Regnskógur í Doi Inthanon þjóðgarðinum í Taílandi. Mynd: Wikimedia Commons/Adbar
Regnskógur í Doi Inthanon þjóðgarðinum í Taílandi. Mynd: Wikimedia Commons/Adbar

Verndun skóga einföld leið til að hamla gegn loftslagsbreytingum

Útilt er fyrir að skóglendi sem samanlagt samsvarar stærð Indlands hverfi af yfirborði jarðar fyrir miðja öldina ef mannkynið snýr ekki af þeirri braut skógareyðingar sem fetuð hefur verið. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem kynnt var í gær á vegum CGD, Center for Global Development, sem er óháð þekkingarmiðstöð um alþjóðamál og hefur höfuðstöðvar í Washington í Bandaríkjunum.

Skýrsluna skrifa tveir vísindamenn sem starfa fyrir CGD, þeir Jonah Busch umhverfishagfræðingur og Jens Engelmann, matvæla- og auðlindahagfræðingur. Þeir félagarnir spá því að fram til ársins 2050 geti losnað út í andrúmsloftið tæplega 170 gígatonn af koltvísýringi vegna skógareyðingar og hnignunar skóga. Þetta eru 170 milljarðar tonna. Til samanburðar er heildarlosun koltvísýrings á Íslandi árið 2012 talin hafa verið ríflega 3,3 milljónir tonna.

Fram kemur í skýrslunni að ef ekki verður gripið til róttækari aðgerða til að draga úr skógareyðingu muni hitabeltisregnskógur eyðast á 289 milljónum hektara fram til ársins 2050. Það hafa skýrsluhöfundar reiknað út að samsvari einum sjöunda af þeim regnskógum sem voru á jörðinni árið 2000. Þeir hafa sömuleiðis reiknað út að þau 169 gígatonn af koltvísýringi sem losna munu ef þessar spár um skógareyðingu ganga eftir samsvari einum sjötta af því kolefni sem jarðarbúar mega losa ef þeir vilja halda hlýnun á jörðinni undir tveimur stigum á selsíus. Almennt er talið að verði hlýnunin meiri en tvær gráður muni það hafa mjög alvarlegar afleiðingarnar fyrir lífið á jörðinni. Sumir sérfræðingar telja jafnvel að þessi mörk séu lægri og minna en tveggja stiga hlýnun geti endað með ósköpum.

Undanfarin ár hafa ýmsar rannsóknir á skógareyðingu þótt benda til þess að smám saman myndi draga úr eyðingu regnskóganna ef fram færi sem horfði. Í þessari nýju skýrslu kveður við nokkuð annan tón. Því er spáð að ef mannkynið heldur áfram á þeirri braut sem það er á nú og gerir ekkert til að draga úr eyðingu regnskóganna muni skógareyðingin aukast frekar en hitt. Eyðing regnskóga muni sennilega vaxa stig af stigi á þriðja og fjórða áratug þessarar aldar og eftir 2040 muni hún aukast að mun. Þá muni skógur taka að eyðast af þéttum regnskógarsvæðum  í Suður-Ameríku sem hingað til hafa verið að mestu ósnert.

Höfundar skýrslunnar leggja til aðferð sem þeir telja að geti orðið til þess að draga úr sókn manna í regnskógana og boða nýja tíma í löndum hitabeltisins. Þeir leggja til að gjald verði lagt á kolefni í heiminum. Samkvæmt skýrslunni myndi 2500 króna gjald (20$) á hvert kolefnistonn koma í veg fyrir losun 41 milljarðs tonna af koltvísýringi á árabilinu 2016-2050. Ef gjaldið væri um 6500 krónur (50$) myndi það draga úr losun vegna eyðingar regnskóga um 77 milljarða tonna.

Fram kemur að ef öll hitabeltislönd settu lög gegn skógareyðingu á borð við þau sem gilt hafa um Amason-frumskóginn frá 2004 mætti koma í veg fyrir losun 60 gígatonna af koltvísýringi. Í Brasilíu minnkaði eyðing regnskóga úr 27.000 ferkílómetrum árið 2004 niður í um 7.000 ferkílómetra árið 2010. Hermt er að með þessu hafi verið komið í veg fyrir losun um 2,7 milljarða tonna af koltvísýringi út í andrúmsloftið. Kolefnið sem ella hefði verið losað geymist áfram í skóginum.

Heilbrigðir skógar geta verið heljarmiklar kolefnisgeymslur en sums staðar er tvísýnt um getu skóganna til að geyma kolefni. Tímaritið Nature hefur fjallað um nýja langtímaathugun á dvínandi geymslugetu Amason-frumskógarins. Vera kunni að loftslagsbreytingar hafi þegar dregið úr mætti skógarins til að binda í sér kolefni. Vísbendingar séu um að aukinn trjádauði eigi þátt í þessari þróun.

Sú hugmynd er reifuð að ríku löndin greiði löndum hitabeltisins fyrir að vernda skóga sína og það sé ódýrari leið en ýmsar aðrar í baráttunni við loftslagsbreytingarnar. Annar skýrsluhöfundanna, Jonah Busch, lýsti því yfir að þessi leið til að draga úr losun koltvísýrings kostaði ekki nema um einn fimmta af því sem það kostaði að draga jafnmikið úr losun í löndum Evrópusambandsins.

Fleiri rannsóknir má nefna þar sem sýnt hefur verið fram á þá hættu sem steðjar að ef ekki tekst að draga úr skógareyðingu og koma í veg fyrir hnignun skógarvistkerfa. Í nýjasta tölublaði tímaritsins Science er sagt frá niðurstöðum rannsóknar sem sýna að ef ekki verður breytt um stefnu muni skógar heimsins verða æ slitróttari og stórt, samfellt skóglendi æ sjaldgæfara. Það sé hættuleg þróun fyrir ýmsar lífverur skóganna. Simon Lewis, regnskógasérfræðingur við háskólann í Leeds á Englandi, og aðalhöfundur greinarinnar, bendir á að með aðgerðum eins og skógareyðingu, skógarhöggi og vegagerð skiptist skógarnir niður í smærri og smærri aðskildar einingar. Um leið valda loftslagsbreytingarnar því að þörf bæði jurta og dýra til að flytja sig um set fer vaxandi. Í sundurslitnu og ósamfelldu skóglendi geti það reynst ómögulegt. Þar með sé hætt við að tegundir í frumskógunum deyi út í stórum stíl á þessari öld og um næstu aldamót verði þeir regnskógar sem eftir verða aðeins svipur hjá sjón, fábreytt og hnignandi vistkerfi órafjarri þeirri miklu líffjölbreytni sem heilbrigðum regnskógi er eðlileg.

Tenglar:

Texti: Pétur Halldórsson