Búnaðarsamband Eyjafjarðar hélt aðalfund sinn að Laugarborg í Eyjafjarðarsveit 23. mars sl.  Þar veitti Búnaðarsambandið m.a. árleg hvatningarverðlaun, sem veitt eru fyrir sérstakt framtak í landbúnaði og/eða úrvinnslu landbúnaðarafurða. 

Að þessu sinnu hlutu skógarbændurnir að Glæsibæ í Hörgárbyggð þau Davíð Guðmundsson og Sigríður Manasesdóttir hvatningarverðlaun Búnaðarsambandsins. Davíð og Sigríður eru þátttakendur í Norðurlandsskógaverkefniu sem stofnað var árið 2000 en voru áður aðilar að nytjaskógrækt á bújörðum sem var verkefni á vegum Skógræktar ríkisins. 

Þau hjón hafa gróðursett á milli 40 og 50 þúsund plöntur árlega eða alls rúmlega hálfa miljón plantna á jörð sinni. Þetta er enn sem komið er lang umfangsmesta skógrækt einstaklinga á Norðurlandi. Þessi verðlaun eru skógarbændum á Norðurlandi kærkomin hvatning og sýnir það að skógrækt er orðin alvöru búgrein, enda eru um 120 bændur á Norðurlandi þátttakendur í Norðurlandsskógaverkefninu.