Morgunblaðið, 16. febrúar 2004

Hvað er landbúnaður?

Í dag velkist sjálfsagt enginn í vafa um að nútíma landbúnaður snýst ekki eingöngu um framleiðslu matvæla og umhirðu húsdýra. - hann snýst líka um umhirðu landsins - um það að skila landinu í betra ásigkomulagi áfram til næstu kynslóða. Hann snýst líka um það að hlúa að því fólki sem býr í landinu og skapa því góð skilyrði bæði við störf og leik. Þannig er skógrækt eitt af verkefnum landbúnaðarins. Í stefnuskrá núverandi ríkisstjórnar er þessi tegund landbúnaðar viðurkennd - og sýnd í verki með umtalsverðum framlögum sem varið er til landshlutabundinna skógræktarverkefna, eða árlega um hálfur milljarður króna.

Í ljósi þessara staðreynda liggur því beinast við að efla enn frekar nám á háskólastigi sem stuðning við þessar áherslur innan íslensks landbúnaðar, og með yfirlýstum vilja skólayfirvalda Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri mun því nám á BSc stigi (180 Ects) í skógrækt hefjast á komandi hausti.

Undirstaða náms í skógrækt þ.e.a.s. grunnnámið er sameiginlegt með öðru námi við Landbúnaðarháskólann og því liggur beinast við að nýta þann grunn sem þegar er til staðar. Kostnaði vegna sérstakrar skógræktarbrautar er því haldið í algjöru lágmarki og hlýtur það að vera fagnaðarefni þeim sem sitja á ríkiskassanum.

Áratuga starf að landgræðslu og skógrækt hér á landi hefur skilað mikilli þekkingu og reynslu sem nauðsynlegt er að nýta og koma til skila til yngri kynslóðarinnar í formi fræðslu og möguleika á rannsóknatengdu námi og við uppbyggingu á skógræktarnáminu hefur því verið góð samvinna milli skólans og Skógræktar ríkisins, ekki síst starfsmanna á Mógilsá, sem með þekkingu sinni og reynslu munu styrkja kennslu á þessu sviði.

Frá því að lögin um háskólanám á Hvanneyri voru sett árið 1999 hefur skólinn verið í stöðugri sókn. Markvisst hefur verið unnið að uppbyggingu námsframboðs við skólann með þá framtíðarsýn í huga að við stöndum frammi fyrir stórfelldum samfélagslegum breytingum hvað varðar landnýtingu og búskaparhætti - sennilega stærstu breytingum í marga áratugi. Í þeim anda var á sínum tíma gerður árangursstjórnunarsamningur milli skólans og núverandi landbúnaðarráðherra Guðna Ágústssonar. Samkvæmt þeim samningi hefur verið unnið jafnt og þétt af hálfu skólans við að auka og styrkja háskólanámið. Hluti af þeirri vinnu er meðal annars sá, að vinna að nýjum námsframboðum sem þegar hefur verið framkvæmt svo sem með stofnun Umhverfisskipulagsbrautar og núna með nýrri skógræktarbraut.

Það er markmið skólans að styrkja enn frekar háskólanám í landbúnaði og landnýtingu til framtíðar þannig að það verði sambærilegt og jafnvel fremra því námi sem í boði er í nágrannalöndum okkar, þannig að við hér getum miðlað af reynslu okkar og þekkingu til alþjóðasamfélagsins. Þetta er sú nýja framtíðarsýn í námi og rannsóknum sem Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri stefnir að - og þar liggja jafnframt sóknarfæri landbúnaðarins.

Auður Sveinsdóttir skrifar um skógræktarnám

Höfundur er dósent og sviðsstjóri náttúrunýtingarsviðs við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri.