Ræktaður íslenskur skógur með gjöfulum trjátegundum bindur árlega að meðaltali um tíu tonn af koltvísýringi á hverjum hektara. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Uppfærð frétt frá 21.9.2020
Lögaðilar geta fengið skattstofn sinn lækkaðan um tæpt prósent vegna kostnaðar við skógrækt og fleiri aðgerðir sem leiða til kolefnisbindingar. Markmið laga um þessi efni er að auka þátttöku fyrirtækja í öllum atvinnugreinum í baráttunni gegn hlýnun loftslags.
Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins sem varð að lögum í vor var Ari Trausti Guðmundsson, náttúrufræðingur og þingmaður. Í frumvarpinu fólst breyting á lögum um tekjuskatt sem kveður á um frádrátt vegna framlaga til aðgerða sem gagnast kolefnisjöfnun. Þessi lækkun á skattstofni getur að hámarki numið 0,85% af veltu viðkomandi lögaðila á því ári sem framlögin eru innt af hendi. Í lagatextanum segir að þetta eigi við aðgerðir í rekstri til kolefnisjöfnunar sem og fjárframlög til skógræktar, uppgræðslustarfa og endurheimtar votlendis. Til framlaga teljast – auk fjárframlaga til sjóða, stofnana, sjálfseignarstofnana og samtaka sem vinna að kolefnisjöfnun – verklegar framkvæmdir sem fyrirtæki taka að sér í samvinnu við sjóði, stofnanir, sjálfseignarstofnanir og samtök og taka ekki greiðslu fyrir. Til framlaga telst einnig framkvæmdakostnaður, svo sem fæði og ferðir, þegar um er að ræða sjálfboðaliðastörf starfsmanna fyrirtækis til kolefnisjöfnunar.
Ráðherra skal setja reglugerð um framkvæmd ákvæðisins og taka lögin gildi 1. janúar 2021 en koma þó til framkvæmda fyrir tekjuárið 2020. Með öðrum orðum geta lögaðilar tekið framlög til bindingarverkefna inn í uppgjör sitt fyrir árið sem er að líða og fengið þar með frádrátt frá skatti.
Þátttaka fyrirtækja skiptir miklu máli
Íslensk stjórnvöld hafa gengist undir markmið Parísarsamkomulagsins um loftslagsmál og jafnframt sett íslensku samfélagi það markmið að verða kolefnishlutlaust árið 2040. Til að ná þessum markmiðum þarf virka samvinnu ríkis, sveitarfélaga, atvinnulífs og almennings. Meðal aðgerða í samþykktri aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnarer aukin binding kolefnis. Þar er einna fyrirferðarmest aukin skógrækt og uppgræðsla auðna og illa farins gróðurlendis. Stöðva má losun kolefnis frá framræstu landi með því að bleyta það á ný og einnig er horft til niðurdælingar kolefnis frá iðjuverum og beint úr andrúmsloftinu.
Þátttaka fyrirtækja í öllum atvinnugreinum í baráttunni gegn hlýnun loftslags á heimsvísu er afar mikilvæg, segir í lagatextanum. Bæði þurfi þau að huga að sjálfum rekstrinum en einnig framlögum til skógræktar, eflingar landgæða og votlendis. Kolefnisbinding í samvinnu við Kolvið er tekin sem dæmi um mögulega leið, einnig styrkir eða framlög til stofnana og félaga á borð við Skógræktina, skógræktarfélög, Landgræðsluna og Votlendissjóð. Auk beinna framlaga geta fyrirtæki lagt fram tæki og vinnu til kolefnisverkefna og fengið framlag sitt metið til fjár, þ.e. kostnað við rekstur og notkun tækja og kostnað vegna ferða og fæðis starfsmanna.
Upphæðir sem skipta máli
Tekjuskattur á fyrirtæki er 20%. Sem fyrr segir er nú lögaðilum heimilt að reikna bein framlög til kolefnisbindingar eða kolefnisjöfnunar sem frádráttarbæran rekstrarkostnað atvinnurekstrar, þannig að tekjuskattstofn lækki um allt að 0,85% af veltu. Til samanburðar má nefna að heimild til lækkunar tekjuskattstofns er allt að 0,85% af veltu þegar t.d. um góðgerðarstarfsemi er að ræða. Tökum Tvö tilbúin dæmi:
- Fyrirtæki X
- Fyrirtæki X hefur ákveðið að stefna að kolefnishlutleysi
- Velta fyrirtækis X er 1.000 milljónir
- 0,85% af 1.000 milljónum eru 8,5 milljónir
- Tekjuskattstofn fyrirtækisins lækkar um 0,85% með því að sýna fram á framlög til skógræktar
- 20% skattur af þessum 8,5 milljónum hefði numið 1,7 milljónum króna
- Þannig getur fyrirtækið lækkað kostnað við að ná kolefnishlutleysi
- Fyrirtæki Y
- Fyrirtæki Y leggur 60 milljónir á árinu til skógræktar
- Upphæðin er innan lágmarksins, 0,85% af veltu
- Þessar 60 milljónir dragast frá tekjuskattstofni fyrirtækisins
- Ella hefði 20% skattur af þessum 60 milljónum numið 12 milljónum króna
Staðfesting mikilvæg
Skilyrði fyrir að heimilt sé að nýta kostnað til frádráttar er að framlög nýtist til aðgerða sem gagnast við kolefnisjöfnun og að framlögin beinist til lögaðila sem eru til þess bærir að taka við slíku framlagi. Í reglugerð sem ráðherra er gert að setja skulu vera ákvæði um hvað teljist til aðgerða sem gagnist kolefnisjöfnun, hvernig skuli leggja fram staðfestar upplýsingar um slík framlög, árangur verkefnanna og svo framvegis. Þá verður á hendi hvers fyrirtækis að tengja framlögin grænu bókhaldi, nýsköpun og þróun, allt eftir eigin loftslags- og umhverfismarkmiðum.
Skógræktin fagnar þessum möguleika í skattalögum sem vonandi hvetur fleiri fyrirtæki til að ráðast í skógræktarverkefni til kolefnisbindingar. Framtíðarmarkmið hlýtur að vera að öll slík verkefni hljóti alþjóðlega vottun svo að tryggt sé að þau beri þann árangur sem til er ætlast.