Tímamót urðu í íslensku grunnskólastarfi þegar allir þátttakendur í skólaþróunarverkefninu Lesið í skóginn - með skólum (LÍS) skrifuðu undir heildarsamkomulag um formlega þátttöku í verkefninu. Athöfnin fór fram í Laugarnesskóla s.l. föstudag í kjölfar samráðsfundar allra sem að verkefninu koma.

Þeir sem undirrituðu samkomulagið voru: Jón Loftsson, skógræktarstjóri, Ólafur Proppé, rektor Kennaraháskóla Íslands, Eiríkur Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, Tryggvi Jakobsson f.h. forstjóra Námsgagnastofnunar, Stefán Guðmundsson, stjórnarformaður Norðurlandsskóga, Helgi Grímsson skólastjóri Laugarnesskóla, Elísabet Haraldsdóttir skólastjóri Andakílsskóla, Guðlaugur Óskarsson, skólastjóri Kleppjárnsreykjaskóla, Flemming Jessen, skólastjóri Varmalandsskóla, Anna Guðmundsdóttir, aðstoðarskólastjóri Hrafnagilsskóla, Hrefna Egilsdóttir, verkefnisstjóri Hallormsstaðaskóla og Guðjón Árnason, skólastjóri Flúðaskóla.

LÍS verkefnið hefur verið í undirbúningi í hálft annað ár. Þar hafa sjö grunnskólar, ásamt fulltrúum skógræktar- og skólayfirvalda, unnið saman að mótun þess. Ljóst er að LÍS mun setja mark sitt á störf þeirra næstu tvö árin og Skógarskólarnir sjö munu verja stórum hluta skólastarfsins í vinnu að LÍS verkefninu. Um 1200 börn á aldrinum 6-16 ára og 220 fullorðnir starfsmenn taka virkan þátt í verkefninu, með því að læra, framkvæma  og leiðbeina hver öðrum við framandi og ný verkefni.

Hér á vef Skógræktar ríksins hefur verið opnaður sérstakur vefur LÍS þar sem ítarlegar upplýsingar um verkefnið er að finna. LÍS vefurinn
 

Myndirnar tók Ólafur Oddsson, verkefnisstjóri LÍS, er síðasti Skógarskólinn, Varmalandsskóli, var formlega tekinn inn í verkefnið.