Dagana 18.-20. október 2003 sátu þeir Jón, Aðalsteinn og Þröstur fund barrtrjáahóps EUFORGEN sem haldinn var í Pitlochry í Skotlandi.  EUFORGEN er samheiti yfir  Evrópusamstarf á sviði verndunar og nýtingar erfðalinda í skógrækt.  Samstarf þetta er vistað undir IPGRI (International Plant Genetic Resources Institute - alþjóðaplöntuerfðalindastofnunin) sem hefur höfuðstöðvar sínar í Róm.  Stofnað var til EUFORGEN samstarfsins á fyrsta ráðherrafundi um verndun skóga í Evrópu í Strasbourg 1990 og þar sem Íslendingar undirrituðu yfirlýsingu þess fundar hefur okkur alla tíð staðið til boða að taka þátt.

Þar sem þetta var barrtrjáahópur EUFORGEN sagði Þröstur frá notkun og mikilvægi barrtrjáa í íslenskri skógrækt.  Í framhjáhlaupi nefndi hann eininn, einu innlendu barrviðartegund á Íslandi, sem væri að vísu ekki notuð í skógrækt enda ekki tré.  Í hópnum virtist það þó vekja mesta athygli að einir skuli vaxa á Íslandi, enda kom í ljós að einir er eina barrviðartegund sem er innlend í öllum ríkjum Evrópu.

 Í tengslum við fundinn var farið í tvær skoðunarferðir.  Fyrri daginn var Díönulundur við Blair Atholl kastala heimsóttur, en það er trjásafn með einhverjum elstu og stærstu barrtrjám í Skotlandi.  Þintegundirnar voru sérstaklega glæsilegar, enda hæstu trén yfir 54 m á hæð og með hátt í tveggja metra þ.b.h.

Seinni daginn skoðuðum við okkur um í nágrenni Dunkeld, m.a. þar sem sifjalerki varð fyrst til 1904.  Þar standa enn mæður og ferður þeirra; tvö evrópulerki og eitt japanslerki.  Í Craigvinian þjóðskóginum þar skammt frá, sýndi Chris Ford skógarvörður okkur nokkur kort úr driftsplaninu þeirra.  Þar kom m.a. fram að við skipulagningu þeirra svæða innan þjóðskóganna sem mesta umferð ferðafólks fá eru landslagsarkitektar fengnir til að meta sjonlínur (útsýni í skóginum) og gera tillögur um göngustíga og áningarstaði út frá því mati.

 Litum svo við í skráðum fræreit af gullfallegu evrópulerki í miklum haustlitaskrúð.  Þar hefur þó engu fræi verið safnað í mörg ár, einkum af því að trén eru orðin óþægilega há.

 Svo var farið til Ledmore rannsóknasvæðisins, þar sem er að finna mikla klónbanka og frægarða allmargra tegunda.  Í sitkagrenifrægörðum sem ná samtals yfir 10 ha er fræ tínt annað til fjórða hvert ár, mest um 320 kg af fræi árið 1996.

Á leiðinni heim að hóteli var komið við í stórþinslundi (Abies grandis) sem á vaxtarmet trjáa í Skotlandi.  Hann er 63 ára frá gróðursetningu, öll trén teinrétt og óskemmd, yfirhæð er um 50 m og árlegur viðarvöxtur 36 m3/ha/ár.  Ótrúleg tré!  En okkur var tjáð að engin not væru fyrir þinvið og þess vegna gróðursettu Skotar engan þin.  Hvort þar sé um að ræða skammsýni, þröngsýni, svartsýni eða raunsæi er erfitt að dæma.