Fjölbreytt efni í 2. tölublaði ársins 2015
Annað tölublað ársins af Skógræktarritinu, riti Skógræktarfélags Íslands, er nýkomið út. Skógræktarritið hefur komið út frá stofnun Skógræktarfélags Íslands 1930 en hét lengi vel Ársrit Skógræktarfélags Íslands og kom út einu sinni á ári. Árið 1991 var heiti þess breytt í Skógræktarritið og frá árinu 1999 hefur það komið út tvisvar á ári, vor og haust.
Í öðru tölublaði 2015 er að finna fróðlegar greinar um skógrækt frá ýmsum hliðum. Fremst í ritinu er grein um tré ársins, fallegan reynivið í Sandfelli í Öræfum, og með fylgir mynd af trénu í haustlitum og snjóföl á jörðu. Því næst er ítarleg grein um lystigarð Borgnesinga, Skallagrímsgarð, sem Bragi Bergsson ritar og segir sögu garðsins og hlutverk hans í menningar- og mannlífi staðarins. Greinin er unnin upp úr meistararannsókn Braga á sögu íslenskra almenningsgarða. Garðurinn er jafngamall íslensku skógræktarhreyfingunni því Kvenfélag Borgarness, Ungmennafélagið Skallagrímur og hreppsnefnd Borgarnesshrepps stóðu saman að uppbyggingu hans árið 1930.
Þröstur Eysteinsson skrifar hugleiðingar um mótun vistkerfa í Skógræktarritið. Hugleiðinguna skrifar hann út frá 150 risalífviðartrjám sem hann hefur gróðursett í Höfða á Héraði, trjám sem gætu orðið svo há eftir þúsund ár að toppar þeirra sjáist ekki með góðu móti og svo sver að fimm manneskjur þurfi til að faðma hvert þeirra. Með þessu vísar hann til þess að náttúran er síbreytileg og eðli vistkerfa sé að breytast með tíma. Hann reifar hugtökin líffjölbreytni og framleiðslu vistkerfa og telur að það síðarnefnda sé mun betri mælikvarði á gæði vistkerfanna. Þröstur fer yfir hnignun gróðurkerfa á Íslandi frá landnámi og ræðir um þau hrundu vistkerfi sem nú blasa við en veltir síðan fyrir sér umræðunni um vistheimt eða endurheimt vistkerfa, umræðu sem ofurseld sé erfiðum vandamálum. Réttara sé að horfa fram á veginn en aftur.
Brynjólfur Jónsson og Ragnhildur Freysteinsdóttir skrifa mjög forvitnilega grein um ferð Skógræktarfélags Íslands til Póllands í september þar sem meðal annars var farið í Tatra-þjóðgarðinn en líka í Białowieża-þjóðgarðinn þar sem skógur hefur verið verndaður um aldir. Þar hefur varðveist fjölbreytt skógarvistkerfi með gamalgrónum náttúruskógi. Sömuleiðis var heimsótt rannsóknarstofnun skógræktar í Varsjá og í greininni eru fróðlegar upplýsingar um skóga Póllands og skógrækt þar í landi.
Svo hlaupið sé hratt yfir annað efni í Skógræktarritinu skal nefnd grein Bjarna Diðriks Sigurðssonar um náttúruskóga í Síle þar sem apahrellirinn merki kemur við sögu. Else Møller og Ragnhildur Freysteinsdóttir skrifa um flokkun jólatrjáa, Trausti Valsson um áhrif loftslagsbreytinga á byggðarmynstur og skipulag, Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir um sveppi í viðarkurli skógarstíga og tjábeða og svo er farið ítarlega yfir aðalfund Skógræktarfélags Íslands 2015 sem haldinn var á Akureyri. Ekki má gleyma fróðlegu viðtali Einars Arnar Jónssonar við Óskar Þór Sigurðsson, frumherja skógræktar á Snæfoksstöðum í Grímsnesi. Óskar segir frá skógræktarstarfi sínu í sextíu ár og miklum árangri sem hann hefur náð, ekki síst við að virkja börn og unglinga til skógræktarstarfs og vekja hjá þeim áhuga.
Loks er í Skógræktarritinu minnst þriggja fallinna forystumanna í skógrækt á Íslandi, Sigurðar Blöndals, fyrrverandi skógræktarstjóra, Skúla Alexanderssonar sem tók þátt í að stofna Skógræktar- og landverndarfélagið undir Jökli og Óla Vals Hanssonar sem meðal annars var lengi ráðgjafi Búnaðarfélags Íslands.
Skógræktarritið kemur út tvisvar á ári sem fyrr segir og er selt í áskrift og í lausasölu. Hægt er að gerast á áskrifandi með því að hafa samband við Skógræktarfélag Íslands í síma 551-8150 eða senda póst á netfangið skog@skog.is.
Að vanda er að finna í ritinu fjölda áhugaverðra greina um hinar ólíku hliðar skógræktar. Fjallað er um Tré ársins 2015, sögu Skallagrímsgarðs í Borgarnesi, náttúruskóga í Síle í S-Ameríku, flokkun jólatrjáa, áhrif loftslagsbreytinga á byggðarmynstur og skipulag, nokkrar tegundir sveppa í viðarkurli, hugleiðingum um mótun vistkerfa, sagt er frá skógræktarferð til Póllands og aðalfundi Skógræktarfélags Íslands. Viðtal er við Óskar Þór Sigurðsson, fyrrverandi formann Skógræktarfélags Árnesinga og heiðursfélaga Skógræktarfélags Íslands. Einnig er minnst Sigurðar Blöndal skógræktarstjóra, Skúla Alexanderssonar og Óla Vals Hanssonar.
Frækornið, fræðslurit Skógræktarfélags Íslands, fylgir með til áskrifenda og fjallar það að þessu sinni um skógarfugla.
Kápu ritsins prýðir verkið ,,Skógar ljóss og skugga" eftir Ágúst Bjarnason.
Skógræktarritið (áður Ársrit Skógræktarfélags Íslands) er eina tímaritið um skógrækt á Íslandi og aðalvettvangur skrifa íslenskra skógfræðinga og annarra sem áhuga hafa á hinum ýmsu hliðum skógræktar. Efni ritsins er því mjög fjölbreytt og víðtækt og má þar nefna umfjöllun um tiltekna skóga, staði eða trjátegundir, hinar ýmsu hliðar ræktunar og ræktunarskilyrða, skipulag skógræktar, rannsóknir, ferðasögur, viðtöl, minningagreinar og margt fleira.
Skógræktarritið kemur út tvisvar á ári og er selt í áskrift og í lausasölu. Hægt er að gerast á áskrifandi með því að hafa samband við Skógræktarfélag Íslands í síma 551 8150 eða með því að senda póst á netfangið skog@skog.is.