Frétt á heimasíðu Skógræktar ríkisins skogur.is

Svo virðist sem aukinn áhugi sé á framkvæmd skógræktar á Íslandi og starfsemi Skógræktar ríkisins á meðal þeirra sem standa fyrir mótun skógræktar á hinum Norðurlöndunum. Á skömmum tíma hefur tvisvar sinnum verið leitað til Jóns Loftssonar skógræktarstjóra og hann beðinn að flytja erindi á norrænum ráðstefnum.

Næstkomandi fimmtudag flytur Jón erindi á ráðstefnu um skógrækt á Norðurlöndunum, sem haldin verður í Svíþjóð 27. og 28. nóvember. Ráðstefnan fjallar um skógrækt með tilliti til umhverfismála, rætt verður m.a. um útivistargildi skógarins og verndun náttúrulegra skóga.

Þar flytja erindi m.a. sænski umhverfismálaráðherrann, fulltrúar frá sænskum og finnskum náttúruverndarsamtökum og fulltrúi World Wildlife Fund í Lettlandi. Erindi Jóns Loftssonar á ráðstefnunni fjallar um skógrækt á Íslandi í sögulegu samhengi, framkvæmd skógræktar í dag, hvernig skógrækt er stunduð, hversu miklu er plantað o.fl.

Jón flutti svipað erindi á ráðstefnu um framtíð landbúnaðar á Norðurlöndunum, sem haldin var í Stokkhólmi 3.-4. nóvember s.l. Þar var skógrækt rædd sem einn möguleikinn í framtíð landbúnaðar, en skógræktarverkefni þau sem ráðist hefur verið í hér á landi í samvinnu við bændur, hafa vakið athygli erlendis.