Merkur áfangi í skógræktarsögu okkar náðist í fyrri viku þegar fyrst reyndi á 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og lið 1 d í 2. viðauka laganna. Landeigendur að Tungufelli í Lundareykjadal, hjónin Sigurbjörg Snorradóttir og Njörður Geirdal, ásamt dætrum og tengdasonum, vildu hefja skógrækt á tæplega 400 hekturum lands. Ákvörðun Skipulagsstofnunar var sú að framkvæmdin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Með öðrum orðum: ef landeigandi kýs að rækta skóg á stærra samfelldu landssvæði en sem nemur 200 hekturum, þarf slíkt ekki að þýða óyfirstíganlegan kostnaðarauka!

Fornleifavernd ríkisins og Fornleifastofnun túlkuðu ákvæði 10. gr. þjóðminjalaga (?Fornleifum má enginn,hvorki landeigandi, ábúandi né nokkur annar, spilla, granda né breyta, ekki heldur hylja þær, laga né aflaga né úr stað flytja nema með leyfi Fornleifaverndar ríkisins?) nokkuð vítt hvað skógrækt snerti og var helsta fyrirstaðan gegn undanþágu á mati á umhverfisáhrifum. Á kröfu þeirra féllst Skipulagsstofnun ekki.

Svarbréf Skipulagsstofnunar birtist hér með leyfi landeigenda á Tungufelli. 

Kveðja, Aðalsteinn

 

Meðfylgjandi er ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu ofangreindar
framkvæmdar.  Niðurstaða:  Framkvæmdin skal ekki háð mati á umhverfisáhrifum.


 Sigurður Ásbjörnsson
 Skipulagsstofnun

                                                              2003020003
  Álfarás hf                                                  3510; 9310
  Njörður Geirdal
  Ásholti 2
  105 Reykjavík

Reykjavík, 27. maí 2003


Efni: Skógrækt á tæplega 400 ha svæði í landi Tungufells, Borgarfjarðarsveit.  Ákvörðun um matsskyldu.

Vísað er til erindis Álftaráss dags. 27. janúar 2003 þar sem Skipulagsstofnun er tilkynnt um fyrirhugaða skógrækt á 400 ha svæði í landi Tungufells í Borgarfjarðarsveit samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og lið 1 d í 2. viðauka laganna.

Skipulagsstofnun leitaði álits Borgarfjarðarsveitar, Fornleifaverndar ríkisins, Skógræktar ríkisins og Umhverfisstofnunar.

Umsagnir bárust frá Borgarfjarðarsveit með bréfi dags. 14. mars 2003, Fornleifavernd ríkisins með bréfum dags. 4. mars og 16. apríl 2003, Skógrækt ríkisins með bréfi dags. 24. febrúar 2003 og Umhverfisstofnun með bréfi mótt. 14. mars 2003.

Frekari upplýsingar og svör bárust frá framkvæmdaraðila með bréfum dags. 10. og 17. mars, 21. maí og tölvupósti dags. 10. apríl 2003.

FRAMLÖGÐ GÖGN FRAMKVÆMDARAÐILA

Í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila kemur fram að svæðið sem fyrirhugað sé að taka til skógræktar sé tæpir 400 ha.  Annars vegar sé um að ræða hlíðar fellsins frá rótum þess og eins langt upp og ræktunarskilyrði leyfa, hins vegar landið niður af hlíðarfætinum, beggja vegna fellsins, en þar skiptast á votlendi, vallendi og melar.  Gert sé ráð fyrir að gróðursetja í vallendið og melana, en ekki í votlendi.  Fram kemur að fyrirhugaðar framkvæmdir felist í lagningu vegarslóða, jarðvinnslu, gróðursetningu skógarplantna af ýmsum tegundum og áburðargjöf við gróðursetningu.  Fram kemur að fyrirhugað sé að leggja vegarslóða með um 1 km millibili um landið svo unnt verði að fara um það á dráttarvél eða jeppa.  Framkvæmdirnar felist í því að slétta landið og bera ofan í það á stöku stað.  Þar sem gróðursvörður sé mikill sé áformað að rífa hann upp á blettum með sama millibili og áformað er að gróðursetja í.  Gert sé ráð fyrir því að svæðin grói upp á tveimur árum.  Fram kemur að skógarplönturnar verði einkum sitkagreni, alaskaösp, ilmbjörk og stafafura.  Fyrirhugað sé að bera á um 25-50 kg af tilbúnum áburði á ha við gróðursetningu.  Það magn samsvari 10% af áburðarskammti á tún. Ekki sé gert ráð fyrir áburðargjöf síðar nema í undantekningartilfellum.

Í gögnum framkvæmdaraðila kemur fram að land Tungufells hafi áður verið notað til sauðfjár- og hrossabeitar.  Fram kemur að hugsanlega þurfi að þurrka smá mýrarbletti vegna lagningar vegarslóða en í engu tilviki verði hróflað við óraskaðri mýri.  Á vissu aldursskeiði kunni skógarbotninn að verða tegundasnauður.  Gisnari eldri skógur muni með tímanum leysa af hólmi þéttari ungskóg.  Samfara þeirri þróun muni gróðursvörðurinn í skógarbotninum einnig þróast þannig að tegundum háplantna fjölgi og þekja þeirra aukist.  Kappkostað verði að laga skóginn að landinu t.d. með því að forðast að mynda reiti sem stingi í stúf við landslagið.  Reiknað er með að undanskilja áhugaverð vistkerfi frá skógrækt og að hafa opin svæði við tjarnir, árbakka og fornar mannvistarleifar.

ÁLIT UMSAGNARAÐILA OG SVÖR FRAMKVÆMDARAÐILA

Almennt
Í umsögnum Borgarfjarðarsveitar, Fornleifaverndar ríkisins, Skógræktar ríkisins og Umhverfisstofnunar kemur fram það álit að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Votlendi

Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að skoðun skógræktaráætlunarinnar sýni að af um 400 ha skógræktarsvæði flokkist um 76 ha sem mýrlendi. Samkvæmt 37. gr. laga um náttúruvernd njóti mýrar 3 ha og stærri sérstakrar verndar.  Af 18 svæðum á Tungufelli séu 8 svæði 3 ha eða stærri.  Lögð er áhersla á að þeim áformum um að í engu tilviki verði hróflað við óraskaðri mýri verði fylgt eftir og að trjám sé ekki plantað nærri mýrum.

 Í umsögn Skógræktar ríkisins kemur fram að í skógræktaráætluninni mæli Vesturlandsskógar ekki með framræslu mýra til skógræktar og í erindi framkvæmdaraðila komi fram að ekki standi til að taka mýrarnar til skógræktar.  Samkvæmt áætlunartöflum sé hins vegar gert ráð fyrir jarðvinnslu og gróðursetningu í mýrarreitum og það tekið fram að framræsla sé nauðsynleg ef rækta eigi þar skóg.  Skógrækt ríkisins mælist til þess að töflunum verði breytt þannig að skýrt komi fram að ekki standi til að ræsa mýrarnar fram og ekki rækta í þeim skóg.  Verði þær þá
 í samræmi við stefnu Vesturlandsskóga og yfirlýsingu framkvæmdaraðila.

Í svörum framkvæmdaraðila eru ekki gerðar athugasemdir við umsögn Umhverfisstofnunar en bent er á að þegar hafi verið gróðursett í fjóra mýrarreiti sem Skógrækt ríkisins tiltaki í umsögn sinni.  Það hafi verið gert án þess að ræsa fram svæðin.

Landslag og sjónræn áhrif
Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að skógræktaráætlunin gefi ekki tilefni til að ætla að skógrækt á svæðinu geti ekki fallið vel að landslagi, sbr. 36. gr. laga um náttúruvernd, sé þess gætt að láta útplöntun fylgja línum í landi.  Ekki sé að sjá að hún muni hafa áhrif á útsýni annarra sem búi í dalnum.

Í umsögn Skógræktar ríkisins kemur fram að vegna mýrarsunda og malarása verði fyrirhugaður skógur seint samfelldur.

Fornleifar
Í fyrri umsögn Fornleifaverndar ríkisins kemur fram að í svæðisskráningu Fornleifastofnunar Íslands hafi fundist heimildir um 20 fornleifar á jörðinni Tungufelli.  Sumar þeirra kunni að vera horfnar en einnig megi búast við að á jörðinni finnist fornleifar sem ekki fundust heimildir um.

Til að hægt sé að meta áhrif skógræktar á fornleifar í landi Tungufells sé nauðsynlegt að fornleifafræðingur framkvæmi vettvangsskráningu á því svæði sem ætlað sé til skógræktar.  Í gögnum framkvæmdaraðila komi fram að reiknað sé með að hafa opin svæði við fornar mannvistarleifar. Fornleifavernd ríkisins fagni þessum áformum en bendi á að til að slíkt sé hægt þurfi að liggja fyrir vitneskja um þær fornleifar sem séu á svæðinu.  Því sé gerð krafa um að fram fari vettvangsskráning fornleifa
á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði.

Í viðbótarupplýsingum framkvæmdaraðila um fornleifaskráningu í landi Tungufells, sem unnin var af Fornleifastofnun Íslands árið 2003, kemur fram að í Tungufelli séu 23 minjastaðir þekktir.  Ástand minja teljist fremur slæmt, sérstaklega í túni þar sem þær hafa flestar nær alveg vikið fyrir sléttun túna eða öðru umróti sem fylgt hafi búskap.  Undantekning frá þessu séu leifar garðlags í hlíðinni ofan við bæinn (017).  Sjá megi leifar þriggja mannvirkja, stekkjarleifa, refagildru og birgis (016, 020
 og 015) auk tveggja varða (008 og 011) og mógrafa (009) vestan við bæ. Greinilegustu fornleifarnar í Tungufelli séu refagildran og byrgið.  Á þessum stöðum ætti tvímælalaust að þyrma fornleifum og koma í veg fyrir hugsanlegar skemmdir af völdum skógræktar.  Æskilegt væri að merkja staðina og koma í veg fyrir að skógræktin gangi þeim of nærri.  Til að koma í veg fyrir að minjum verði spillt eða leggja þurfi út í mikinn kostnað við að bjarga fornleifum sem ógnað er væri skynsamlegt að afmarka hið gamla túnstæði og forðast skógrækt innan þess.

Í síðari umsögn Fornleifaverndar ríkisins er ekki talin þörf á að framkvæmdin fari í mat á umhverfisáhrifum en lögð áhersla á að tekið sé tillit til þeirra minja sem fundust við vettvangsathugun.  Tekið sé undir sjónarmið Fornleifastofnunar um að ekki eigi að planta trjám innan þess svæðis sem afmarkist af gamla túnstæðinu.  Varðandi aðrar minjar á jörðinni þá beri að halda trjárækt í minnst 20 metra fjarlægð frá eftirtöldum stöðum:  leifum garðlags (017), tóft af fjárskýli (015), tóft og garðlagi (016) og tveimur vörðum (008 og 011).  Ekki verði betur séð en refagildra (020) sé utan fyrirhugaðs skógræktarsvæðis.  Varðandi mógrafir (009) þá telji Fornleifavernd ríkisins fullnægjandi að búið sé að skrá þær og staðsetja og leggst því ekki gegn notkun þess svæðis til skógræktar.

Í svörum framkvæmdaraðila kemur fram að vörður og grjóthleðslur séu ekki í hættu vegna skógræktar, þar sem forðast sé að fara með jarðvinnslutæki yfir stórgrýti og tilgangslaust sé að planta ofan í vörður og grjóthleðslur.  Stekkjarbrotið (016)  hafi verið skemmt áður og sé metið í mjög lélegu ástandi.  Miklu betri eintök séu til annars staðar og skógrækt þarna skemmi stekkinn ekki meira en orðið er.  Auk þess hafi stekkurinn þegar verið skráður og honum lýst.  Varðandi hlaðna torfveggi, sem ekki tengist húsum (s.s. garða, gerði, stekki) og önnur fyrirbæri, s.s. götur, reiðleiðir, mógrafir, sé skógur líklegri til að stuðla að verndun þeirra fremur en tortýmingu, svo fremi að ekki sé ekið yfir þau með jarðvinnslutæki.  Í þessum tilvikum sé ekki um að ræða muni í jörðu niðri, sem rætur geti fært úr stað og því sé skógur hreinlega vörn gegn veðrun.  Búið sé að skrá þessa staði og því auðvelt að forðast skemmdir vegna jarðvinnslu.  Jarðvinnsla í tengslum við túnagerð (plæging) sé alltaf mun dýpri en vélflekking eða herfing vegna skógræktar og grófar rætur trjáa séu nær allar rétt undir yfirborðinu.  Skógrækt í heimatúninu sé því ekki líkleg til að raska fornleifum, sem þar kunni að leynast, umfram það sem þegar er orðið.  Tilmælum í fornleifaskýrslu um að sleppa skógrækt í heimatúninu sé því hafnað.


 NIÐURSTAÐA SKIPULAGSSTOFNUNAR

Um er að ræða skógrækt á tæplega 400 ha svæði í landi Tungufells í Borgarfjarðarsveit. Framkvæmdin er tilkynningarskyld til ákvörðunar um matsskyldu samkvæmt 6. gr. og lið 1 d í 2. viðauka í lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Skipulagsstofnun telur að fyrirhuguð skógrækt  í landi Tungufells, sem áður var nýtt sem tún og beitiland muni breyta ásýnd svæðisins þegar skógurinn vex upp og samhliða verði einnig breytingar á lífríki svæðisins.  Skipulagsstofnun tekur undir umsagnir Skógræktar ríkisins og Umhverfisstofnunar um að hlífa beri óröskuðum mýrum við framræslu og gróðursetningu skógarplantna.  Skipulagsstofnun telur að slík tilhögun framkvæmda sé í samræmi við stefnu Vesturlandsskóga og framlögð gögn framkvæmdaraðila og sé til þess fallin að áhrif á votlendi verði óveruleg.  Í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila kemur fram að reiknað sé með að hafa opin svæði við fornar mannvistarleifar.  Í umsögn Fornleifaverndar ríkisins er lögð áhersla á að tekið sé tillit til minja og ekki eigi að planta trjám innan gamla túnstæðisins.  Skipulagsstofnun bendir á að skv. 10. gr. þjóðminjalaga nr. 107/2001 er óheimilt að
spilla fornleifunum.

Í samræmi við 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 hefur Skipulagsstofnun farið yfir þau gögn sem lögð voru fram af hálfu framkvæmdaraðila við tilkynningu, umsagnir og svör framkvæmdaraðila við þeim.  Á grundvelli þessara gagna er það niðurstaða Skipulagsstofnunar að skógrækt á tæplega 400 ha svæði í landi Tungufells í Borgarfjarðarsveit sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Framkvæmdasvæðið er skilgreint sem landbúnaðarsvæði og frístundabyggðarsvæði í Svæðisskipulagi sveitarfélaganna norðan Skarðsheiðar 1997-2017, sem staðfest var 19. febrúar 1998. Nytjaskógrækt er heimil á landbúnaðarsvæðum en er í ósamræmi við skilgreiningu frístundabyggðarsvæða og því þarf annað hvort að breyta svæðisskipulaginu m.t.t. frístundabyggðarsvæðisins eða breyta afmörkun fyrirhugaðs skógræktarsvæðis.

Framkvæmdirnar eru framkvæmdaleyfisskyldar skv. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Samkvæmt 6. gr. laga nr. 106/2000 má kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar til umhverfisráðherra. Kærufrestur er til 27. júní 2003.


 Hólmfríður Sigurðardóttir                         Sigurður Ásbjörnsson

 Afrit.
 Umhverfisráðuneytið, Borgarfjarðarsveit, Fornleifavernd ríkisins,
 Skógrækt ríkisins og Umhverfisstofnun