Starfsmaður Skógræktar ríkisins átti leið bæði um Heiðmörk og Haukadalsskóg helgina 11. -12. október. Þrátt fyrir svalt veður og svarta viku í fjármálum var margt um manninn í báðum skógunum. Ekki var gerð fræðileg úttekt á því hvort nýting skóganna til útivistar hafi verið meiri þessa helgi en aðrar helgar. Hitt er víst að ganga í skógivöxnu umhverfi er góð heilsubót fyrir líkama og sál.

Ásamt ströndum teljast skógar til þeirra gerða umhverfis sem eru hvað mest græðandi (e. restorative environment). Munurinn er þó sá að í skógi er skjól og því oftar hægt að njóta þar útivistar. Ábatinn sem fólk fær við útiveru í skógi er misjafn en oftast eru áhrifin þau að draga úr streitu og skerpa hugann, einkum með því að beina athyglinni að öðru en daglegu amstri og steinsteyptu umhverfi.

Á undanförnum árum hefur margt verið gert til að bjóða almenning velkominn í skóga landsins, sérstaklega þá sem eru á vegum Skógræktar ríkisins, þ.e. Þjóðskóganna, auk skóga skógræktarfélaga, en þeir eru víða um land í grennd við þéttbýli. Í mörgum skóganna eru góðir göngustígar og ýmis önnur aðstaða til útivistar. Landsmenn eru hvattir til að nýta sér græðandi áhrif skóga á þessum erfiðu tímum.

frett_17102008_1