Þann 21 október snjóaði í hálöndum Skotlands og Bob Dunsmore bættist í hópinn, en hann er svæðisstjóri Forestry Authority í norðurhluta Skotlands og er hans starf sambærilegt við starf framkvæmdastjóra landshlutabundins skógræktarverkefnis hér á landi.
Þessum degi eyddum við að mestu í Cairn Gorms þjóðgarðinum og jaðarsvæðum hans. Þannig er í Skotlandi að land sem tilheyrir þjóðgarði þarf hvorki að vera í eigu ríkisins né í beinni umsjón náttúruverndarstofnunar þeirra; Scottish Natural Heritage. Fyrst heimsóttum við Glenmore þjóðskógin, sem er jafnframt hluti af Cairn Gorms þjóðgarðinum (ekki ósvipað og Ásbyrgi), og hittum þar skógarvörðinn David Jardin. Hann sýndi okkur gestastofu sem var hönnuð sérstaklega til að vera aðlaðandi fyrir bæði börn og fullorðna og fræðandi um skóginn í leiðinni. Þarna er mest áhersla lögð á útivistargildi skógarins, enda heimsækja hundruð þúsunda manna svæðið árlega. Þarna gróðursetti ríkisskógræktin breska mikið af innfluttum trjátegundum á sínum tíma, en þar sem skógurinn er nú orðinn hluti þjóðgarðs er stefnan sú að innfluttu tegundirnar hverfi smá saman og náttúruskógur sái sér inn í staðinn. Menn eru þó ekki að fella skóg fyrr en eðlileg lota er liðin.
(Efri mynd: Fjallshlíð í Rothiemurchus, neðri mynd: Blæaspir að syngja sitt síðasta við Grantown-on-Spay.)
Síðan lá leiðin til Rothiemurchus búgarðsins, sem er í einkaeign en einnig innan þjóðgarðsins. Þar lóðsaði Stuart Blackhall skógarvörður okkur um og lýsti því hvernig gengi að reyna að reka bú innan þjóðgarðs. Miklar hömlur eru á því hvað megi gera og rétt eins og í Glenmore þjóðskóginum (næsta bæ við) eru menn að reyna að lifa á ferðaþjónustu.
Í Grantown-on-Spay hittum við Peter Cosgrove, sem er biodiversity officer (líffræðilegur fjölbreytnifulltrúi ?) Cairn Gorms þjóðgarðsins og Ian Collier skógfræðing. Þeir sýndu okkur skóglendi í jaðri þjóðgarsins sem bæjarfélagið Grantown var nýbúið að kaupa og ætlaði að breyta úr nýtjaskógi í útivistar/verndarskóg. Þetta var furuskógur þar sem vel mátti sjá hvernig nýtingarmunstrið hafði verið, þ.e.a.s. rjóðurfelling á 1-3 ha svæðum í einu, skógur endurnýjaður með gróðursetningu og grisjað tvisvar til þrisvar á lotunni. Útkoman var fjölbreytt svæði þrátt fyrir að aðeins ein trjátegund væri algjörlega ríkjandi í skóginum.
Síðan skoðuðum við blæasparlund á bökkum Spay sem einnig var nýbúið að kaupa til að vernda fyrir sauðfjárbeit. Trén voru öll komin á síðasta snúning, meira eða minna sýkt af einhverri hyllusvepptegund og engin endurnýjun með rótarskotum. En þótt blæösp sé ekki ýkja algeng í Skotlandi voru miklu merkilegri hlutir í þessum lundi en trén. Þarna var t.d. mosategund ein afar smávaxin sem vex eingöngu á berki gamalla aspa og finnst ekki nema á tveimur öðrum stöðum í Skotlandi (að vísu hefur ekki verið leitað allsstaðar). Svo var það hyllusveppurinn sem var að drepa trén, en hann er einnig afar sjaldgæfur. Ekki nóg með það heldur er einstaklega sjaldgæf randaflugutegund þarna sem lifir eingöngu á hyllusveppnum. Beit í skógarbotninum hefur komið í veg fyrir endurnýjun asparinnar í áratugi og því ekki víst að gömlu trén tóri þangað til nýjir sprotar sem vaxa upp eftir friðun fá hrjúfan börk og hyllusveppi. Það gætu því verið mögur ár framundan fyrir mosa og randaflugur.
Um kvöldið gistum við í kastala á Alvie búgarðinum, þar sem hjón eru að reyna að reka staðinn með ýmsri starfsemi nákvæmlega eins og í sjónvarpsþáttunum um Hálandahöfðingjann, enda var sú þattaröð mynduð á nákvæmlega eins stað í næsta dal til vesturs.