Sýnist að stórverslanir selji innflutt tré ódýrt til að draga til sín viðskiptavini

Héraðsfréttamiðillinn Austurfrétt segir frá því að skógarbændurnir að Brekkugerði í Fljótsdal og Teigabóli í Fellum selji jólatré til höfuðborgarsvæðisins. Mikilvægasti markaður þeirra sé þó heima fyrir.

Fréttin er á þessa leið:


Skógarbændur á Fljótsdalshéraði hafa undanfarna daga gert jólatré klár sem send verða suður til Reykjavíkur til sölu. Heimamarkaðurinn er samt mikilvægastur fyrir þá.

Undanfarin ár hafa tré frá Austurlandi verið til sölu hjá Skógræktarfélagi Hafnarfjarðar og Skógræktarfélagi Reykjavíkur. Í ár eru trén aðeins til sölu hjá síðarnefnda félaginu og koma þau frá bæjunum Brekkugerði í Fljótsdal og Teigabóli í Fellum.

„Við vorum að draga þau út úr skóginum og ganga frá til sendingar. Þau fara suður á morgun,“ segir Jóhann F. Þórhallsson, bóndi í Brekkugerð

Mest er selt af blágreini, það er vinsælast og gefur besta verðið en einnig er rauðgreni í sendingunni. Jóhann segir jólatrjáasöluna skipta skógarbændur nokkru máli. „Hún skapar fyrstu tekjurnar sem maður hefur af skógrækt. Við seljum trén þegar þau eru 12-15 ára.“

Samkeppnin í jólatrjáasölunni er hörð því mikið er flutt inn af trjám, einkum norðmannsþin. „Samkeppnisstaða okkar er þröng. Innfluttu trén eru framleidd í miklu magni af stórbændum á tugum hektara lands. Okkur virðist líka sem verslunarkeðjurnar sem selja þau noti trén til að draga fólk í verslanirnar því álagningin á þeim virðist lítil sem engin.“

En þótt tré séu seld suður er það heimamarkaðurinn sem skiptir austfirska skógarbændur mestu máli. „Hér eru seld nokkur hundruð tré. Það er mikið selt á Barramarkaðinum, síðan koma hópar út í skóg til að ná í tré og svo er selt á stökum sölustöðum, svo sem Húsi handanna.

Loks eru nokkrir bændur sem fara í þéttbýlisstaði og selja,“ segir Jóhann sem sjálfur fer árlega til Vopnafjarðar.

En hvernig jólatré verður í Brekkugerði? „Hér er regla um að karlarnir velja jólatré eitt árið og konurnar hitt. Það er ýmist blágreni eða stafafura.“

Á mynd sem birtist með fréttinni er Einar Örn Guðsteinsson, bóndi á Teigabóli, með jólatré á bretti sem tilbúin eru til sendingar. Myndina tók Jóhann F. Þórhallsson.