Jón Loftsson í tímavélinni, íslenskum skógi sem vaxið hefur hraðar en margir hefðu getað ímyndað sér. Mynd: Rúnar Snær Reynisson.
Snerust á sveif með skógrækt eftir ferðalagið
Jón Loftsson, fyrrverandi skógræktarstóri, segir mikla viðhorfsbreytingu hafa átt sér stað í garð skógræktar undanfarinn aldarfjórðung, ekki síst hjá bændum sem hafi uppgötvað möguleika á að nýta léleg beitilönd til að rækta skóg. Viðhorfin hafi gjörbreyst, ekki síst fyrir tilstilli tímavélar sem hann hafi fundið upp árið 1980. Bændur, fullir efasemda, hafi margir ferðast með honum í vélinni og snúist á sveif með skógrækt.
Jón lét af störfum um nýliðin áramót. Rúnar Snær Reynisson, fréttamaður Ríkisútvarpsins á Austurlandi, ræddi við hqnn af því tilefni á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.
Tímavélin hans Jóns kemur einnig við sögu á samnefndri ráðstefnu sem haldin verður á Hótel Valskjálf á Egilsstöðum 20. janúar. Þar verður farið yfir skógrækt á Íslandi undanfarin 70 ár og litið jafnlangt fram í tímann eftir því sem gerast mun í skógum landsins og gæti gerst ef vel verður haldið á spöðunum.
Skógræktarstjóri setti bændur í „tímavél“ - hlusta á viðtalið
Um viðtalið segir enn fremur á vef Ríkisútvarpsins:
„Menn voru afskaplega landsárir. Þetta var þeirra beitiland og var í mörgum tilfellum mjög rýrt beitiland. En þeir þurftu á því að halda, töldu þeir, og þeir gátu ekki hugsað sér að missa það vegna þess að þeir myndu gróðursetja skóg og þar með gætu þeir ekki beitt það í marga áratugi á eftir,“ segir Jón.
Hann tók við embætti skógæktarstjóra árið 1990 en hafði alla tíð fyrir það starfað við skógarækt. Á hans tíma í embætti urði til nytjaskógaverkefni bænda um allt land en hann lét af störfum um áramót sökum aldurs.
Á tíu ára afmæli Fljótsdalsáætlunarinnar árið 1980, áður en hann varð skógræktarstjóri, stóð hann fyrir ákveðnu uppátæki sem hann telur að hafi haft mikil áhrif. „Þá bjó ég til svokallaða tímavél. Við byrjuðum í gróðrarstöðinni og horfðum á eins eða tveggja ára plöntu sem var að fara úr stöðinni. Síðan fórum við út í skóg og horfðum á menn sem voru að gróðursetja þessa litlu plöntu. Síðan héldum við áfram og fórum á stað þar sem var 10 ára gróðursetning. Svona héldum við áfram og þá var elsti lundurinn Guttormslundur. Hann er gróðursettur 1938 og árið 1980 hefur hann verið rúmlega 40 ára gamall. Við komumst ekki lengra í tímavélinni þá. Þá vorum við að horfa þar á menn sem voru að grisja skóginn með mótorsögum og það var verið að spila þetta út. Þetta hafði heilmikil áhrif á menn og þeir gerðu sér grein fyrir að þetta væri ekki lengri tími en þetta,“ segir Jón hann telur að bændur sem sáu hvað skógræktin gekk vel hafi breitt út boðskapinn.
„Menn höfðu ímyndað sér að þetta myndi taka hundruð ára og þeir myndu aldrei hafa nein not eða nytjar af þessu. En það held ég að hafi breyst mikið þarna. Síðan notaði ég þessa tímavél oft. Bændur af Vesturlandi og Norðurlandi komu hingað austur og skoðuðu eitthvað athyglisvert og þá voru þessir menn oft settir um borð í tímavélina. Þeir komu svo heim í sín héruð og urðu þá talsmenn þess að það þyrfti náttúrlega að koma svona Fljótsdalsáætlun á Norðurlandi, á Vesturlandi á Suðurlandi. Þetta var viðhorfsbreytingin,“ segir Jón Loftsson, fyrrverandi skógræktarstjóri.