Ýmis skemmtileg hliðarverkefni hafa orðið til í tengslum við verkefnið Lesið í skóginn sem er samstarfsverkefni Skógræktar ríkisins, Menntasviðs og Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar, Kennaraháskóla Íslands, Kennarasambands Íslands, Námsgagnastofnunar, Norðurlandsskóga, Skógræktarfélags Reykjavíkur og 22 grunnskóla. Stjórn verkefnisins er í höndum verkefnisstjórnar sem skipuð er af samstarfsaðilum og verkefnisstjóri er Ólafur Oddsson fræðslufulltrúi Skógræktar ríkisins.

Eitt þeirra er verkefni Álftamýrarskóla sem gengið hefur undir nafninu „Skógardrengir”. Ákveðið var að bjóða þremur drengjum í 10. bekk í Álftamýrarskóla upp á tilbreytingu í skólastarfinu. Þeir voru allir áhugalitlir um hefðbundið nám og ákveðið að bjóða þeim að taka þátt í verkefninu til að ýta undir frumkvæði og ábyrgð drengjanna. Í upphafi hvers dags fóru verkstjórinn og drengirnir formlega saman yfir verkefni dagsins, þau undirbúin og rætt um árangur. Álits drengjanna var leitað á framkvæmdum verkefna og þeir voru gerðir ábygðir fyrir sínum verkum með því að úthluta þeim afmörkuðum og skilgreindum verkefnum. Drengjunum var hlíft við skrifræði og upphafleg áform um slíkt dregin til baka en lögð áhersla á vinnusemi og afköst. Í stað skrifræðis var lögð áhersla á að mynda einstaka vinnuþætti. Leiðsögn var borin fram í áföngum og voru drengirnir látnir leysa vandamál án afskiptasemi, en í útgangspunkti treyst til að höndla verkfæri og búnað og bera ábyrgð. Sem dæmi um þau verkefni sem drengirnir fengust við má nefna snyrtingu skógarstíga í Öskjuhlíð, byggingu virkisveggjar og jafnvægisslár, reisingu flaggstanga, stígagerð og almenna skógarhirðu.

Þótti þetta verkefni takast með eindæmum vel. Drengirnir voru áhugasamir, vandvirkir, kurteisir, vinnusamir, samviskusamir, tóku vel tilsögn og tóku ábyrgð á einstökum verkefnum sem þeim var falið. Í kynningu sem þeir fluttu fyrir kennara, foreldra og nemendur gátu þeir þess að verkefnið hafi verið skemmtilegt og það geti verið skemmtilegt í skólanum. Drengirnir töldu sig hafa lært á ýmiss tæki og áhöld og vinna með þeim og það væri gaman að skólinn treysti þeim fyrir verkinu. Þeir gerðu grein fyrir tilgangi verkefnisins og lýstu einstökum þáttum þess með myndum og texta.

Þekkt er að bæta má námsleiða og áhugaleysi nemenda með því að brjóta upp venjur og láta þá fást við nýstárleg og viðráðanleg verk í græðandi umhverfi. Skógur er tilvalið umhverfi fyrir þesskonar verkefni. Verkefnið með skógardrengina er dæmi um skógarnytjar, þ.e. hvernig má nýta skóginn til að ná fram jákvæðum breytingum á hegðun unglinga og bæta um leið skólastarf. Slíkar skógarnytjar eru síður en svo ómerkilegri en önnur nytsemi skógarins, svo sem viðarframleiðsla, jarðvegsvernd eða kolefnisbinding.  Það er von Skógræktar ríkisins að þetta verkefni nýtist sem fordæmi fyrir fleiri slík í öðrum skólum og víðar. 


Á efri myndinni má sjá „Skógardrengina" dreifa kurli í stíg en á þeirri neðri eru yngri nemendur skólans að vígja jafnvægisslá sem drengirnir smíðuðu.


frett_06082008_2