27 farsæl ár í Vaglaskógi

Starfsfólk Skógræktarinnar og Norðurlandsskóga kom saman í Vaglaskógi í gær, 31. mars, til að heiðra Sigurð Skúlason á síðasta vinnudegi hans sem skógarvarðar á Norðurlandi. Sigurður hefur starfað á Vöglum í 27 ár.

Þótt allt sé enn á kafi í snjó í Vaglaskógi var vorstemmning í skóginum, hlýtt og sólríkt veður og músarrindillinn söng hástöfum í trjánum við gróðrarstöðina. Í starfsmannahúsinu Furuvöllum var boðið til hádegisverðar og þar þakkaði Jón Loftsson skógræktarstjóri Sigurði vel unnin störf. Sagði hann meðal annars að ekki væri hægt að hugsa sér að nokkur maður hefði gegnt starfi skógarvarðar á Norðurlandi betur en Sigurður. Þröstur Eysteinsson, sviðstjóri þjóðskóganna tók undir þetta í ávarpi og færði þeim hjónunum, Sigurði og Margréti Guðmundsdóttur, forláta kóreulífvið, Thuja koraiensis, sem hann hafði ræktað af fræi af tré á Hallormsstað. Kóreulífviður er hægvaxta og verður tíu metra hátt tré eftir á að giska 500 ár og 12 metrar eftir 1.000 ár. Þar er því sáð til framtíðar eins og Sigurður Skúlason hefur gert með störfum sínum á Vöglum og Margrét sömuleiðis. Hún er hins vegar ekki hætt störfum fyrir Skógræktina en heldur áfram að vinna gjaldkera- og skrifstofustörf í Kópavogi þar sem þau hjónin búa nú.

Annar lítill kóreulífviður var afhentur hjónunum Rúnari Ísleifssyni og Valgerði Jónsdóttur sem nú flytja í skógarvarðarbústaðinn á Vöglum. Rúnar tekur í dag, 1. apríl, við skógarvarðarstarfinu á Norðurlandi en Valgerður er framkvæmdastjóri Norðurlandsskóga. Hún hefur reyndar líka tekið við rótgrónu embætti í Vaglaskógi, að sjá um fræbanka Skógræktar ríkisins og uppfæra frælistann.

Skógrækt ríkisins þakkar Sigurði Skúlasyni vel unnin störf sem skógarverði og býður Rúnar Ísleifsson velkominn í embættið.



Valgerður Gunnarsdóttir skoðar óværu á lerki í fræhúsinu á Vöglum.


Jón Loftsson skógræktarstjóri ávarpar fráfarandi skógarvörð.
Í forgrunni Guðrún Jónsdóttir og Guðni Þorsteinn Arnþórsson.


Frá hádegissamkomunni í Furuvöllum í Vaglaskógi.


Sigurður Skúlason þakkar fyrir sig. Rúnar Ísleifsson
og Jón Loftsson hlusta.


Nýr skógarvörður, Rúnar Ísleifsson, skoðar óværu á lerki
ásamt Guðrúnu Jónsdóttur, starfsmanni á Vöglum.