Starfsmenn Félags skógarbænda á Héraði fundu við vinnu sína í sumar tvo skógarpúka, þau Petru og Pjakk. Jóhann Gísli, formaður Félags skógarbænda á Héraði og sérlegur umboðsmaður púkanna, segir þá vænstu skinn. „Petra og Pjakkur sjást venjulega ekki, nema þau vilji það sjálf. Þau hvetja fólk til að borða hollan mat og tala vandaða íslensku." Púkarnir ferðast nú um fjórðunginn með Félagi skógarbænda á Héraði, færa leikskólum jólatré frá Skógrækt ríkisins og heilsa upp á krakkana.

Austfirsku skógarpúkarnir komu fyrst fyrir sjónir almennings á Skógardaginn mikla í sumar. Nokkrum vikum síðar var tekið upp efni sem nú er komið út á myddiski. Á honum er leikþáttur eftir Sigþrúði Sigurðardóttur, auk laganna Skógarpúkalagið, Skógardagslagið og Jólatréslag. Diskurinn verður seldur á markaðsdegi Félags skógarbænda á Héraði, Skógræktar ríkisins, Barra, Héraðs- og Austurlandsskóga þann 13. desember. Hann er ekki farinn í formlega dreyfingu utan fjórðungsins, en þeir sem hafa áhuga geta haft samband við umboðsmann púkanna, Jóhann Gísla (893-9375).

 

Mynd: Steinunn Ásmundsdóttir