um það eru skjólbelti sem gróðursett hefur verið í við bæjarhúsin til að veita skjól og fanga snjó sem ella hlæðist upp heima við hús. Á myndinni hér að ofan sést hvernig beltin eru skipulögð til að skýla bænum fyrir vindi, snjókomu og skafrenningi. Þau eiga án efa eftir að gera mikið gagn.

Skjólbelti hafa verið ræktuð um allt land til að gefa skjól á bújörðum, í þéttbýli, við orlofshúsabyggðir, með fram vegum og víðar. Mörgum þykir þó sem Íslendingar eigi langt í land með að nýta sér kosti skjólbelta og miklir möguleikar felist í aukinni skjólbeltarækt, til dæmis til að efla búsetu og búskap á bújörðum. Björn Bjarndal Jónsson, verkefnisstjóri afurðamála hjá Skógræktinni, og Hallur Björgvinsson skógræktarráðgjafi, skrifa fróðlega og hvetjandi grein í Ársrit Skógræktarinnar 2017 þar sem þeir rekja sögu skjólbeltaræktar á Íslandi, ræða um kosti skjólbelta og möguleikana sem í slíkri ræktun felast. Greinin fer hér á eftir.

 

Skjólbeltaræktun

Björn B. Jónsson og Hallur Björgvinsson

Við stofnun Skógræktarinnar 2016 tók sú nýja stofnun við verkefnum Landshlutabundnu skógræktar­verkefnanna og Skógræktar ríkisins. Meðal þeirra lögbundnu hlutverka sem færðust á hendur stofnunar­innar er skjólbeltaræktun á lögbýlum, en ríkisstyrkir til þeirra framkvæmda voru áður í umsýslu Landshlutaverkefnanna. 

Skjólbelti í Mosfellssveit. Ljósmynd: Hallur BjörgvinssonRæktun skjólbelta á sér ekki langa sögu hér á landi, frekar en önnur ræktunarmenning. Þróun aðferða og leit að heppilegum tegundum tekur sinn tíma. Hefur skjólbeltarækt gengið nokkuð í bylgjum í takt við elju og áhuga frumkvöðla við að kynna nytsemi skjólbelta, en ekki síður við það hversu mikill stuðningur hefur verið í boði við fyrstu skrefin í þessari nýju ræktun. Það er áhugavert að staldra við á þessum tímamótum og skoða sögu skjólbeltaræktunar á Íslandi í grófum dráttum. 

Upphafið  

Jón Rögnvaldsson garðyrkjumaður var fyrsti formaður Skógræktarfélags Eyfirðinga sem stofnað var 1930. Jón hafði lært garðyrkju og skógrækt í Kanada. Þegar Jón kemur heim frá námi vekur hann máls á gagn­semi skjólbelta og talar fyrir gerð skjólbelta á bújörðum. Jón stóð fyrir gerð skjólbelta á lóð Kristnes­spítala, sennilega 1926 eða 1927. Hann skipulagði kerfi skjólbelta í Öngulstaðahreppi í samvinnu við búnaðarfélagið í hreppnum og kom síðar að framkvæmdum við skjólbeltagerð þar og víðar.  

Allar gróðrarstöðvar Skógræktar ríkisins og skógræktarfélaganna, aðrar en á Vöglum og í Norðtunguskógi, voru stofnaðar á berangri. Þar var því fljótlega hafist handa við ræktun einhvers konar skjólbelta til að bæta ræktunarskilyrði. Má þar nefna belti frá aldamótunum 1900 í gömlu gróðrarstöðvunum á Krókeyri Akureyri og í Hallskoti Reykjavík, Mörkinni Hallormsstað eftir 1902, Fossvogi frá 1932, Múlakoti 1935, á Laugarbrekku Reykjarhóli og Tumastöðum frá 1944, í Kjarna frá 1946 og víðar. Á mörgum þessara staða eru nú þéttriðin og umfangsmikil skjólbeltakerfi. 

Klemens Kristjánsson hóf ræktun á skjólbeltum á tilraunastöðinni Sámsstöðum í Fljótshlíð um 1942 og gerði síðar fyrstu rannsóknir hérlendis á áhrifum skjólbelta á kornuppskeru. 

Skömmu eftir 1950 veitti danskur iðjuhöldur, I.C. Møller, Einari G.E. Sæmundsen skógarverði 10.000 kr. styrk til þess að kynna sér skjólbeltarækt á Jótlandi. Árangur af för Einars varð sá að Skógrækt ríkisins fékk 50.000 kr. á fjárlögum til skjólbeltaræktunar. Í framhaldi af þessu var Einari fengið það verkefni að hefja ræktun skjólbelta á nokkrum stöðum. Ræktuð voru tilraunabelti á Hvanneyri, í Borgarfirði, á Dagverðareyri í Glæsibæjarhreppi og á Naustum við Akureyri.  

Skjólbelti á Hvolsvelli. Ljósmynd: Hallur BjörgvinssonRæktun skjólbelta í Gunnarsholti hófst vorið 1959. Gríðarleg vinna var lögð í fyrsta beltið. Mikill skítur var settur i fínunnið beð, síldarnót var sett á girðinguna með fram beltinu og fjöldinn allur af trégrindum var settur með jöfnu millibili þvert á beltið. Plantað var árlega í ný belti um 1 km á ári til og með árinu 1966. Það voru köld ár eftir 1963 og oft mikil afföll á plöntum og menn gáfust upp eftir 1966.  

Aftur var hafist handa við gerð nýrra skjólbelta um 1980 með tilkomu víðitegunda og klóna frá Alaska. Ræktun skjólbeltanna í Gunnarsholti er fyrsta ræktun skjólbelta á Íslandi á stóru samfelldu svæði. Þau eru nær 85 km í dag, eða vel á þriðja hundrað km mælt í einföldum röðum. 

Á sjöunda áratugnum höfðu nokkrir bændur hafið skjólbeltarækt. Sá áhugi hvarf að mestu eftir hretið 9. apríl 1963, sem var mjög óvenjulegt og kalt hret eftir langvarandi hlýindi. Þingvíði sem hafði verið notaður í skjólbeltin kól illa í hretinu með þeim afleiðingum að áhugi manna á skjólbeltarækt nánast hvarf. 6. maí 1966 tóku gildi lög um ríkisstyrkta ræktun skjólbelta. Þessi lagasetning leiddi þó ekki af sér stórfellda skjólbeltarækt í landinu.  

Skógrækt ríkisins og Búnaðarsamböndin  

Samkvæmt viðbótum frá 1985 við jarðræktarlögin, þar sem bændum var gert kleift að hefja skjólbeltarækt og fá til þess styrk, var Skógrækt ríkisins og héraðsráðunautum búnaðarsambanda falið að undirbúa og skipuleggja skjólbelti með bændum. Á Suðurlandi, í Borgarfirði og í Eyjafirði var einna mest lagt út af skjólbeltum undir þessu kerfi. Árið 1987 var plantað í 17,4 km á Suðurlandi, sem voru tæp 60% á landsvísu, og árið 1988 voru þar settir út 24 km af skjólbeltum á 71 bújörð, trúlega metár í ræktun skjólbelta á þessu tímabili. Eftir þetta duttu skjólbeltastyrkir út vegna lækkunar jarðræktarstyrkja. Ræktun skjólbelta lagðist að mestu leyti af og hófst ekki aftur að ráði fyrr en upp úr 1994.  

Skógræktarfélag Íslands 

Skógræktarfélög á Íslandi stóðu fyrir kynnisferð til Jótlands árið 1992. Tilefni ferðarinnar var, að árið 1990, á 60 ára afmæli sínu fékk Skógræktarfélag Íslands boð frá danska heiðafélaginu, Hedeselskabet, um að senda fulltrúa til að kynna sér starfsemi þeirra á sviði skjólbeltaræktar o.fl. Í Danmörku var Jens Ernst Nilsen fararstjóri hópsins, en hann kom svo til Íslands nokkru síðar og hélt erindi um skjólbeltarækt á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands á Húsavík. Í þessari sömu ferð hélt hann fyrirlestra á Suðurlandi fyrir bændur og skógræktarfólk, ferðaðist um ásamt áhugahópi um skjólbeltarækt og kynnti sér aðstæður og ýmis eldri skjólbelti. Þessi áhugamannahópur gekkst síðan fyrir því að lögð voru út þrjú tilraunaskjólbelti (Vorsabæ í Flóa, Efri-Brúnavöllum Skeiðum og Hrosshaga Biskupstungum) með stuðningi frá Skógræktarfélagi Árnesinga og Búnaðarsambandi Suðurlands.  

Skeiðaskjól  

Skjólbeltarækt hófst í Skeiðahreppi Árnessýslu í kjölfar ferðar skógræktarmanna til Danmerkur árið 1992. Nokkrir ráðamenn ásamt innlendum og erlendum skógræktarmönnum álitu Skeiðin vænlegasta sveitar­félagið til að hefja tilraunaverkefni um skipulagða, samfellda ræktun skjólbelta. Ástæðurnar voru m.a. vöntun á skjóli vegna flatlendis, samfelld ræktunarlönd og mikil landbúnaðarframleiðsla, auk áhuga og reynslu bænda þar á skjólbeltarækt. Skógræktarfélög ásamt Búnaðarfélagi og hreppsnefnd Skeiðahrepps stofnuðu samstarfshóp og fengu til liðs við sig garðyrkjufræðing. Með styrk frá landbúnaðarráðuneytinu var hafist handa vorið 1994. Í upphafi voru aðeins fáir bændur þátttakendur en fljótlega urðu flestar jarðir aðilar að átakinu. Þetta verkefni sem var nefnt „Skeiðaskjól“ var flutt undir Suðurlandsskóga árið 1998.  

Danska fyrirmyndin  

Nokkrir skógræktarmenn og nemar hafa frá 1992 fengið starfsþjálfun við skjólbeltaræktun hjá danska heiðafélaginu og öðrum dönskum verktökum. Árið 2007 stóðu Suðurlandsskógar fyrir námsferð um skjólbeltaræktun til Danmerkur fyrir ráðgjafa í skógrækt. Sautján Íslendingar fóru í þá ferð og sátu vikutíma á námsbekk við danska landbúnaðarháskólann.  

Hingað til hafa flest skjólbelti hérlendis verið einhæf að gerð, þ.e.a.s. einnar tegundar belti; fyrst var notað birki en síðar einkum víðiplöntur eða ösp. En síðustu ár hefur orðið töluverð breyting í tegunda­samsetn­ingu og uppbyggingu nýrra skjólbelta. Vinna við þróun öflugri og langlífari belta hefur mótast út frá reynslu og þekkingu á árangursríkri skjólbeltaræktun Dana, þar sem áherslan er m.a. á vandaðan undirbúning, fjölbreyttari tegundanotkun, umhirðu, notagildi og endingu. Tegundum hefur verið raðað saman eftir hæð, gerð og eiginleikum. Þessi leið hefur verið nefnd „danska módelið af skjólbeltum“ hér á landi. 

Lögbundnir skjólbeltastyrkir  

Mikil og afgerandi breyting varð á opinberum framlögum til skjólbeltaræktar með lögum um Suðurlands­skóga 1997, lögum um Landshlutaverkefnin 1999 og síðan samræmdum lögum um Landshluta­verkefnin árið 2006. Í lögunum kom fram að verkefnin skyldu veita framlög til fjölnytja­skógræktar og skjólbelta­ræktar á lögbýlum. Þessi lögbundni ríkisstyrkur hefur komið fótum undir skjólbeltaræktun víða um land, þar sem Landshlutaverkefnin – nú Skógræktin – hafa séð um skipulagningu, ráðgjöf og styrkumsýslu til lögbýliseigenda, en þeir sjálfir um framkvæmdaþáttinn. Frá 1997 hefur verið úthlutað rúmlega tveim milljónum plantna til skjólbeltaræktunar með opinberum styrkjum, lengst af í umsýslu Landshlutaverkefnanna en nú Skógræktarinnar. 

Nytsemi og hlutverk  

Myndarleg skjólbelti við tún á Suðurlandi. Ljósmynd: Hallur BjörgvinssonSkjólbeltarækt leikur stórt hlutverk víða um heim í jarðvegsvernd, ræktunaröryggi matvælaframleiðslu og bættum búsetuskilyrðum, auk margþættra hlutverka við styrkingu vistkerfa. Risavaxin skjólbeltaverkefni hafa verið sett á laggirnar víða.  

Árið 1935 kom Franklin D. Roosevelt á fót áætlun – „The Great Plain Shelterbelt Project“ – um ræktun skjólbeltakerfis í miðríkjum Bandaríkjanna, til að stöðva gríðarlegan uppblástur og jarðvegseyðingu í kjölfar sandstorma og þurrka (the Dust Bowl) og meðfylgjandi uppskerubrests vegna þaulræktunnar á skjóllausum sléttunum. Þar var plantað á 250 km breiðu og 29.900 km löngu svæði allt frá Kanada til Texas, á árunum 1935-1960, og myndar þetta skjólkerfi nær samfellu við sams konar opinbert átak sem var sett af stað á sléttum Kanada.  

Sovétmenn ræktuðu skjólbelti á 2,5 milljónum hektara á tímabilinu 1948-1965 sem skýla um 20 milljónum ha lands á kornbeltinu á gresjunum miklu í Evrópu og Asíu. Ræktunaráætlunin var kölluð á ensku „The Great Plan for the Transformation of Nature“ eða stóra áætlunin um umbreytingu náttúrunnar. Tilgangur­inn þar var einnig að tryggja ræktunaröryggi og minnka áhrif þurru austanvindanna. Í Kína var hrint í framkvæmd skógræktar- og skjólbelta­verkefni árin 1978-2050 með enska heitinu „The Great Green Wall“, græni veggurinn mikli. Því er ætlað að stemma stigu við ört stækkandi eyðimörkum og jarðvegseyðingu á ræktunarlöndum Norður-Kína. Það nær yfir meira en 4.500 km svæði með fram eyðimörkum í norðurhluta ríkisins og er stærsta skjól- og uppgræðsluverkefni sem um getur.  

Víðast hvar þar sem barist er við jarðvegsfok og gróðureyðingu, hefur skjólbeltaræktun verið mikið notuð til að stöðva þá þróun, byggja upp og auka viðnám og þanþol vistkerfa. Það vekur því nokkra furðu hve lítt þessar aðferðir eru nýttar hér á landi, þar sem viðvarandi jarðvegsfok er víða hér til staðar á stærstu eyðimörkum Evrópu og miklar áskoranir við stöðvun jarðvegseyðingar. 

Kostir skjólbelta til að bæta staðveður og þar með búsetuskilyrði og ræktunaraðstæður eru vel þekktir, m.a. í nágrannalöndum okkar í Evrópu, og nægir þar að nefna eylönd eins og Danmörk og Bretland, þar sem skjólbelti eru ein af undirstöðum ræktunaröryggis í fóður- og matvælaframleiðslu. Hér á landi hefur skjólbeltaræktun verið að feta sín fyrstu skref undanfarna áratugi og er því brýnt að halda vel utan um fræðslu og kynningu á nytsemi og framkvæmdaleiðum, svo ræktun skjólbelta geti orðið að sem bestu gagni hér sem annars staðar.  

Almenn þekking og áhugi á þessu sviði hefur aukist á síðustu árum og því er mikilvægt að sú stofnun sem fengið hefur það hlutverk að halda utan um ríkisstyrki til skjólbeltaræktunar leggi áherslu á fagleg vinnubrögð við skipulag, ráðgjöf og framkvæmdir í skjólbeltaræktun.