Hér er verið að eiga við vel hirt belti og það gekk greitt. Vélin nær að teygja sig allt að 9 m. til hliðar. Ljósmynd: Sæmundur Þorvaldsson
Best er að sinna viðhaldi og mótun víðiskjólbelta frá upphafi og klippa þau með fárra ára millibili. Nokkuð hefur skort á að hentug tæki til skjólbeltaklippinga væru fyrir hendi hérlendis en nýlega fór Skógræktin með verktaka á nokkur býli á Vestfjörðum til að fylgjast með snyrtingu skjólbelta. Árangurinn reyndist vonum framar.
Landshlutaverkefni í skógrækt 1997-2016 studdu af kappi við ræktun skjólbelta hjá bændum. Á fyrri helmingi tímabilsins voru einkum ræktuð margra raða víðiskjólbelti en seinni árin var farið að leggja meiri áherslu á belti þar sem hávaxin tré eru uppistaðan, ásamt lág- og milliskjóli annarra tegunda.
Ástæða fyrir mikilli notkun víðis í skjólbelti var einföld. Beltin voru auðveld og ódýr í ræktun og ýmsar víðitegundir afar fljótsprottnar við erfið skilyrði þannig að árangur var skjótfenginn. En eins og stundum vill verða þá er skjótfenginn árangur ekki endilega sá sem gagnast vel og lengi. Víðitegundir eru nefnilega víðir en ekki tré og vaxa gjarna með lélegt eða ótraust vaxtarform. Í frjósömum jarðvegi er víðirinn oft afskaplega „lélegur til fótanna“ ef svo má segja, rætur ræfilslegar og liggja grunnt. Þegar upp vex umfangsmikill víðisláni hættir honum til að klofna, brotna eða rótarslitna og falla.
Talsverð vinna er að halda víðibeltum við og ef vel á að vera þarf að klippa með fárra ára millibili til að halda í skefjum og formi. Víðiskjólbelti sem ræktuð voru á Vestfjörðum og Vesturlandi hafa mörg hver löngu náð þeim aldri að þarfnast klippingar og viðhalds (og þótt fyrr hefði verið) en engar alvöru vélar hafa verið í boði á svæðinu til að sinna þessu fyrr en haustið 2018.
Guðmundur Freyr Geirsson, bóndi í Geirshlíð í Hörðudal í Dölum, fékk sér loks alvöru græju í þetta verkefni og í nóvember sl. fór undirritaður með honum á nokkra skjólbeltabæi á Vestfjörðum til að reyna gripinn við ýmiss konar aðstæður. Skemmst er frá því að segja að verkið gekk vonum framar og mun betur en þegar við prufuðum vélina fyrst en þá var víðirinn fulllaufgaður.
Eitthvað er til af sambærilegum verkfærum á landinu en ég held þetta sé eitt það öflugasta. En þetta kostar peninga og ég mældi afköstin í ferðinni vestur. Þótt þar hafi flest beltin verið óhirt að mestu fram að þessu voru afköstin umfram það sem ég hafði þorað að vona.
Beltin sem snyrt voru voru alls 4,8 km að lengd en alls voru eknir og klipptir tæpir 12 kílómetrar.
Afköstin voru frá 300 upp í 900 metrar á klukkustund, allt eftir aðstæðum við beltin og grófleika beltanna. Ég tel að með sæmilega tíðri klippingu, á 4-5 ára fresti, geti afköstin verið um 1 km á klukkustund. Það fer svo eftir því hvort klippa þarf í tveimur færum eða þremur hversu langan tíma tekur að klippa belti öðrum megin frá og þá annað eins hinum megin. Það tekur því 4 klst. að klippa 1 km langt belti á báðar hliðar og tvær færur á hvorri hlið. Miðað við verðlagningu Guðmundar í vetur er kostnaðurinn 70.000 kr/km. með virðisaukaskatti (4x17.500 kr.).
Auðvitað er best að sinna viðhaldi og formun beltanna reglulega alveg frá upphafi til að þau gegni hlutverki sínu sem best og lengst, að skýla ræktarlandi, búpeningi og mannvirkjum fyrir vindi.
Hér fyrir neðan er stutt myndband sem sýnir betur hvernig vélin var notuð til að klippa víðiskjólbeltin vestra og annað lengra þar sem Guðmundur Freyr verktaki lýsir betur eiginleikum tækisins. Þar fyrir neðan eru nokkrar ljósmyndir til viðbótar.