Mynd: Hreinn Óskarsson
Mynd: Hreinn Óskarsson

Aska féll á skóga og grasi gróið land í Þórsmörk og Goðalandi síðustu daga eldgossins í Eyjafjallajökli 18.-21. maí sl. Var öskulagið þykkast í Húsadal, þ.e. um 3 cm, en minna í Langadal og Básum, eða um 1-2 cm. Askan féll með rigningu í Húsadal og festist á trjágróðri, en í Langadal og Básum féll askan í þurru veðri og settist á skógarbotninn. Leit skógurinn í Húsadal illa út fyrstu dagana eftir öskufallið og varð hann öskugrár eins og sjá má á meðfylgjandi myndum, en eftir örfáa daga var komin græn slikja yfir skóginn enda sprengdu trén öskuna utan af greinum og brumum þegar þau laufguðust. Skógurinn er í góðu ásigkomulagi og líta tré vel út. Ekki spillir fyrir að töluverð næring er í öskunni og virkar öskufallið því eins og áburðargjöf á skóginn. Botngróður í skóginum mun eiga í einhverjum erfiðleikum með að spretta upp úr öskunni þar sem hún er þykkust, en þegar rignt hefur í skóginum mun askan skolast niður í svörðinn og þá munu blómplöntur koma í ljós. Nú þegar sjást kröftugar plöntur eins og hvönn brjóta sér leið upp úr öskunni og mun tegundunum fjölga þegar líður á sumarið.

Í sumar verður einstakt en sjaldséð tækifæri fyrir almenning að sjá hvernig náttúrlegir birkiskógar bregðast við öskufalli. Birkiskógar fyrri tíma hafa ítrekað fengið yfir sig öskufall eins og lesa má af öskulögum jarðvegssýnum sem tekin hafa verið úr elstu friðuðu birkiskógum landsins. Með þetta í huga hefur verið unnið að endurheimt birkiskóga í nágrenni Heklu í Hekluskógaverkefninu síðustu árin með ágætum árangri. Bíða þeir skógar þess að taka við ösku úr Heklu þegar hún gýs næst.

frett_09062010_101Ekki hefur rignt neitt af ráði síðan askan féll í Þórsmörk og Goðalandi og er jarðvegur og aska orðin mjög þurr. Því þyrlast askan upp þegar gengið er um svæðið. Öskufok er þó aðallega bundið við bersvæði, t.d. Krossáraura, Markarfjótsaura og fjalllendi þar sem birkiskógar vaxa ekki. Því er ekki ráðlegt að fara í langar gönguferðir um svæðið í þurru veðri nema vera með rykgrímur fyrir vitunum. Þegar rignt hefur á svæðinu verður þó mjög gaman að ganga eftir hinum fjölmörgu skógarstígum á svæðinu og fylgjast með framvindu náttúrunnar.

Þessa dagana er verið að gera við stíga í Goðalandi sem liggja úr Strákagili  upp á Fimmvörðuháls og starfa sjálfboðaliðahópar frá Umhverfisstofnun við það verk. Í næstu viku munu nokkrir starfsmenn Skógræktar ríkisins sem ráðnir hafa verið í gegn um átaksverkefni ríkisstjórnarinnar 856 ný störf fyrir námsmenn og atvinnuleitendur hefja störf við stígaviðgerðir og hreinsun í Þórsmörk.

Meðfylgjandi myndir sýna hvernig skógarnir litu út strax eftir að öskufallinu lauk, en nokkrum dögum síðar hefur skógurinn laufgast og brotið af sér öskuhúðina.

frett_09062010_103

frett_09062010_102

frett_09062010_104

frett_09062010_106

frett_09062010_107

frett_09062010_108

frett_09062010_109

frett_09062010_110

frett_09062010_111

frett_09062010_112





Myndir og texti: Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi