Engjakambjurt í Vaglaskógi. Mynd: Hörður Kristinsson.
Tegundin löngu fundin en rangt greind þar til nýverið
Engjakambjurt, Melampyrum pratense, hefur nú öðlast þegnrétt meðal jurta sem vaxa villtar í íslenskri náttúru. Tegundin hefur þrifist um árabil í Vaglaskógi en var lengi vel greind sem krossjurt. Erlendis treystir engjakambjurt á samlífi við maurategund og ekki er útilokað að sú tegund þrífist með henni í Vaglaskógi þótt það hafi ekki verið staðfest. Útbreiðsla jurtarinnar í skóginum bendir til að svo geti verið. Engjakambjurt lifir sníkjulífi á ýmsum trjátegundum.
Hörður Kristinsson grasafræðingur skrifar um þessa blómplöntu á síðu Flóruvina á Facebook. Fyrir mörgum árum hafi hún fundist fyrst í Vaglaskógi, en þá verið greind sem krossjurt, enda hafi hún engri annarri íslenskri jurt líkst en krossjurtinni, sem aðeins hafði fundist á Vestfjörðum. Svo skrifar Hörður:
Þegar teiknarinn okkar, Jón Baldur Hlíðberg, fór að teikna eintök úr Vaglaskógi, veitti hann því athygli að jurtin var frábrugðin krossjurtinni. Við nánari athugun kom í ljós að þetta var önnur tegund af Melampyrum, M. pratense, sem hafði fengið nöfnin engjakambjurt eða kúahveiti á íslensku. Blóm hennar eru ljósari og krónupípan lengri en á krossjurt, og blaðfótur laufblaðanna er áberandi tenntur löngum tönnum. engjakambjurtin er útbreidd um allan efri hluta Vaglaskógar, og myndar samfelldar breiður í skógarbotninum. Hún er nú komin inn á flóruvefsíðuna floraislands.is og er því hægt að bera tegundirnar saman þar.
Trjámaurar í skóginum?
Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, bendir á það á síðu Flóruvina að engjakambjurt treysti á samlífi við tiltekna viðarmaurategund til að viðhalda sér og dreifa. Á vef skosku skógræktarsamtakanna Trees for Life er fjallað um maura af ættkvíslinni Formica sem lifi samlífi með ýmsar aðrar lífverur í skóginum. Þar er engjakambjurtin einmitt nefnd sérstaklega. Fræ hennar seyti fitukenndu efni á yfirborði sínu sem maurarnir ali lirfur sínar á. Þeir safni fræjunum flytji í bú sín. Þannig dreifist jurtin meðal annars á svæði þar sem verið sé að rækta upp skóga á ný. Plöntutegundir af þessum toga eigi ekki auðvelt með að dreifa sér á ný þar sem þær hurfu áður nema með hjálp mauranna. Skilningur á slíkum ferlum í náttúrunni sé nauðsynlegur þegar unnið er að því að endurgera flóru skógarbotns á landi sem lengi hefur verið skóglaust.
Trjámaurar. Mynd: Trees for Life.
Hörður segist enga maura hafa séð þar sem engjakambjurtin vex í Vaglaskógi. Ekki er því vitað til þess að þessa tilteknu maura af ættkvíslinni Formica sé að finna þar í skóginum. Forvitnilegt væri að vita hvað skordýrafræðingar segja um þetta. Hörður segir eindæmum að sjá, hversu öfluga útbreiðslu þessi jurt hefur í skógarbotninum og í því ljósi er ekki galið að álykta að maurana geti vel verið að finna þarna. Hvernig ætti jurtin annars að breiðast svona mikið út?
Lifir sníkjulífi á trjám
Engjakamburtin er sníkjuplanta á skógarfuru í Finnlandi og líklega á mun fleiri trjátegundum eins og Aðalsteinn bendir á með vísun í grein eftir finnska vísindamenn. Sníkjulífið komi niður á vexti trjáplantnanna og því má álykta að plantan sé ekki aufúsugestur í skógrækt. Hörður segir að langmest af engjakambjurtinni í Vaglaskógi sé í birkiskógi en a.m.k. á einum stað vaxi hún líka í vel grisjuðum greniskógi. Það gæti þá bent til þess að engjakambjurtin sníki bæði af birki og greni þar í skóginum.
Hvernig engjakambjurt barst í Vaglaskóg í upphafi er erfitt að segja til um. Barst jurtin ein og sér eða barst maurinn umræddi í skóginn og hafði engjakambjurtina með sér? Um áratuga skeið var rekin gróðrarstöð á Vöglum og hægt er að ímynda sér að þessar tegundir gætu hafa borist með aðföngum þangað. Þetta eru þó aðeins vangaveltur.
Gaman væri ef fólk hefði augun hjá sér sem fer um Vaglaskóg og horfði eftir maurum þessum á slóðum engjakambjurtarinnar og kæmi upplýsingum til Skógræktarinnar eða Náttúrufræðistofnunar svo staðfesta megi tilvist þessarar maurategundar í skóginum.
Texti: Pétur Halldórsson