Mynd: Hlynur Gauti Sigurðsson
Það kann að vera að bera í bakkafullan lækinn að fjalla um möguleika aukinnar skógræktar sem lið í að takast á við loftslagsbreytingar, en það er reyndar talsverð þróun í þeim efnum um heim allan sem og hér á landi, sem vert er að segja frá. Svo veitir e.t.v. ekki af að rifja eitt og annað upp af og til.
Þetta skrifar Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri í fyrstu greininni í greinaröð sem Landssamtök skógareigenda standa fyrir í samvinnu við Skógræktina. Þröstur heldur áfram:
Meðal þess sem nokkuð hefur borið á eru skoðanaskipti um ágæti mismunandi aðferða við að binda kolefni. Þar höldum við skógræktarmenn skógrækt að sjálfsögðu fram sem góðum kosti. Aðrir halda fram landgræðsluaðgerðum án trjáa eða endurheimt votlendis, enn aðrir niðurdælingu CO2 í djúpar borholur eða jafnvel að dreifa áburði yfir hafið. Fólk er þó almennt sammála um að binding á CO2 úr andrúmsloftinu sé nauðsynlegur liður í bæði viðbrögðum við og aðlögun að loftslagsbreytingum ekki síður en að draga úr losun, breyta neysluvenjum og aðlaga landbúnað að nýjum skilyrðum. Án bindingar mun kolefnishlutleysi ekki nást fyrir árið 2050, hvað þá 2040.
Stundum eru menn kappsamir í að verja sinn málstað. Það er af hinu góða því það sýnir að mönnum er alvara, enda skiptir mjög miklu máli að ná árangri í að stemma stigu við hraðfara loftslagsbreytingum. Margir halda því fram að loftslagsbreytingar séu brýnustu úrlausnaratriði sem mannkynið hefur nokkru sinni staðið frammi fyrir.
Mismunandi aðferðir við að binda CO2 úr andrúmsloftinu eða draga úr losun eru byggðar á mismunandi forsendum og erfitt getur verið að bera þær saman. Engu að síður ber okkur að meta árangur og skilvirkni hverrar þeirra svo hægt sé að taka skynsamar ákvarðanir og móta áherslur. Til þess þarf að stunda rannsóknir, safna mýgrút af mæligögnum og vinna úr þeim. Þar eru mismunandi aðgerðaflokkar komnir mislangt. Því byggist samanburður oft á ónógum upplýsingum og jafnvel misskilningi.
Ef t.d. er verið að bera saman skógrækt og endurheimt votlendis er annars vegar um bindingu CO2 úr andrúmsloftinu að ræða og hins vegar um að ræða samdrátt í losun. Það eitt og sér er illa samanburðarhæft þó mæla megi hvort tveggja í tonnum CO2 á hektara. Í því felst líka ákveðinn misskilningur að miða helst við þann samanburð, því í raun er oftast allt annað en mögulegur loftslagsávinningur sem ræður því hvort skynsamlegra sé að velja skógrækt eða endurheimt votlendis sem loftslagsaðgerð á tilteknum stað. Skógrækt krefst þess að einhver sé á staðnum til að gróðursetja, girða og halda girðingum við. Hún hentar því ágætlega í og nálægt byggð en verr á svæðum þar sem aðgengi er erfitt eða ómögulegt er að friða land fyrir beit. Endurheimt votlendis hentar að sama skapi illa á svæðum þar sem ræktun, beitarnytjar eða annað á nærliggjandi landi gæti skaðast við hækkaða vatnsstöðu eða þar sem framræst land er orðið skógi eða kjarri vaxið og því líklegt til að binda nú þegar meira en það losar. Hún hentar hins vegar ágætlega á eyðijörðum eða þar sem önnur landnotkun skaðast ekki þótt land blotni.
Í metingnum um hver sé besta loftslagsaðgerðin er margt sagt sem ekki stenst nánari skoðun eða er byggt á hæpnum forsendum. Er sú samfélagsumræða dæmi um hvernig loftslagsmálin hafa verið leidd út um holt og móa, stundum af ásettu ráði af aðilum sem hugsa helst um skammtímahagsmuni, skilja ekki ógnina eða vilja bara engar breytingar. Á meðan fólk er að rífast um hlutina verður engin samstaða um lausnir. En hvaða hagsmunir geta verið mikilvægari en framtíð barna okkar og barnabarna? Við verðum að koma okkur að verki og hætta að afvegaleiða umræðuna með bölvuðu kjaftæði.
Þessi grein birtist í Bændablaðinu 24. september. Í næstu tölublöðum Bændablaðsins verður röð greina um skógrækt og loftslagsmálin að frumkvæði Landssamtaka skógareigenda í samvinnu við Skógræktina. Við vonum að þær verði bæði fræðandi og gagnlegar.