Fræðsla um skóg finnst mörgum áhugaverð. Hér fræðir Ólafur Oddsson fullorðna nemendur.
Fræðsla um skóg finnst mörgum áhugaverð. Hér fræðir Ólafur Oddsson fullorðna nemendur.

Námskeið í boði viðHáskóla Íslands Listaháskólann og Tækniskólann

Útinám og skógarfræðsla hefur fest sig í sessi við marga leik- og grunnskóla lands­ins og víða hafa skólar aðgang að útikennslustofum í nálægum skógum. Fræðsla sem þessi er þó ekki síður mikil­væg við framhaldsskóla og á háskólastigi. Nú eru í boði námskeið við ­Tækni­skólann, Listaháskóla Íslands og Háskóla Íslands þar sem nemendur læra að lesa í skóginn, umgangast hann og hirða, nytja og njóta.

Ólafur Oddsson, fræðslufulltrúi Skógræktar ríkisins, hefur langa reynslu af útikennslu og er aðalmaðurinn bak við verkefnið Lesið í skóginn, tálgað í tré, sem unnið hefur verið að um árabil. Margir leik- og grunnskólar víða um land hafa tileinkað sér vinnubrögðin og ala nemendur sína upp við skógarfræðslu. Ólafur segir að vaxandi áhugi sé á þessum efnum hjá skólum á framhalds- og háskólastigi, til dæmis hjá Menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Að tálga með bitáhöldum er skapandi iðja. Hún vísar langt aftur í aldir og árþúsund.

Sjálfbærni og tengsl við náttúruna

Á kennsluskrá Menntavísindasviðs 2016-2017 er í boði námskeiðið Útikennsla og græn nytjahönnun. Þar verður tekist á við kennslu og hugmyndafræði „útikennslu og grænnar nytjahönnunar“. Nemendur læra um sjálfbæra þróun í hönnun, skógarvistfræði og skógarnytjar. Farið verður í vettvangsferðir þar sem nemendur kynnast þessari kennsluaðferð af eigin raun og leitast við að efla tengsl nemenda í verkgreinum við íslenska náttúru og hvernig hægt sé að hanna fyrir umhverfið án þess að valda því skaða. Þróaðir verða nytjahlutir úr íslenskum viðarafurðum og frumgerðir smíðaðar með tálguaðferðum sem notaðar hafa verið á Norðurlöndunum frá fornu fari.

Skógarmenning verður til í skjóli skógarins. Hér er pinnabrauð bakað yfir glóðum.

Þetta námskeið er á meistarastigi og segir Ólafur að nemendurnir 25 séu ýmist í fjarnámi eða staðnámi. Þeir komi því víða að af landinu og séu gjarnan starfandi kennarar sem vilji tengja skóginn inn í skólastarfið og sækja sér endurmenntun og nýja þekkingu á þessu sviði. Námskeiðið hefur verið kennt áður en er nú orðið fastur liður á kennsluskrá Menntavísindasviðs. Reynslan sýnir að sögn Ólafs að nám­skeið­ið verði gjarnan til þess að breytingar séu gerðar í skólum viðkomandi kennara, skógurinn notaður meira og útinám aukið.

Hann segir margt benda til þess að hægt sé að nota skapandi, verkleg viðfangsefni, þar með talið listgreinar, sem valdeflandi þátt í námi. Þetta komi öllum nemendum til góða en geti einnig verið þeim nemendum mikil hjálp sem eiga við félags- og námsörðugleika að stríða. Ólafur hefur um árabil starfað með Brynjari Ólafssyni að list- og verkgreinakennslu við Háskóla Íslands. Brynjar hefur unnið að námskrárgerð fyrir menntamálaráðuneytið en stundar nú doktorsnám í Noregi um sérkennslumál og gildi skapandi listgreina í skólastarfi.

Sífellt fleiri kjósa að búa til nytjahluti til heimilisnota.

Að efla einstaklinginn

Brynjar hefur rannsakað valdeflandi áhrif tálgunámskeiða á ungt fólk með félags- og námserfiðleika. Hann gerði rannsóknina á námskeiði Ólafs hjá Endurhæfingarmiðstöð Janusar á síðasta ári. Niðurstöður rannsóknarinnar segir Ólafur að séu mjög áhugaverðar. Þær verði kynntar á ráðstefnunni „Sköpun skiptir enn sköpum“ sem haldin verður 17. mars á vegum Menntavísindasviðs HÍ. Þar segir Brynjar frá rannsókninni en Ólafur kynnir hið praktíska starf við skógarfræðsluna og hvernig tálgunin getur hjálpað fólki með ólíkan vanda svo sem einhverfu, ofvirkni, félagskvíða, geðraskanir o.fl.

Listaháskólinn

Undanfarin ár hefur verið í gangi gott samstarf við Listaháskóla Íslands og Skógræktarfélag Reykjavíkur undir yfirskriftinni Stefnumót við skógarbændur. Þar er unnið með þriðja árs nemum á iðnhönnunarbraut skólans sem fá almenna skógarfræðslu og læra handbrögðin við tálgun og fleira. Í vetur var ákveðið að taka víði fyrir sérstaklega og grafast fyrir um efnasamsetningu hans og eiginleika. Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri og Ólafur Oddsson fræðslufulltrúi hittu fulltrúa Skógræktarfélags Reykjavíkur og Listaháskólans til að velta fyrir sér hvað væri að finna í víðinum og hvernig mætti koma á formlegu samstarfi um rannsóknarskapandi viðfangsefni fyrir nemendur skólans. Þá hefur Ólafur einnig unnið að undirbúningi námskeiðs sem verði hluti af kennsluréttindanámi við Listaháskólann í haust.

Minjagripir tálgaðir úr íslenskum viði eru vinsælir meðal nema og erlendra gesta.

Tækniskólinn - skóli atvinnulífsins

Útinám er góð viðbót við allt annað nám, segir Ólafur. Tækniskólinn, skóli atvinnulífsins býður nú almenningi í fyrsta sinn námskeiðið Lesið í skóginn - ferskviðartálgun í Endurmenntunarskóla sínum. Markmið námskeiðsins er að þátttakendur öðlist færni í tálgun úr ferskum viði, meðhöndlun tálgugripa og bitáhalda og þekkingu á efnisöflun úr nágrenni sínu. Þetta er verklegt námskeið sem kennt verður fimm kvöld í aprílmánuði. Fræðslusjóðir flestra stéttarfélaga styrkja námskeið hjá Endurmenntunarskólanum.

Af þessu sést að skógarfræðsla og útinám er ekki eingöngu í boði fyrir börn og unglinga heldur hefur tækifærum fullorðinna til að nýta sér það líka fjölgað. Fræðsla sem þessi er sömuleiðis mikilvægur þáttur í því að almenningur í landinu læri að meta gildi skóga fyrir bæði náttúru og menn. Skógi vaxið land hefur svo margt umfram skóglaust land og eyðing skóga um allan heim hefur haft margvíslegar afleiðingar fyrir lífríkið og þar með fyrir mannkynið. Eitt mikilvægasta verkefni mannkyns um þessar mundir er að breiða skóga jarðarinnar út á ný.

Tálguð útivistaráhöld verða æ vinsælli. Gott er að hafa einn svona með sér í
gönguferðirnar og láta hanga utan á bakpokanum til að svala þorstanum
upp úr lækjum og ám á leiðinni.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Ólafur Oddsson