Í tilefni af Barnamenningarhátíð var á síðasta vetrardegi efnt til skógarfræðslu í Öskjuhlíðinni fyrir nemendur og starfsfólk Tjarnarskóla. Námskeiðið hófst kl. 9:00 og stóð til kl.12:00. Settar voru upp 6 stöðvar þar sem unnið var að skógartengdum verkefnum. Þar fræddust nemendur og starfsfólk um gamlar og nýjar aðferðir við mælingar í skógi, lærðu að hirða skóg með sögum og klippum, fara í víkingaleiki að gömlum sið, kynntust tálgun, unnu að skapandi skógarverkefnum, bökuðu greinabrauð yfir eldi og fengu kakó með.

Það voru samstarfsaðilar verkefnisins Lesið í skóginn sem mönnuðu stöðvarnar, þ.e. starfsmenn Skógræktar ríkisins, Umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkur, Náttúrskóla Reykjavíkur, Menntasviðs Reykjavíkur og ÍTR.  

Námskeiðið fór fram í grenndarskógi HÍ í Öskjuhlíðinni þar sem búið er að koma upp nokkurri aðstöðu til útináms og kynntust þátttakendur þessu svæði nokkuð vel með því að ganga á milli stöðva og upplifa þar ólík verkefni. Ekki var að sjá annað en að nemendur og starfsfólk nytu útivistarinnar og þátttökunnar í  verkefnunum en nemendunum, sem voru á aldrinum 10 til 15 ára, var blandað saman þvert á aldur.

frett_30042010_4

frett_30042010_5

Myndir og texti: Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktar ríkisins.