Skógræktarritið, félags- og fræðslurit Skógræktarfélags Íslands, seinna hefti ársins 2003, er komið út.


Í reynd er Skógræktarritið fagrit allra þeirra sem stunda skóg- og trjárækt í minni eða stærri stíl og vilja fylgjast með því sem er efst á baugi hverju sinni.  Ritið á sér langa og farsæla sögu sem spannar ríflega 70 ár.  Framan af hét það Ársrit Skógræktarfélags Íslands en árið 1991 var heiti þess breytt í Skógræktarritið.


Árið 1999 breyttist ritið úr því að vera hefðbundið ársrit og kemur það nú út tvisvar á ári.  Er það í takt við mikla grósku í skógrækt á Íslandi á öllum sviðum.  Áður fyrri var ritið sent öllum félagsmönnum og innheimt ásamt árgjaldi en þeirri tilhögun var breytt fyrir nokkrum árum og tekið upp áskriftarkerfi, óháð félagsaðild.


Seinna hefti Skógræktarritsins árið 2003 er stórglæsilegt, prýtt fjölda fallegra litmynda og á kápu er mynd af málverkinu "Stillur" eftir Svanborgu Matthíasdóttur. Myndin er einnig á ný útkomnu jólakorti sem Skógræktarfélag Íslands gefur út.  Fjölmargar greinar eru í ritinu og verður efnisleg umfjöllun birt á heimasíðu skógræktarfélags íslands í vikunni.


Skógræktarritið er sem fyrr segir selt í áskrift en einnig í lausasölu á skrifstofu S.Í. að Ránargötu 18. Áskriftar- og heimsendingasími S.Í. er 551 8150, netfang skog@skog.is.